Gönguhugleiðsla

Martha er reglulega með heilsuhelgar þar sem að gönguhugleiðsla er partur af dagskránni

Gönguhugleiðsla er góð leið til að hvíla hugann og endurnæra líkama og sál.

Gönguhugleiðsla felst í því að þú ferð út að ganga og beinir athyglinni fyrst og fremst að önduninni. Ef hugurinn fer að reika skaltu leyfa því að gerast í rólegheitum en beina svo athyglinni aftur að önduninni. Þegar byrjað er að stunda gönguhugleiðslu er líklegt að ýmsar hugsanir magnist upp en með æfingunni lengist smám saman sá tími sem þú getur gengið og hugleitt án truflana hugarskvaldurs. Með tímanum byrjar þú að skynja hljóðin í náttúrunni enn sterkar, svo sem fuglasöng og lækjarnið, og finnur jafnvel innri frið og kyrrð. Þegar komið er á þann stað sem göngunni er heitið, getur verið gott að setjast niður og halda áfram að hugleiða í gegnum öndunarathygli. Að því loknu getur þú gengið aftur heim á leið, létt/ur í lund og betur tengd/ur við þitt innra sjálf.

Það gæti líka verið góð hugmynd að fá nokkra vini og félaga með í gönguhugleiðslu og sjá hver útkoman verður. Gönguhugleiðsla í hópi getur nefnilega verið mikil áskorun því flestum finnst fremur undarlegt að ganga með öðrum án þess að ræða saman eða fylgjast að.

Best er að stunda gönguhugleiðslu fjarri umferðarnið og helst í kyrrlátu umhverfi. Ef það er ekki hægt er þó engin ástæða til að láta það stoppa sig frá því að prófa. Í fyrstu er skynsamlegt að ákveða fyrirfram þá vegalengd sem ætlunin er að taka í gönguhugleiðsluna. Þannig verður gangan léttari og virðist ekki óyfirstíganleg. Og endilega skildu i-Podinn eftir heima!

Martha Ernstsdóttir

 

Tögg úr greininni
,