Á grænni hillu – Ingibjörg Stefánsdóttir

UMSJÓN Dagný B. Gísladóttir
LJÓSMYND Hallur Karlsson

Partur af því að koma sér upp grænni og heilsusamlegri lífsstíl felst ekki einungis í því að vera meðvitaður um hvað maður setur í líkama sinn heldur einnig hvað maður setur á hann. Og þá hvort þau efni sem maður notar séu góð fyrir heilsuna og umhverfið. Fjöldi óæskilegra efna eins og paraben og alúmíum eru í mörgum snyrtivörum og geta haft slæm áhrif á húð, heilsu og umhverfið yfirhöfuð. Sem betur fer hefur fjölbreytnin í umhverfisvænum snyrtivörum aukist mikið síðastliðin ár. 


Ingibjörg Stefánsdóttir, jógakennari, næringarráðgjafi, leik- og söngkona segir okkur frá daglegum venjum og rútínu þegar kemur að snyrtingu og hreinlæti.

HÚÐ

Fyrir nokkrum árum var ég alveg sjúk í alls konar krem fyrir andlitið en það hefur breyst og nú nota ég bara kókosolíu, blandaða með ilmkjarnaolíum. Ég hef alltaf verið frekar löt að bera á líkamann en það sem ég nota oftast núna er kókosolía. Mér finnst hún einnig frábær til að þrífa andlitið; þá ber ég hana á mig og tek síðan af með blautum þvottapoka og þannig næst allur farði vel af. Á morgnana blanda ég út í kókosolíuna „theraputic“-ilmkjarnaolíum. Mér finnst það alveg geggjað. Olíurnar eru frá Young Living og eru bestu olíur sem ég hef fundið. Þær eru alveg hreinar og öll vinnsla þeirra er vistvæn, sem mér finnst skipta miklu máli. Ég tek þá smávegis af kókosolíu, set út í hana einn dropa af rósaolíu og 2-3 dropa af lavender.  Ég nota líka Frankincense, sandalwood og myrru. Þetta eru allt frábærar olíur fyrir húðina, hlaðnar næringu. Stundum hef ég líka blandað olíunni í hrein sermi, sem mér finnst algjört dúndur.  

HÁR

Ég þvæ hárið ekkert rosalega oft, í mesta lagi einu sinni í viku. Ég nota heldur ekkert mikið af efnum í hárið því það er oftast í hnút eða tagli þessa dagana. Ég hef verið að nota sjampó frá Young Living og Burts Bees en hvort tveggja þarf að panta að utan. Ég ætla reyndar að prófa önnur sem ég ætla að panta og kannski selja á vefverslun Yoga Shala. Mér finnst alltof sterk lykt af mörgum efnum sem sett eru í hárið. En ég er alltaf að leita að hinu fullkomna efni sem er gott fyrir liðað hár. 

FARÐI

Þar sem ég er með þrjú börn er lítill tími til að punta sig en þegar ég geri það finnst mér rosalega gaman að gera mig fína, setja á mig varalit þegar tilefni gefst til. Það sem ég er að nota núna er mineral make up frá Youngblood, maskari frá Mac og kremaður sólarkinnalitur frá Chanel og varalitur frá Body Shop. Sem sagt vörur úr ýmsum áttum. 

ILMUR

Ég er löngu hætt að nota ilmvatn. Gat ekki hugsað mér að úða á mig ilmvatni og vera með ungbarn. Mér finnst agalegt þegar fólk baðar sig í of sterku ilmvatni; fæ alveg hausverk. Ef ég nota eitthvað eru það hreinar ilmkjarnaolíur.  Ein góð er til dæmis frá Young Living og heitir Joy. Ég nota heldur ekki svitalyktareyði.  Reyndar pantaði ég tvær gerðir frá Young Living um daginn fyrir manninn minn og mér fannst lyktin svo góð að ég hef nokkrum sinnum sett á mig líka enda alveg saklaust, eiturefnalaust og virkar. 

ANNAÐ

Ég elska að fara í andlitsbað, verð að fara að drífa mig.

NÆRING

Hef mikla trú á því að það sem maður setur ofan í sig hafi áhrif á húðina. Ég borða góða fitu eins og avókadó, góðar olíur, hreinsandi mat eins og sítrónur, engifer og andoxunarefni, til dæmis ber. Svo er að sofa vel. Góður svefn gerir kraftaverk fyrir húðina, sömuleiðis góð öndun og slökun. Og að sjálfsögðu að drekka mikið vatn!