Jákvæðar breytingar

Þegar talað er um erfiðar breytingar hugsa flestir líklega um atriði líkt og veikindi, atvinnumissi eða skilnað, hluti sem við getum vissulega öll verið sammála um að reyni á. Fyrir fyrrum kvíðasjúkling líkt og mig voru hins vegar allar breytingar kvíðvænlegar, hvort sem um var að ræða nýjan skóla, vinnu eða ferðir erlendis; allt sem var nýtt og ókunnugt þýddi fyrir mig að nauðsynlegt væri að taka skref fyrir utan þægindarammann sem herða þurfti upp hugann til að stíga.

Sem betur fer er staða mín allt önnur í dag enda hef ég undanfarin ár fengið mikla hjálp frá meðferðaraðilum og ráðgjöfum hvers konar sem hafa aðstoðað mig við að sortera úr sálartetrinu og skilja hvaðan þessi kvíði og áhyggjur komu. Ég hef lært að almennt séð er lífinu treystandi til að sjá mér fyrir því sem ég þarfnast og að ég sé jafnframt fær um að treysta sjálfri mér til að taka góðar ákvarðanir og standa með mér þegar á þarf að halda.

Það sem kom mér engu að síður á óvart þegar ég fór að vera opin fyrir því að hleypa nýju fólki að mér og upplifa hluti sem ég hef ekki reynt hingað til var hversu erfiðar og flóknar jákvæðar breytingar geta verið. Við verjum töluverðu af tíma okkar í óþarfa áhyggjur af erfiðleikum sem við lendum aldrei í en gerum ráð fyrir að allt gangi áhyggjulaust ef draumar okkar rættust skyndilega eða við yrðum fyrir ófyrirséðri heppni.

Það breytir því ekki að breytingar þýða alltaf að það sem er okkur kunnuglegt er ekki lengur til staðar í sinni fyrri mynd og að það tekur tíma að læra á og venjast nýjum aðstæðum og upplifun.

Þrátt fyrir að hafa unnið mikla vinnu til að uppræta gömul hegðunarmynstur þá uppgötvaði ég að jákvæðu breytingarnar í mínu lífi vöktu upp undirliggjandi ótta sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að væri enn til staðar. Það sem ég þurfti til að mynda að vinna með var ótti við höfnun, þær áhyggjur og kvíða sem fylgdu því að hafa skyndilega eitthvað sem ég gæti misst og nauðsyn þess að setja skýr mörk og tjá skoðanir mínar og tilfinningar. Þá þurfti ég einnig að sleppa tökunum á þeim væntingum sem ég hafði gert mér um framtíðina til þess að aðlagast breyttum aðstæðum.

Á meðan á þessu tímabili stóð var ég í vikulegum meðvirknishópi hjá Lausninni sem var afar hjálplegt. Að geta farið og rætt það sem mér lá á hjarta í hverri viku og fá ábendingar og hjálp við að skilja það sem ég var að ganga í gegnum var ómetanlegt. Það sem þessi reynsla skilur eftir sig er sá skilningur að breytingar taka sinn toll, hvort sem þær eru neikvæðar eða jákvæðar, og að það er fullkomlega eðlilegt að eiga örlítið erfitt á meðan á þeim stendur.


 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.