Heitustu heilsustraumar ársins 2015

Munum við stíga heilsuskref fram á við árið 2015? Já, ekki spurning. Það eru mörg fögur blóm að springa út í heiminum í dag. Og við teljum að það muni líka gerast hér á Íslandi. Hér eru 10 heilsustraumar sem við systur teljum að muni vaxa og dafna á árinu, sem og á næstu árum.

1. Farsæld umfram hagsæld

Jafnvægi er nýja leiðin sem við munum velja í ríkari mæli árinu. Það er staðreynd að 98% fólks vill að líf sitt hafi tilgang, en sé ekki eingöngu endalaus “sálarlaus” vinna. Fólk nennir ekki lengur að vinna sér til óbóta sem bitnar á fjölskyldu og einkalífi. Nýjasta dæmið er kynslóðaskiptin í læknastéttinni sem neitaði að gera samninga um óendanlega yfirvinnu. Farsæld umfram hagsæld nær nýjum hæðum á árinu.

2. Morgundjamm í stað kvöldjamms

Það fer að vera minna eftirsótt en áður að djamma á kvöldin til þess að fá sér glas og mynda viðskiptaengsl. Á næstu árum fer að glitta meira í að fólk hittist eldsnemma á morgnanna, hugleiði eða fljóti saman, borði hollt og myndi tengsl. Þessi þróun er hafin í New York og verður komin til Íslands fyrr en við höldum. Ekkert “bús bara djús” og hver veit nema einhverjir dansi líka inn í daginn?

3. Útivist verður heitari

Þar sem flestir vinna orðið við skrifborð og eru innilokaðir alla daga, verður þráin eftir útivist og hreyfingu undir berum himni sterkari. Hjólreiðar, hlaup, göngur, hestaíþróttir, garðyrkja, boltaíþróttir og jafnvel jóga og hugleiðsla líka (á sumrin) færist meir og meir út undir bert loft. Líka á Íslandi.

4. Bætiefnaheimurinn í endurnýjun lífdaga

Mörgum þykir sem bætiefnaheimurinn sé afar ruglingslegur, sérstaklega þar sem þú færð nú vítamín- og bætiefni út um allt, í stórmörkuðum og næstum því á bensínstöðvum, hjá fólki sem hefur ekki hugmynd um hvað það er selja. Það er sem betur fer að stíga fram ný kynslóð vítamín- og bætiefnaframleiðenda sem eru vandvirkari en forverar þeirra, hvað varðar innihald, vinnslu og þekkingu. Þessi fyrirtæki munu ekki selja bætiefni í gegnum stórmarkaði eða aðra sem ekki hafa þekkingu eða geta veitt þá þjónustu sem þarf til. Auk þess sem verið er að taka stórstíg gæðaskref í framleiðslu “heilla” bætiefna og vítamína, byggða á nútímavísindum í bland með gamalli reynsluþekkingu sem m.a. liggur í Ayurveda, kínverskum lækningum og grasafræðinni.

5. Hinn fullkomni líkami, er þinn líkami

Sem betur fer eru hugmyndir manna og kvenna um hinn staðlaða líkama að breytast. Fólk kann að meta granna, stælta, mjúka og þykka og allt þar á milli. Heilbrigð sál og í hraustum líkama er málið í dag. Framkallaðu fallegstu þig er mottó ársins. Þetta snýst allt um bassatóninn í okkur öllum. Góð líðan er fallegasta “lookið” 2015.

6. Tískuiðnaðurinn öðlast gagnsæi

Hellingur af allskyns baráttuhreyfingum hafa sprottið upp í heiminum sem vilja fá að vita hvaðan klæði okkar koma og hvað er í þeim. Það endar með því að tískuiðnaðurinn mun þurfa að stíga það mikilvæga skref að segja okkur hvernig fatnaðurinn er unninn, hvar, við hvaða aðstæður, hverjir sauma á okkur, hvernig efnin eru unnin og hver eru launin? Um leið og við náum betri tengslum við okkur sjálf og þar með annað fólk, gefur það auga leið að við spáum meira í hverju við klæðumst. Er t.d. fatnaður okkar uppfullur af eiturefnum sem við frásogum í gegnum húð okkar? Þarf einhver að blæða fyrir fínu fötin okkar? Eru sanngjörn viðskipti viðhöfð? Allt löngu tímabærar spurningar.

7. Hafðu orðið litningaendi í huga!

Seint á árinu 2013 náði Dr. Dean Ornish nokkurri athygli þegar vísindarannsókn hans gaf sterkar vísbendingar um að breytingar á lífsstíl og mataræði; eins og það að stunda jóga, hugleiðslu og að borða meira úr jurtaríkinu, gæti lengt litningaenda okkar, sem hefur áhrif á það að við eldumst mun betur og höfum sterkari varnir gegn sjúkdómum. Það er alveg á tæru að telomeres, eða litningaendar, verða áfram til rannsóknar og umræðu á komandi árum. Við bendum á heimildarmyndina The Connection sem vakti mikla athygli á síðasta ári. Þar segir fullum fetum að ef líkami og andi eru ekki tengd, veldur það sjúkdómum.

8. Hreyfinga “alætur”

Þeim fer fækkandi sem stunda aðeins eina tegund hreyfingar; hlaupa eða hjóla eingöngu, eru bara í lyftingum eða stunda aðeins eina tegund af jóga. Fleiri og fleiri kjósa að stunda tvær eða fleiri tegundir af hreyfingu árið um kring, eða jafnvel árstíðabunda.

9. “Heilt” hollustufæði breiðist út

Það er óhætt að að segja að háværustu breiðfylkingarnar í mataræðis straumum og stefnum undanfarin misseri hafa verið veganar (jurtaætur) og þeir sem aðhyllast paelo kenninguna. Nýjasta hreyfingin sem ku vera í fæðingu (undan þessum tveimur) hefur verið kölluð “pegan”, blanda af vegan & paelo. Þar er fókusinn á holla, heila (whole foods), næringarríka og hreina fæða. Í raun mat eins og amma og afi borðuðu (fólk sem fætt er fyrir 1930 og stundum talað um sem hraustustu kynslóð Íslandssögunnar), með jafnvel enn fjölbreyttara grænmeti, a.m.k. miðað við Ísland.

10. Heilsuveitingastöðum fjölgar

Æ fleiri veitingahús munu bjóða heilsusamlegt og næringarríkt mataræði á næstu árum, án þess þó að þurfa að kalla sig “grænmetis/heilsuveitingastaði”. Það er vegna þess að hráefni er beint frá býlum, afurðir frjálsra dýra sem hafa fengið að borða gras, lífrænt grænmetisfæði, allt hreint og ómengað, jafnvel glútenlaust og margt annað, er að verða sjálfsagður þáttur í mataræði margra. Og er að auki sælkerafæða. Kannski má gera ráð fyrir grænum þeytingum á ólíklegustu veitingastöðum á næstu misserum?

Það eru áhugaverðir tímar framundan, svo vægt sé til orða tekið!

Innblástur okkar er m.a. fengin af mindbodygreen, huffington post, guardian, naturalnews, íslenskum raunveruleika ofl.

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir