Grænkálssalat með granateplum og avókadó

Grænkálssalat með granateplum og avókadó

JÚLÍA MAGNÚSDÓTTIR HEILSUMARKÞJÁLFI VAR SVO VÆN AÐ GEFA OKKUR UPPSKRIFT AÐ GÓMSÆTU GRÆNKÁLSSALATI ÚR MATREIÐSLUBÓKINNI LIFÐU TIL FULLS.

Lifðu til fulls uppskriftabók

GRÆNKÁLSSALAT MEÐ GRANATEPLUM OG AVÓKADÓI

Það jafnast ekkert á við sæta bragðið af granateplum, þau gefa salatinu dásamlegt bragð og hefja það upp á næsta stig. Granatepli eru sérstaklega rík af kraftmiklum andoxunarefnum og talin geta dregið úr bólgum og sveppasýkingu ásamt því að stuðla að bættri hreyfigetu. Avókadóið er einnig gríðarlega hollt enda stútfullt af próteinum, trefjum, andoxunarefnum, fitusýrum og fólínsýru.

– Meðlæti fyrir tvo
4 handfyllir grænkál, eða um 250 g
½ gúrka
½ bolli granateplakjarnar
1 avókadó
handfylli graskersfræ 

TAHINIDRESSING
2 msk ólífuolía
1 ½ msk tahini
2 msk eplaedik
safi úr einni límónu
svartur pipar

Fjarlægið grænkálið af stönglinum. Skerið eða rífið í hæfilega bita og setjið í salatskál. Blandið sósuna með gaffli í lítilli skál og hellið henni yfir grænkálið, veltið með höndum (eða tveimur skeiðum) til að mýkja það. Opnið granateplið með með því að skera blómið af toppnum. Skerið næst varlega í fjórar rákir langsum eftir eplinu og fjarlægið börkinn eins og gert er þegar appelsína er skræld. Fjarlægið næst himnuna (þunnu blöðin) frá granateplakjörnum. Ef illa gengur að losa himnuna frá er gott að leggja kjarnana í bleyti, þá flýtur himnan upp. Þá er auðvelt að veiða þá uppúr. Dreifið gúrku, graskersfræi, avókadói og eplakjörnum yfir salatið og fegrið með því að toppa með örlítið fleiri granateplakjörnum efst.

Fyrir matarmeira salat og auka prótein má bæta við rifnum gulrótum og rauðkáli, kirsuberjatómötum og kjúklingabaunum.

1 athugasemd

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.