HEILSULINDIN – HEIMA

Atta_eldhusrad_flatten-1

Í síðasta tölublaði Í boði náttúrunnar spáðum við í því hvað væri gott að setja á húðina. Gott ráð er að setja ekki neitt á húðina nema að þú getir borðað það líka, svo að við gerðum nokkrar tilraunir. Opnaðu eldhússkápana og þú finnur allt sem til þarf í gott dekur því margt af þeim góða mat sem við erum vön að setja ofan í okkur er líka hægt að nota til að fegra okkur utan frá:

  • Hunang: Græðandi, bakteríudrepandi og rakagefandi.
  • Ólívuolía: Rík af andoxunarefnum, dregur úr bólgu og er græðandi.
  • Hrásykur: Gróf kornin eru fullkomin og ódýr leið til að fjarlægja dauðar húðfrumur.
  • Egg: Fullt hús af næringu!
  • Sítróna: Rík af andoxunarefnum, græðadi og nærandi.
  • Haframjöl: Bólgueyðandi, bakteríudrepandi og jafnvel talið sveppaeyðandi.

 

4 blöndur úr eldhússkápnum sem við kunnum að meta!

 

HUNANG + ÓLÍVUOLÍA = DJÚPNÆRING/RAKAMASKI

Hitið örlítið ½ bolla af hunangi (ef þarf) og blandið saman við ¼ bolla af ólívuolíu. Makið því í hárið og setjið það í snúð í 30 mín. Skolið úr og þvoið mjög vel með sjampói. Einnig gott að nota þessa blöndu á þurra húð.

HUNANG + HRÁSYKUR = ANDLITS- OG LÍKAMS SKRÚBBUR

Takið jafnt hlutfall af  hunangi og frekar fínmöluðum hrásykri og blandið saman. Nuddið á raka húð með hringlaga hreyfingu þar til húðin roðnar. Skolið af með volgu vatni og berið gott rakakrem á húðina á eftir. Hún verður silkimjúk.

EGGJARAUÐA + SÍTRÓNUSAFI = ANDLITSMASKI

Blandið saman eggjarauðu og safa úr hálfri sítrónu. Berið á andlitið og passið að það fari ekki í augun. Leyfið blöndunni að vera á í 30 mín. Hreinsið af með volgu vatni og berið á ykkur rakagefandi krem. Nærandi maski, góður gegn bólum og/eða roða í húð.

HAFRAMJÖL + NÆLONSOKKUR = NÆRANDI BAÐ

Setjið handfylli eða tvær af haframjöli í sokk eða ofan í klipptar sokkabuxur. Bindið hnút fyrir gatið og setjið pokann undir vatnsbununa á meðan þið fyllið baðið. Liggið í baðinu í a.m.k. 20 mínútur og gott er að nudda húðina með hafrasokknum! Húðin verður silkimjúk og haframjölið getur haft mjög góð áhrif á exem, sólbruna o.fl.

 

áskrift af tímaritinu

Tímarit um heilbrigðan og sjálfbæran lífsstíl Skoða nánar

Dagatal 2017

NÝTT Dagatal fyrir árið 2017 innblásið frá náttúrunni. Fallegt heima og á skrifstofuna skoða nánar

safnaðu tímaritinu

Eldri blöð kosta einungis 850 kr. Skoða nánar

Skrifað af

Dagný er vefritstýra ibn.is og ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar. Hún er með BA próf í Ritlist og Listfræði og MA próf í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Dagný er vatnsberi, lærður jógakennari með ástríðu fyrir handverki, náttúruvernd og heilnæmum lífstíl.

Taktu þátt í umræðunni