Gómsætt glútenlaust brauð

Lifðu til Fulls gefur okkur uppskrift af næringarríku glúteinlausu brauði með grænu te, ávöxtum og hnetum.

Innihald

250 gr. möndlumjöl

3 tsk vínsteinslyftiduft

3 msk husk

2 egg

130 gr apríkósur

5-6 döðlur

2-3 msk rúsínur

100 gr valhnetur (eða aðrar hnetur sem þér finnst góðar)

50 gr glútenlausir hafrar

50 ml hrísmjólk/möndlumjólk

250 ml vatn

1 poki af grænu tei

2-4 msk fræ að eigin vali (val)

Aðferð

1. Skerðu döðlurnar og aprikósurnar í bita og settu í pott ásamt vatni, rúsínum og græna teinu. Leyfðu suðunni að koma upp og sjóða í nokkrar mínútur. Taktu síðan græna teið úr pottinum og settu hafrana út í og leyfðu þeim að bíða á meðan þú græjar restina.

2. Blandaðu saman þurrefnunum í skál

3. Hrærðu eggin saman og helltu þeim yfir þurrefnin ásamt hrís/möndlumjólkinni. Hrærðu vel saman í hrærivél eða með sleif.

4. Bættu svo við hnetunum, ávöxtunum og höfrunum í skálina. Deigið á að vera frekar blautt þegar öllu hefur verið blandað saman.

Þar sem mér finnst alltaf svo gott að hafa brauðin mín gróf og full að næringu bæti ég við alls konar fræjum, t.d graskersfræjum, sesamfræjum eða hörfræjum. Ég hef einnig notað möndlur í brauðið. Ef þér finnst það líka gott þá máttu endilega bæta því við, svona 2-4 msk af fræjum (fer eftir smekk).

5. Settu deigið þá í mót með bökunarpappír ig bakaðu í 40-50 mín á 180 gráðum. Stráðu yfir það sesamfræjum eða öðrum fræjum (val).

Þar sem ofnar eru svo mismunandi, þá mæli ég með að þið kíkið á brauðið eftir 40 mín og potið í það. Ef það er ekki blautt lengur þá er það tilbúið.

Njóttu Vel!

Sara Barðdall heilsumarkþjálfi Lifðu Til fulls

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.