10 góð ráð fyrir basískara líf

Góð heilsa er það dýrmætasta sem við eigum. Það vill oft gleymast en rifjast upp þegar eitthvað bjátar á. Við kennum tímaleysi, peningum og öðrum utanaðkomandi aðstæðum um aðgerðaleysi okkar gagnvart okkur sjálfum. Í byrjun árs lét ég allar afsakanir lönd og leið, slökkti á símanum, skildi tölvuna eftir heima og dreif mig á heilsuhelgi í Héraðsskólanum á Laugarvatni með Mörthu Ernst. Markmiðið var að endurnæra líkama og sál. Martha er vel þekkt fyrir afrek n í langhlaupum en hún er einnig jógakennari, hómópati og hefur mikla þekkingu á því sem viðkemur andlegri og líkamlegri heilsu. Eftir þessa helgi er ég staðráðin í því gefa mér slíka næringu á hverju ári.

Þátttakendur áttu að mæta klukkan sex á föstudegi. Ég var heldur sein fyrir og hringdi klukkan sex úr Grímsnesinu til að láta vita að það væri tæpur hálftími í mig. Svo var gefið í þrátt fyrir myrkur, náttblindu, rigningu og rúðuþurrku sem virkaði ekki! Ég skrensaði loks inn í salinn þar sem allir sátu yfirvegaðir og búnir að fá sér heilsudrykk og kynna sig. Það var komið að mér! Móð og másandi, með axlirnar uppi undir eyrum eftir aksturinn, mætti ég loks á langþráða heilsuhelgi.

SÚR EÐA BASÍSK?

Það fyrsta sem Martha lét okkur gera, áður en dagskrá helgarinnar byrjaði, var að mæla hversu súr eða basísk við værum, eða svokallað ph-gildi. Því basískari sem við erum því betra; það gefur til kynna hversu heilbrigt blóðið í okkur er og minnkar hugsanlega til muna líkurnar á því að við verðum veik, fáum sveppasýkingar, gigt o.fl. Ákveðnar bakteríur og vírusar virðast þrífast vel í súru umhverfi og meðal annars er talið að krabbameinsfrumur eigi erfiðara uppdráttar í basísku umhverfi. Þar sem eitt af markmiðum helgarinnar var að gera sig basískari fékk hópurinn afhentan pappastrimil (hægt að kaupa í Heilsuhúsunum) sem mældi ástandið á líkamanum við komuna. Á þennan strimil pissuðum við og átti hann að breyta um lit eftir því hvar við værum á ph-skalanum. Mér til MJÖG mikillar undrunar breyttist liturinn á strimlinum mínum ekki neitt. Hann var áfram pissugulur, sem þýddi að ég væri mjög súr, eða um 5,5 ph. Best er að vera í kringum 7,4 en þá breytist liturinn á strimlinum líka í fagurgrænan. 

STRESS: AFLEIÐINGAR

Þetta fannst mér mjög „súrt“ því ég hafði tekið orð Mörthu alvarlega þegar hún mælti með því að við notuðum dagana á undan til að undirbúa líkamann fyrir afeitrun. Það átti að minnka líkurnar á höfuðverk og öðrum óþægindum um helgina. Ég fór með metnaðinn í botn og tók út allt kaffi, sykur og mikið unna matvöru í heila tvo daga á undan; drakk bara nýkreista safa, te og vatn, borðaði mikið grænmeti og sem mest af ferskri matvöru. Í ljósi þess átti ég von á að vera í basíska vinningsliðinu. Aðrir helgargestir voru út um allt á ph-skalanum en fáir voru jafn súrir og ég. Gat það verið bílferðin? Það var eina skýringin sem ég gat fundið enda staðfesti Martha það að stress gerir líkamann súran. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði séð áþreifanlega sönnun þess hvaða áhrif slík bílferð getur haft á líkamann. Þetta hafði mikið að segja fyrir mig. Ég legg það nefnilega í vana minn að fara af stað aðeins of seint og koma mér þannig reglulega í sömu stöðu og ég var í á leiðinni á heilsuhelgina. Þessi litla uppgötvun mín varð til þess að ég ákvað að hætta þessum leiða vana eftir að heim var komið. Það hefur reyndar tekið sinn tíma að komast upp úr gömlu hjólförunum en ég held samt ótrauð áfram að settu marki. Svo hef ég líka lært að þrátt fyrir að vera orðin sein þarf ég ekki að spenna mig upp og sætti mig bara við stöðuna sem ég er búin að koma mér í. Tek aðstæðunum eins og þær eru með opnum örmum, eins og einhver snillingurinn sagði.

DEKUR OG GÓÐUR FÉLAGSSKAPUR

Daginn eftir, á laugardeginum, heimtaði ég að fá að pissa aftur á strimil og gat þá loks tekið gleði mína á ný því strimillinn var orðinn fagurgrænn. Nú gat ég notið mín það sem eftir var helgarinnar. Jóga tvisvar á dag, gönguhugleiðsla úti í náttúrunni, gufa og heitir pottar í Fontana, slökun, fótaböð og olíur, ferskir safar og góður félagsskapur, toppað með frábærum basískum og næringarríkum mat, framreiddum af Mörthu sjálfri. Var ég í himnaríki eða hvað?

Screen Shot 2014-09-12 at 10.15.01 AM

Þar sem þetta var mín fyrsta ferð á slíka heilsuhelgi var ég forvitin að vita hvað hefði dregið samferðafólk mitt, sem ég þekkti ekkert fyrir, til að gefa sér tíma til að sinna sjálfu sér og hvað það fengi út úr því. Ég spurði m.a. Auði Rafnsdóttur kennara sem sagðist reyndar hafa farið í nokkur skipti enda gerði það henni svo gott. „Eftir svona helgi er ég léttari á mér og ekki eins uppþembd. Þrátt fyrir að ég lifi nokkuð heilbrigðum lífsstíl finnst mér gott að koma og rifja upp og koma mér í góðan gír aftur.“ Gríma Guðmundsdóttir fór hins vegar af því að Auður fékk hana með sér og maturinn var ástæðan fyrir því að hún sló til. „Mig hefur lengi langað að breyta um mataræði og fara að borða hollara en eftir þessa helgi langar mig líka að fara að stunda jóga,“ segir hún brosandi.

Ásdís Gíslason markaðsstjóri sagðist hafa verið undir miklu álagi og streitu í vinnunni undanfarið og þurft að trappa sig niður. „Ég hef aldrei farið á slíka helgi áður. Ég hef alltaf haft fordóma gagnvart jóga og ekki skilið muninn á þessum jógaaðferðum, ógrynni af tegundum til, en þegar Martha sagði mér að þetta snerist fyrst og fremst um að anda, ákvað ég að slá til og prófa og sé sko ekki eftir því.“

Júlíus pípari gerði það fyrir konuna sína að mæta en virtist njóta sín í botn. Alla helgina varhann að rifja upp gullmolana sem amma hans hafði kennt honum; til dæmis að drekka sítrónusafa í vatni á hverjum degi, fara í fótabað á kvöldin og tyggja matinn vel, svona fimmtíu sinnum. Svo hafði hún sagt að hann ætti ekki að setja sykur út á Kornflexið þar sem mjólkin væri með nógu mikinn mjólkursykurog hún náði 99 ára aldri! Ég held að áður en helgin var öll hafi Júlíus verið búinn að átta sig á því að amman hefði ekki bara verið með einhverja dynti heldur verið óvenjulega skynsöm og heilbrigð manneskja.           

Af hverju gerir maður þetta ekki oftar? hugsaði ég þegar ég keyrði „róleg“ frá Laugarvatni eftir vel heppnaða helgi!

10 ráð frá Mörthu til að gera líkamann basískari:

  1. Reyndu að hafa hlutfall mataræðis þíns 80% basísk og 20% súrt.
  2. MINNA SÚRT: Reyndu að borða sem minnst af unnum mat, hvort sem er úr dýraríkinu (t.d. unnar kjötvörur, ostur, ís, sykraðar mjólkurvörur) eða jurtaríkinu (t.d. franskar kartöflur, snakk). Minnka kaffineyslu, áfengisneyslu, sykur, einföld kolvetni, gosdrykki sem eru sýrumyndandi. 
  3. MEIRA BASÍSKT: Borða sem mest af óunnum mat úr jurtaríkinu; fersku grænmeti, sérstaklega grænu káli og salati, ávexti, fræ og hnetur. Gott er að byrja daginn á einu glasi af volgu vatni með safa úr hálfri sítrónu (helst lífrænni) því hún verður, þrátt fyrir að vera súr, basísk í líkamanum. Drekktu ferskt vatn á hverjum degi. Vatnið verður enn basískara með því að setja 1-2 dropa af „Alkalizer“ út í eitt glas af vatni. Það fæst í flestum heilsubúðum. Klorella og hveitigras er mjög basískt.
  4. Að taka inn magnesíum í duftformi á kvöldin er mjög basískt því það róar taugakerfið.
  5. Staldraðu við nokkrum sinnum á dag og taktu nokkra djúpa, meðvitaða andardrætti.
  6. Farðu út a.m.k. einu sinni á dag og fáðu góðan skammt af hreinu lofti og súrefni. Súrefnið hefur basísk áhrif á okkur.
  7. Stundaðu skynsamlega og uppbyggjandi hreyfingu að lágmarki 4-5 sinnum í viku, helst eitthvað á hverjum degi.
  8. Farðu á jóga-, hugleiðslu- eða slökunarnámskeið og temdu þér að iðka slíkt á hverjum degi og þannig minnka stressið í lífi þínu, bæði í vinnu og einkalífi.
  9. Lærðu að „temja hugann“, t.d. í gegnum hugleiðslu, öndun eða gjörhygli. Órólegur hugur getur valdið streitu.
  10. Að lokum: Ekki byrja á því að umturna öllu og ætla þér að gera allt í einu; gott er að taka sér góðan tíma í lífsstílsbreytingar og taka eitt nýtt inn í einu – smám saman finnur þú muninn og vilt ekki snúa tilbaka.

GREININ BIRTIST Í HEILD SINNI Í VORBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2014

Tögg úr greininni
, ,