Jóga & hugleiðsla

JÓGA OG HUGLEIÐSLA
Jóga þýðir tenging eða sameining. Öndunin er leiðarljósið í jóga. Með því að tengja huga og líkama í gegnum andardráttinn, hægjum við á skvaldri hugans og  styrkjum tenginguna við NÚIÐ. Eftir góðan jógatíma; æfingar, öndun, slökun og hugleiðslu, finnum við þessa dásamlegu tilfinningu, einingar, friðar, “harmóníu”, eins og allt sé í lagi NÚNA eins og það er! Það má því alveg kalla meðvitað jóga NÚVITUND, að vera til staðar í því sem er. Allar jógastöður eða “asanas” voru upprunalega hugsaðar til að koma jafnvægi á líkama og sál til að geta setið lengur í hugleiðslu. Það eru til margar tegundir af hugleiðslu, tengdar öndun, mudrum (handastöðun) eða möntrum, jafnvel gönguhugleiðslur.
 
HUGLEIÐSLUSTAÐA:
Finndu þér kyrrlátan stað og sestu með krosslagða fætur. Flestir sitja betur með púða undir mjöðmum til að fá lengingu í hrygginn.  GYAN Mudra – Innsigli viskunnar: Gott er að láta þumalfingur og vísifingur snertast, það skapar ró og einbeitingu. Lokaðu augunum og finndu andardráttinn smám saman róast. Þú getur ímyndað þér að þú sitjir við kyrrlátt vatn og sérð fyrir þér hugann verða kyrrlátan eins og vatnið. Þú fylgist með andardrættinum en gefur leyfi fyrir allar hugsanir að fljóta hjá eins og ský á björtum himni. Hugsanirnar eru bara eins og gárur á vatninu, sem koma og fara. Gott að gefa sér allt frá 3 mínútum upp í 30 mín. að hugleiða á dag.
 
ÁHRIF:
Fleiri og fleiri rannsóknir sýna fram á góð áhrif reglulegrar hugleiðslu; Hugurinn er friðsælli, betri einbeiting, betri svefn, minni kvíði, betra tilfinningajafnvægi, lækkar jafnvel blóðþrýsting, styrkir ónæmiskerfið og áfram mætti telja. Sjálf elska ég möntruhugleiðslur og hef góða reynslu af þeirri dásemd. MAN= Hugur TRA = Frelsi. Ef okkur finnst við ekki koma hugleiðslunni fyrir í flókinni dagskránni, þá er bara að aga sig, vakna aðeins fyrr – eða hugleiða hjá börnunum þegar þau eru að sofna!
“Fyrst skapar þú vanann, svo skapar vaninn þig” 
Tögg úr greininni
, ,