Einn fagurbleikur

bleikur-sjeik
Um daginn fengum við Ömmu Hildi í lið með okkur og sýrðum rauðrófur eftir þaulreyndri uppskrift frá henni. Það skemmtilega við uppskriftina er að hún gefur bæði af sér sýrðar rauðrófur og dásamlegan rauðrófusafa. Við staupum okkur með þessum djúprauða safa á meðan hann endist, eða notum hann í sjeika. Þessi fagurbleiki sjeik varð til um daginn þegar við vorum að leika okkur með hugmyndatöfluna

Við notuðum nýlagaðan heimasýrðan rauðrófusafa, en þeir sem fyrir ótrúlega tilviljun eiga ekki slíkt góðgæti til í ísskápnum geta auðvitað fengið mjólkursýrðan rauðrófusafa á flöskum úti í búð. Svo er líka hægt að nota ferska rauðrófu, afhýdda og skorna í bita.

Hampfræin gefa góða áferð og næringu í sjeikinn, þau innihalda m.a. omega 3 og omega 6 fitur í fínum hlutföllum, góð prótein og fleira nærandi. Jarðarberin, engifersafinn og lukuma gefa drykknum gott bragð og karakter, bananinn og daðlan smá sætu (ef vill) og rauðrófusafinn gerir sjeikinn alveg ómótstæðilega litfagran!

Uppskriftin

1 msk hampfræ
1 dl rauðrófusafi
1 dl vatn eða kókosvatn
1-2 msk engiferskot eða engiferrót
1 tsk lukuma
12 jarðaber (fersk eða frosin)
1/2 banani
1 daðla

Aðferð

  1. Allt sett í blandara og blandað saman.
  2. Njótið í rólegheitum


Hér er sá bleiki í góðum félagsskap. Þessi gómsæti guli sjeik verður á dagsskrá síðar á heimasíðunni okkar www.maedgurnar.is

 

Dagatal 2017

NÝTT Dagatal fyrir árið 2017 innblásið frá náttúrunni. Fallegt heima og á skrifstofuna skoða nánar

áskrift af tímaritinu

Tímarit um heilbrigðan og sjálfbæran lífsstíl Skoða nánar

Skrifað af

Solla Eiriks og Hildur dóttir hennar halda úti glæsilegu nýju bloggi sem kallast Mæðgurnar. Þær hafa báðar brennandi áhuga á grænmeti og matargerð, umhverfisvernd og lífrænni matjurtarækt. Þær eiga það einnig sameiginlegt að hafa frá unga aldri haft áhuga á listum og lögðu báðar stund á listnám; sú eldri lærði myndlist, textíl og hannyrðir, sú yngri tónlist. Saman finnst þeim þær hafa fundið sköpunargleðinni og hugsjónum sínum góðan farveg í eldhúsinu.

Taktu þátt í umræðunni