Ferðalagið þitt

Hugleiðing um jóga

Hvort sem þú ert nýfarin/n af stað eða komin/n vel á leið er mikilvægt að hugsa jógaiðkun þína sem ferðalag. Í þetta ferðalag þarft þú lítinn farangur þar sem þú verður að hafa nóg pláss fyrir þá hluti sem þú munt sanka að þér á leiðinni. Þú veist ekkert hvert ferðalagið tekur þig en þú horfir fram á veginn með eftirvæntingu. Á leið þinni verða ýmsar hindranir, óvæntar uppákomur, mikil hamingja og vellíðan, ófyrirsjánleg atvik sem hafa áhrif á þig, þú ferð út fyrir þægindarammann og lærir að hlusta á sjálfan þig. Ferðalagið mun einnig styrkja þig og móta sem einstakling, en mundu að þetta er þitt ferðalag sem þú ferð á þínum eigin hraða.

Jógaiðkun krefst mikillrar ró og friðar og er nauðsynlegt að læra að finna þessa ró með því að skilja verkefni og hugsanir dagsins eftir fyrir utan rýmið sem þú iðkar í. Þú ert að leita að innri frið og styrk og vinnur mikið með þolinmæði þína og sjálfan þig. Þú þarft að byggja upp jákvæða og uppbyggilega gagnrýni gagnvart þér og öðrum og losa þig við neikvæða gagnrýni. Þú lærir að beina einbeitingunni innra með þér og passar að gera æfingarnar ekki fyrir neinn annan nema sjálfan þig. Um leið og þú ferð að bera þig saman við aðra og brjóta sjálfstraustið niður, eða gera æfingarnar til þess að vekja aðdáun annarra og þar með láta egoið taka yfir, þá hefur þú misst tengslin við sjálfan þig og gerir æfingarnar á röngum forsendum. Tilgangurinn er að styrkja og efla þig með því að vera trúr sjálfum þér og gera æfingarnar með réttum ásetningi.

Í jógastöðunum ertu ávallt að finna leiðir til þess að komast lengra og dýpra og fá það sem þú getur út úr stöðunni sem þú ert í hverju sinni. Ekki endilega líkamlega – heldur einnig andlega. Það þarf kjark til þess að þora að gera meira en mundu að setja þér raunhæfar væntingar. Þú þarft að læra á líkama þinn og hugsanir, fylgja líkamlegu getu þinni og mynda gott samband við þolinmæði þína og innri styrk.

Mundu vel hvað þú lærir á ferðalaginu og ekki gleyma þeim tilfinningum, hugsunum og upplifunum sem verða á vegi þínum. Njóttu hvers augnabliks – alltaf – þar sem þú munt ekki upplifa það aftur. Hugsaðu jákvætt fram í tímann, leggðu fortíðina til hliðar og lifðu í núinu þar sem þú gerir eins vel og þú getur hverju sinni.

Góða ferð!

Tögg úr greininni
, , , ,