Hugleiðslan mín: Arnbjörg Kristín

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir er jógakennari, jógískur ráðgjafi og leiðsögukona. Hún spilar á gong í heilandi tilgangi víða um landið, reglulega í Nauthólsvík og í Yogashala. Framundan hjá henni er margt skemmtilegt, en hún er að vinna að útgáfu Gong appi og einnig að útgáfu möntrutónlistar.  Það er ekki nóg með það heldur skipuleggur hún viðburði með Jóga í vatni, verður gestakennari á YogaMoves viðburði í Gamla Bíói þann 11.febrúar nk og verður með í Reykjavík Peace Festival í Hörpu 21.febrúar. Þar á milli kennir hún hugleiðslunámskeið í Jógasal Ljósheima og YogaLind á Akureyri. Önnur áhugamál hennar má nefna mannrækt, öll listform og sköpun, náttúran, barnauppeldi, jóga og hugleiðsla. Við fengum að forvitnast um hennar hugleiðsluvenjur í tilefni Friðsæld í febrúar:

ArnbjorgogYmir

Af hverju fórstu upphaflega að hugleiða?

Af því að mér leið eins og ég væri ekki á réttri leið í lífinu og vantaði dýpri tengsl við tilganginn minn, finna sátt við sjálfa mig og aðra og lifa í meira flæði.

Hvernig hugleiðir þú og hve lengi í senn?

Ég hugleiði í um 11 mínútur á dag og stundum oftar en þá tengi ég hreinlega djúpt inn á stund og stað þar sem ég er og tæmi hugann.

Hvar finnst þér best að hugleiða og af hverju?

Við hafið eða við tré. Það er eitthvað við vatn sem róar mig niður tilfinningalega og andlega. Tré eru náttúrulegur lofthreinsari og þar er líka gott að hreinsa hugann í kærleika.

Hvað gerir hugleiðsla fyrir þig?

Hjálpar mér að upplifa lífið á skýrari og einfaldari hátt. Hjartarýmið hefur vaxið og nær að umfaðma stærri og fjölbreyttari veruleika en áður. Einnig þykir mér dýrmætt að hafa lært að elska sjálfa mig eins og ég er.

Getur þú nefnt dæmi þar sem að hugleiðslan kom sér sérstaklega vel?

Í sorgarferli eftir að pabbi minn dó og í gegnum ýmis áföll sem stóðu mér nærri. Að finna hugarró var eins og að fá súrefni innan um erfiðar tilfinningar sem komu upp.

Hverju mælir þú með fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hugleiðslu?

Veljið einföld markmið (ss. bæði tímalega og hversu flókin hugleiðslan er) og hafnið engum hugsunum eða tilfinningum sem koma upp. Leyfið ykkur að finna en festist ekki í upplifuninni. Andið djúpt og farið á stað handan þess sem kemur upp í hugann. Fylgið hjartanu varðandi hvar þið lærið hugleiðslu og verið óhrædd að prófa aðra aðferð ef hin virkar ekki því þetta er ekkert persónulegt heldur spurning um hvað hentar best fyrir þína vitund.


Fylgist betur með Arnbjörgu HÉR