HERÐARSTAÐAN “Drottning” Asana

Jógastaða vikunnar

HERÐARSTAÐAN: (Sarvangasana)

Jógarnir kenndu okkur að aldurinn mælist ekki í árunum heldur í ástandi hryggjarins. Þegar við styrkjum og örvum hryggjarsúluna þá örvum við flæði í mænunni og styrkjum taugakerfið. Við erum eins ung og ástand hryggjarins! Eins og gengur eru sumar jógastöður meira krefjandi en aðrar, en líka mjög einstaklingsbundið. Því mikilvægt að hlusta vel á sinn eigin líkama. Þinn líkami er alltaf þinn besti kennari þó best sé að læra jóga undir leiðsögn kennara.

STAÐAN:

Liggðu á bakinu og lyftu fótleggjum og mjöðmum upp. Notaðu hendurnar til að lyfta mjöðmunum vel upp og tánum fyrir ofan nefið, ef hægt er. Ganga herðablöðum og olnbogum vel saman. Leyfðu höku að síga að bringu en aldrei snúa höfði í þessari stöðu. (Enga púða undir höfði).  Notaðu axlir og olnboga eins og gott statíf. Forðast ber að setja þungann á hálsinn. Stundum er staðan kölluð kertsastjakinn. Tærnar eru loginn á kertinu!  Andaðu rólega að og frá í ca. 30-60 sekúndur. Ef þrengir að önduninni, einbeittu þér þá að djúpri magaöndun, eða farðu í hálfa herðastöðu. Komdu svo rólega niður (jafnvel í plóginn á leiðinni niður – tær á gólfi fyrir ofan höfuð og krækja höndum saman).  Gefðu þér góðan tíma  að “þiggja áhrifin”, því það er 2.stig jógastöðunnar og einna mikilvægast!

ÁHRIF: 

Herðastaðan styrkir og liðkar hrygginn. Opnar vel axlir og efra bak. Staðan er mjög góð fyrir skjaldkirtil og hormónakerfið, enda mælt með að konur geri herðastöðuna daglega. Mjög góð fyrir meltingu eins og allar “öfugar” jógastöður.  Opnar bringu, háls og axlir. og gefur dásamleg áhrif þegar við opnum fyrir orkuflæði í hryggnum. Að snúa líkamanum við er mjög öflugt fyrir heilsuna, örvar flæði upp til heila, endurnýjar orkuna og róar hugann

Herðastaðan er mín uppáhalds jógastaða. Maður skynjar eins og brjóstholið galopnist, finnur aukið flæði og gleðihormón um allan kroppinn. Ef hugurinn er órólegur þá er herðastaðan ein sú allra besta. Og hver þarf ekki að róa hugann? Róleg öndun róar hugann, með kyrrlátann huga er einbeitingin betri og lífið betra.  Anda – Slaka – Finna og Njóta!

Tögg úr greininni
, ,