Jafnvægi á ferðalagi

Það er upplagt að ferðast um landið okkar yfir sumartímann þegar heitt er í veðri og vegir auðir um allt land. Landið okkar býður upp á einstaka fegurð og er ekkert skrýtið að hingað streymi fjöldi ferðamanna árlega. Fallegi mosinn, fossarnir, fjörurnar, fjalladýrðin, sveitirnar, náttúrulaugarnar og ég gæti lengið talið upp áfram. Ég elska þetta allt saman.

Eftir að ég byrjaði að borða hollan og hreinan mat hef ég tekið nokkrar útilegur þar sem ég hef þurft að grípa til minna ráða til að allt gangi upp í mataræðinu. Ég hef t.d. haldið af stað á Þjóðhátíð í Eyjum með kæliboxið fullt af hollum mat sem ég hafði undirbúið fyrir helgina þar sem ég gisti í tjaldi. Nú síðast ferðaðist ég í Ástralíu á húsbíl, ásamt kærasta mínum, þar sem við elduðum á hverjum einasta degi og oft á dag. Það var mjög gaman og algjört frelsi að geta græjað allt sjálfur og vitað hvað maður er að láta ofan í sig. Maður verður að sjá allt í lausnum en ekki vandamálum, þá verður þetta allt saman leikur einn. Ég ætla að deila með þér hvernig ég hef verið að tækla mataræðið í útilegum.

Undirbúðu

Ef þú vilt upplifa vellíðunina sem fylgir því að borða holla og hreina fæðu verður þú að undirbúa þig og hafa aðeins fyrir hlutunum. Það þarf alls ekki að vera leiðilegt og getur orðið mjög skemmtilegt ef þú kýst að hafa það þannig. Það bjargar miklu að baka t.d. glútenlaust brauðglútenlaust hrökkbrauð eða pönnukökur til að hafa meðferðis. Aðrar tillögur að mat til að hafa meðferðis: heimagert túnfisksalat, eldaðan kjúkling tilbúinn í kjúklingasalat, kaldar kjötbollur úr hakki og allt í chiagraut. Svona sparar þú þér tíma í útilegunni sjálfri og þarft þ.a.l. ekki að eyða miklum tíma þar í að græja kvöldmat.

Eldaðu

Það er ekki flókið að elda í útilegu hvort sem þú ert með einnota grill, gasgrill eða gashellu. Þú getur eldað t.d. hamborgara, fisk, grænmeti eða bara hvað sem þér dettur í hug. Mér finnst gríðarlega sniðugt að vera með gashellu og getað þ.a.l. eldað allt eins og heima. Þá geri ég mér hafragraut í morgunmat, sýð egg fyrir daginn, fæ mér ommelettu í hádeginu eða bara hvað sem mér dettur í hug. En það er kannski meira fyrir langar útilegur, þú getur undirbúið heilmikið heima fyrir helgarferðalag.

Hugleiddu

Það er ansi fátt sem toppar hugleiðslu úti í náttúrunni í fallegu landslagi bæði við sólarupprás og sólsetur. Ég skora á þig að ganga smá spöl frá fjöldanum og hugleiða í 11 mínútur á friðsælum og fallegum stað. Hugleiðsla hjálpar manni að ná tengingu við innsæið sitt og er einnig öflug leið til að sporna við þunglyndi og kvíða.

Gakktu

Farðu í göngutúr í náttúrunni og taktu eftir öllu því fallega sem náttúran hefur upp á að bjóða. Vertu þakklát/ur fyrir að anda þessu fríska lofti að þér og fá að ganga í þessu dásamlega landslagi. Mér finnst ég ná að hreinsa hugann með því að fara út í göngutúr og kem ég miklu hressari til baka. Það er nauðsynlegt að hreyfa sig á hverjum dagi til að halda sér bæði í líkamlegu og andlegu jafnvægi.

Fylltu á súkkulaðibirgðirnar

Maður verður nú að geta trítað sig örlítið á ferðalaginu og leyft sér aðeins meira en venjulega. Sniðugt er að búa til þitt eigið súkkulaði eða nammi sem inniheldur engan unnin sykur eða annað sem er slæmt fyrir þig. Eins getur þú fundið súkkulaði í heilsubúðum sem inniheldur enginn unninn sykur né mjólkurafurðir, en þú þarft að leita vel og lesa á innihaldslýsingarnar. Það er dýrt að kaupa sér súkkulaði með fáum og gæðamiklum innihaldsefnum. Hvort viltu það eða langan innihaldslista af drasli sem þú veist ekki einu sinni hvað er og var sennilega búið til á tilraunarstofu? 

Njóttu

Í nútímasamfélagi verður maður að passa sig  á að gleyma ekki að njóta augnabliksins og samveru sinna nánustu. Það er gaman að eiga myndir af mómentinu en ekki láta ferðalagið bara snúast um að ná myndir af öllu og gleyma að vera í mómentinu sjálf/ur. Lífið snýst ekki um að birta myndir af öllu sem þú gerir á instagram og facebook.

Hafðu ekki of miklar áhyggjur af hlutunum, vertu létt kærulaus en hafðu þó samviskuna ávallt að vopni. Klæddu þig vel, hafðu gaman og njóttu augnabliksins.

Góða ferð

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.