Fáðu sem mest út úr helginni

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og hversu stutt getur verið helgana á milli. Skyndilega er maður þó aftur mættur í skrifstofustólinn og það er mánudagsmorgunn á ný. Helgarnar geta flogið frá manni eins og örfáir klukkutímar ef maður fylgist ekki vel með. Listin að nýta helgarnar vel í það sem nærir þig getur bætt lífsgæðin til muna og gefið þá tilfinningu að þú hafir slakað virkilega vel á og notið þín. Að gefa sér þann tíma sem maður þarf til þess að finna út hvað það er sem maður vill og svo framkvæma það, er svo sannarlega tíma vel varið. Hér eru nokkrar uppástungur sem geta gefið helginni lit, næringu og meiri slökun:

1. Farðu í “mini” óvissuferð. Virkir dagar eru fyrir flesta, vel skipulagðir. Um helgar er um að gera að sleppa tökunum á strangri dagskrá, upphafi og endapunkti, og fara út í stefnulausa gönguferð/rannsóknarleiðangur þar sem ævintýrin hljóta að finnast. Þú getur tekið með myndavél, týnt plöntur eða talið túrista á leiðinni. Fer bara eftir hvar þú ert staddur/stödd, en mundu að njóta í núinu og láta umhverfið leiða þig áfram!

íhugunartréð2. Íhugaðu. Ekkert endilega á hefðbundinn hátt með hugleiðslu. Kannski geta dagbókarskrif hjálpað þér að fá yfirsýn, minnka áhyggjur eða komast að því hvað þú vilt raunverulega gera. Ertu að fylla dagskrána af hlutum sem þér finnst ekki einu sinni skemmtilegir? Gefurðu þér aldrei tíma í það/þá sem þú elskar mest? Skoðaðu íhugunartréð og finndu þína leið.

3. Prófaðu eitthvað nýtt. Það þarf ekki að vera róttækt eða kostnaðarsamt og möguleikarnir eru óteljandi. Nýtt getur þýtt að prufa nýjan rétt ef þú hefur gaman af því að elda eða baka. Þú getur líka prófað að teikna með lokuð augun með krökkunum, lesið bók um málefni sem þú veist ekkert um, verið í þögn í hálfan dag, farið í nýja sundlaug og spjallað við fólkið í pottinum, farið í prufutíma í jóga, búið til eitthvað frá grunni eða jafnvel farið í gallerý eða safn sem þú hefur aldrei heimsótt. Svo fremi sem það er eitthvað sem þú hefur aldrei gert áður!

4. Gerðu skyldurnar örlítið skemmtilegri. Litlar breytingar geta gert kraftaverk fyrir heimilisverkin. Hlustaðu á góða tónlist á meðan að þú þrífur eða podcast/útvarpsþátt um þitt hugðarefni. Taktu með skemmtilegt spil í fjölskylduheimsókn og búðu til sérstaka samverustund ( þar sem enginn er í símanum) eða gerðu leik úr því sem þarf að gera á heimilinu og fáðu fjölskylduna með í fjörið, verðlaun í boði!

Góða helgi!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.