8 atriði sem ofurnæmir ættu að hafa í huga

Það getur oft verið erfitt að vera til sem ofurnæmur einstaklingur, líkt og ég og fleiri á þessari jörðu vitum. Einfaldar athafnir eins og að skjótast hjólandi niður í bæ getur tekið virkilega á ofurnæmt fólk eins og mig. Það virðist vera þæginlegast að halda sig heima við, þar sem maður getur stjórnað umhverfi sínu. Bara það að stíga út í lífið getur verið erfitt fyrir ofurnæmt fólk. Munum að vísindamenn telja að þessi ofurnæmni eða ofurviðkvæmni sé meðfædd, því telst þetta ekki vera aumingjaskapur eða veikleiki. Ofurnæmir einstaklingar finna virkilega sterkar fyrir öllum áreitum í umhverfinu en einstaklingar sem flokkast ekki undir þessa næmni. Oft hefur mér liðið eins og ég fúnkeri ekki í þessum heimi og hef rifið sjálfa mig niður fyrir að vera svona „viðkvæm“. En ég hef alla tíð verið svona, alveg frá því að ég var barn, sem foreldrar mínir hafa tekið undir. Þegar ég hef nefnt einkenni ofurnæmra einstaklinga við þau, þá þekkja þau þetta í mínu fari. Ég mæli með því að þið skoðið hvort að þið hafið alltaf verið svona og talið við ykkar nánustu ef þið teljið ykkur tengja við einkenni ofurnæmra.

Mig langar svo ótrúlega mikið að breyta þessari orðræðu að það sé veikleiki að finna svona sterkt fyrir öllu. Þetta er svo miklu meiri blessun en bölvun fyrir allan heiminn að eiga svona einstaklinga innanborðs. Hér eru nokkur atriðið sem er gott fyrir ofurnæma einstaklinga að hafa í huga:

  1. Gervi og örvandi efni eru líkleg til þess að hafa mikil áhrif á þig

Sykur, koffín og nikótín geta haft sterkari áhrif á þig sem ofurnæman einstakling. Það getur virkilega hjálpað þinni andlegu líðan að halda þessum efnum í lágmarki.

  1. Áfengi og eiturlyf virðast vera eftirsóknarverð

Ofurnæmir einstaklingar eru líklegri til að leiðast út í deyfandi efni. Það getur verið eftirsóknarvert að deyfa sig í andartak þar sem þú virkilega þarft ekki að finna fyrir öllu svona sterkt. En því fyrr sem þú sættir þig við að svona ert þú og reynir að vinna með þessa næmni þér og öðrum til góðs þá langar þig ekki til þess að deyfa þig af jafn mikilli stærðargráðu og áður. Þá fer það að virðast eftirsóknarverðara að vera samkvæm/ur sjálfri þér.

  1. Þú ert í góðum félagsskap og ert ekki ein/nn

Margir af heimsins hæfileikaríkustu listamönnum, rithöfundum, tónlistarmönnum, heimspekingum og kennurum hafa verið ofurnæmir einstaklingar.

  1. Það er í góðu lagi að vera innhverf persóna

Það eru alls ekki allir ofurnæmir einstaklingar innhverfar persónur sem halda sig til hlés frá fólki, en margir af þeim eru það. Heimurinn tekur sinn toll og að vera einn getur virkað virkilega eftirsóknarvert á þessa einstaklinga. Það að bera þig saman við aðra og af hverju þú getur ekki verið svona opin/nn og stanslaust í hinum ýmsu félagslegu athöfnum er ekki bara ósanngjarnt gagnvart sjálfum þér heldur einnig virkilega óraunsætt. Taktu tillit til þinna þarfa og njóttu þess að vera sú eða sá sem þú ert, án þess að einangra þig of mikið. Finndu þínar þarfir og mörk.

  1. Þitt nánasta umhverfi skiptir öllu

Reyndu að stjórna þínu nánasta umhverfi. Taktu mið af hvar er best fyrir þig að búa, vinna og eyða þínum frítíma. Þetta skiptir miklu máli til að halda streitunni niðri í lífinu þínu til að halda jafnvægi og góðri andlegri heilsu. Að eyða tíma í náttúrunni hjálpar ofurnæmum einstaklingum gríðarlega mikið að finna innri ró og öryggi.

  1. Haltu fréttum, útvarpi, dagblöðum, netmiðlum í lágmarki

Það virðist vera alsaklaus hugmynd að fylgjast vel með fréttum og hvað það er sem er að gerast í heiminum en fyrir ofurnæma einstaklinga þá geta sífelldar fréttir af ofbeldi og neikvæðni virkilega lagst á sálina þeirra. Að sama skapi reyni ég eins og ég get að forðast ofbeldi í bíómyndum og þáttum. Netið og samfélagsmiðlar geta líka verið á gráu svæði, því myndi ég mæla með því að einblína á upplýsingar sem eru upplífgandi og minna þig á það fallega og jákvæða í þessum heimi.

  1. Samkenndin er virkilega frábær eiginleiki

Ég veit að það getur verið sársaukafullt að vera svona vel tengdur öðru fólki og þeirra líðan, hvort sem hún sé slæm eða góð en mundu að þetta er virkilega fallegur eiginleiki. Þetta gefur þér tækifæri á að tengjast öðrum sterkum böndum og gefur þér sterka innsýn inn í litróf tilfinninga og mannlegt eðli. Hugsaðu um samkennd þína líkt og hún væri ofurkraftur og notaðu hana til góðs fyrir þig og aðra.

  1. Það er ekkert að þér.

Sama hvað aðrir segja að þú sért viðkvæm/ur og afhverju þetta sé svona erfitt fyrir þig, mundu þá eftir því að standa með sjálfum þér. Það er ekkert að þér, þú fæddist ofurviðkæmur, þú finnur sterkt fyrir áreitum í umhverfinu, sterkri birtu, hljóðum, lyktum, list hreyfir djúpt við þér, þér finnst erfitt að vera í kringum mikið af fólki, þú átt það til að vera kvíðin/nn, þung/ur á þér og þér finnst heimurinn vera fara til andskotans. Mundu að allar þessar tilfinningar eiga rétt á sér og það er fallegt og lífsnauðsynlegt að til séu einstaklingar eins og þú og ég. Heimurinn þarf á ofurnæmum einstaklingum að halda, sem eru viðkvæmir, sýna öðrum mikla samkennd og umburðarlyndi. Það eru nefnilega ekki ofurnæmu einstaklingarnir í þessum heimi sem hafa áhuga á að hefja stríð og eða upphefja ofbeldi, heldur vilja þeir koma á friði fyrir sitt eigið sálartetur og annarra.

Ást og friður til ykkar.


Heimild:

Bókin: The Highly Sensitive Person: How to Thrive When the World Overwhelms You eftir Elaine N. Aros.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.