Brahmacharya – Allt er gott í hófi

Brahmacharya er fjórða Yaman í Jógasútrum Patanjali, og án efa sú sem hefur verið mest rædd og jafnvel mistúlkuð. Brahmacharya hefur verið þýdd sem skírlífi en það er í raun bara hluti af merkingunni. Sanskrít orðið Brahmacharya er samsett orðinu car sem þýðir “að hreyfa” og brahma sem þýðir “sannleikur” í merkingu hins eina raunverulega eða æðsta sannleika. Við getum því skilið Brahmacharya þannig að við iðkum eitthvað sem færir okkur nær okkar æðsta sannleika. Samkæmt Upanisads, sem er undirstaðan í indverskri heimspeki, eru nemendur jógafræðanna hvattir til að stofna fjölskyldu. Þar af leiðir að Brahmacharya þýðir ekki endilega algjört skírlífi, heldur að viðkomandi sýni ábyrga hegðun á leið sinni í gegnum lífið. Brahmacharya gæti því verið þýdd sem “rétt notkun á orku” og á án efa mikið erindi við okkur í dag í öllum þeim hraða sem einkennir nútímasamfélag.

Andleg vinna og þroski krefst tíma, vilja og einbeitts áhuga. Ef við viljum ná árangri í einhverju í lífinu þá þurfum við að sinna því, hvort sem það er vinna, skóli eða eitthvað ekki eins áþreifanlegt og sjálfsskoðun. Allt sem við gerum og hugsum krefst orku. Meðan sumar gjörðir og hugsanir eru okkur til góða þá að sama skapi getur því verið þveröfugt farið og dregið okkur niður bæði líkamlega og andlega. Brahmacharya biður okkur um að velja viturlega hvert við beinum orku okkar og athygli. Að við gætum hófs á öllum sviðum lífs okkar, hvort sem það snýr að mat, svefni, vinnu eða kynlífi. Sem dæmi má nefna, að til að virkilega njóta góðs matar þá myndir þú ekki vera stanslaust að fá þér snarl, eða narta fyrir matinn. Að sama skapi þá nýtur þú matarins betur í góðum félagsskap. Segjum að þú ætlir að bjóða ástvini þínum í mat. Þú myndir leggja þig fram við matargerðina, draga fram fallegan borðbúnað, kveikja á kertum og hafa umhverfið sem allra hugglegast. Svo mynduð þið gefa ykkur tíma til að virkilega njóta matarins. Sama á við um kynlíf. Það að sofa hjá nýjum og nýjum einstakling krefst mikillar orku, andlega og líkamlega. Öll athygli þín fer í að koma á nýjum kynnum, og ekki er mikið af orku eftir fyrir þig til að beina að sjálfum þér og þínum persónulega þroska.

Sri Swami Satchidananda var spurður að því hvort skírlífis væri krafist af þeim sem stunduðu jóga. Hann gaf sér góðan tíma til að ígrunda og svara spurningunni, og það sem hann sagði var, að þegar kæmi að kynlífi skipti öllu máli að vera skilvirkur eða með hans orðum “I would say… in matters of sex… be efficient.” Manneskjan er kynvera frá náttúrunnar hendi og bæling á kynhvötinni hefur oftar en ekki miður góðar afleiðingar í för með sér. Kynlíf með manneskju sem skiptir þig máli er ekki sóun á orku, heldur tjáning á ástinni sem býr innra með okkur öllum.

Eins og áður hefur verið nefnt þá snýst Brahmacharya um það hvert við beinum orku okkar og athygli, og á það ekki bara við um kynferðislega orku heldur einnig hvað við erum að gera á degi hverjum. Mörg höfum við heyrt frasan “the Glorification of Busy” og stundum fær maður það á tilfinninguna að því lengri sem “to-do” listinn okkar er því meira upplifum við að við skiptum máli. Það er eins og við setjum þá kröfu á okkur sjálf að við þurfum að vera stanslaust upptekin við þetta og hitt til að finnast að við séum einhvers virði. Málið er að manneskjan þarf tíma til að vera, tíma til að sitja og stara út í loftið, til að hugsa og finna fyrir því sem er að gerast innra með henni. Við þurfum að gefa okkur tíma til að átta okkur á því hvað við viljum fá út úr lífinu, hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm. Tæknin í dag gerir okkur kleift að vera stanslaust upptekin. Jafnvel á rauðu ljósi er síminn tekin upp og kíkt á Facebook, Instagram eða eitthvað annað. Jógaástundun býður okkur að staldra aðeins við, gefa okkur tíma til að kynnast okkur sjálfum, til að upplifa og finna fyrir öllum þeim tilfinningum sem bærast innra með okkur, uppgvötva okkar dýpstu langanir og þrár.

Lokaorð þessarar greinar voru eitt sinn sögð af Howard Thruman og eiga sannarlega jafn mikið erindi í dag og þau áttu þá;

Don´t ask yourself what the world needs. Ask yourself what makes you come alive. And then go do it. Because what the world needs is people who have become alive.