Ertu í takt?

Það sem mig langar til þess að fjalla um í þessum pistli er hugmyndin um að vera í takt. Þá aðallega hvað það þýðir að vera í takt við sjálfan sig. Hefur þú spáð í að allt á sér náttúru? Þú átt þína náttúru, börnin okkar eiga líka sína náttúru. Það er oft talað um að allt sé eins og það á að vera, náttúran er nákvæmlega eins og hún á að vera, árstíðirnar koma þegar þær koma og þú þvingar ekki blómin til að springa út, þau springa út þegar skilyrðin eru fullkomin. Það sama á við um fóstur það fæðist, undir eðlilegum kringumstæðum, þegar það er tilbúið til að koma. Það er merkilegt að velta því fyrir sér að þegar kona gengur með barn í 9 mánuði þá höfum við ekki áhyggjur af því hvort nefið komi á réttum tíma eða neglurnar, við treystum ferlinu. Svo um leið og barnið fæðist þá segjum við „Jæja þetta gekk að óskum, takk fyrir vel unnin störf, núna tek ég við“. Allt í heiminum á sér náttúru, allt á sér ferli, en það erfiða fyrir okkur fullorðna fólkið getur verið að treysta eigin náttúru.

En þessi náttúra er oft að kalla á þig í gegnum innsæið þitt. Enginn getur sagt þér nákvæmlega hver þín náttúra er og þú getur ekki deilt þessari náttúru með neinum öðrum, því allir eru einstakir. Því er einstaklega mikilvægt að þú skoðir hvað það þýðir fyrir þig að vera í takt við sjálfan þig, að vera í takt við þína eigin sérstöku náttúru. Hvað vilt ÞÚ fá útúr þessu lífi? Ertu að þóknast fólkinu í kringum þig sem lifir ekki á sama takti og þú?

Til er hugtak sem kallast taktleysi, að vera taktlaus. Þetta hugtak er notað í tónlist og hreyfingu, þú hreyfir þig ekki í takt við tónlistina og ert því taktlaus. Þetta getur verið sett í andlegt samhengi en hægt er að þjálfa takt og það getur maður gert með því að fókusa á sjálfan sig og sinn eigin takt, hvernig hann slær, tengjast sjálfum sér og þá ertu líklegri til að geta tengt sjálfan þig við umhverfið þitt. Við höfum öll persónulega reynslu af taktlausu fólki sem kann ekki að lesa aðstæður og samskipti og virðist algjörlega vera á skjön við það sem er í gangi, en þá er um að gera að reyna að sjá að allir eru ólíkir, með ólíka náttúru, á ólíkum stað í ferlinu að finna sinn takt og að taktur eins passar ekki alltaf þínum.

Ein algengasta leiðin til að missa taktinn sinn, fara út af sporinu og fara að eltast við eitthvað sem er ekki í þinni náttúru er samanburður við annað fólk. Þessi samanburður færir okkur fjær okkur sjálfum. Til þess að vera tengdur eigin takti, þarftu að taka pláss í þessum heimi og koma þér í samband við þig með því að spyrja þig spurninga og reyna að hlusta á svarið sem kemur. Í því ástandi laðar þú að þér fólk sem hreyfir sig í takt við þig. Spurðu þig hvernig vinnutími hentar þínum takti? Matarvenjur? Rútína? Fólk? Ef við virkilega hlustum og treystum þá finnum við fljótt okkar persónulega takt og förum að treysta betur á hann; líkami okkar, til dæmis, segir okkur nákvæmlega hvernig hann vill láta koma fram við sig.

Núna er tími hækkandi sólar og mikillar birtu, þessi tími getur verið virkilega erfiður fyrir fólk sem þjáist af kvíða og þunglyndi, því náttúra vorsins og sumarsins er kannski ekki í takt við þeirra persónulega takt. Þá getur því fundist eins og þeim eigi að líða einhvern veginn öðruvísi en þeim líður, eigi að vera gera eitthvað annað, vera á öðrum stað, glaðari, hressari og orkumeiri og því getur vanlíðan aukist, því það sem gerist er að það hafnar sínum eigin persónulega takti út frá takti annarra og takti árstíðanna.

En ef það er eitthvað sem ég vil segja þér þá er það að alltaf alltaf alltaf skaltu taka tillit til og treysta þínu eigin flæði, takti, náttúru því þannig finnur þú innra jafnvægi. 

Sunna

Tögg úr greininni
, , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.