Lifum betur – Aníta Briem

Lifum betur er nýr fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur.  Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – að lifa betur.

Okkar fyrsti viðmælandi er leikkonan Aníta Briem en hún er búsett í Los Angeles þar sem hún sinnir leiklistinni af krafti. Aníta gaf nýverið út bókina Mömmubitar í samstarfi við Sollu Eiríks en bókin inniheldur alls kyns holla og næringarríka rétti sem uppfylla þarfir móður og barns á meðgöngu. Bókin er tilvalin fyrir allar verðandi mæður en ásamt girnilegum uppskriftum deila þær stöllur ýmsum góðum ráðum fyrir meðgönguna.

Lýstu sjálfri þér í þremur orðum?
Skapandi, kærleiksrík, leitandi.

Morgunrútínan þín?
Núna þegar ég á barn er hún tvöföld, eins og aðrir foreldrar vita. Ég reyni að sinna henni fyrst, klósettferðir, klæða, greiða, pakka matnum hennar. Reyni að drekka alltaf vatnsglas strax. Það er svo gott að koma þannig kerfinu í gang 30 mínútum áður en þú borðar. Ég stelst oft til að drekka kaffi áður en ég borða því ég elska koffín-kikkið sem fylgir því að drekka kaffi á tómann maga, en ætti sennilega ekki að gera það. Ekki sennilega. Ætti EKKI að gera það!

Uppáhalds morgunverður?
Ég elska einfalda eggjahræru með avókadó, reyktum silung, smá chiafræjum og dass af sítrónusafa. Stundum ofan á ristað brauð.

Hvernig viltu kaffið þitt?
Cappuccino með möndlumjólk. Tvö skot auðvitað. Los Angeles er með aragrúa af dásamlegum hipsterakaffihúsum sem bjóða upp á guðdómlegt kaffi en ég er líka með alvöru vél heima og geri bara ansi svæsinn cappuccino.

Matarspeki?
Lítið og oft! Mér líður langbest þegar ég borða litla skammta og oftar yfir daginn. Ég lagði mikla áherslu á það í bókinni okkar Sollu Eiríksdóttur, Mömmubitar, enda fann ég hvað það varð jafnvel mikilvægara fyrir mig á meðgöngu, til að halda orku og næra mig og barnið vel. Svo trúi ég á fjölbreytni. Við fáum svo ólík næringarefni úr mismunandi mat. Ég reyni að elda eins mikið og ég get sjálf til að halda aukaefnum eins og mögulegt er fjarri mínum líkama.

Svo hætti ég að borða kjöt eftir að ég átti Míu svo að ég legg áherslu á að fá prótein úr fisk, baunum og eggjum. Elska sætar kartöflur og rótargrænmeti, og allt grænmeti yfirleitt (er að rækta allskonar) og reyni að fá kolvetnin mín úr góðum grjónum eins og brúnum hrísgrjónum eða kínóa. Svo gefa hnetur og avókadó dásamlega náttúrulega fitu og hnetusmjör er í miklu uppáhaldi hjá mér sem snarl, með selleríi, eplum eða bara eitt og sér. Passa alltaf að hafa alls konar snarl heima og á mér svo ég geti borðað oft yfir daginn. Lítið og oft!

Hreyfingin þín?
Ég er jógafíkill, en byrjaði í nýju gymmi nýverið og fer þangað mikið þessa dagana. Ég elska að fara í tíma og láta aðra skipa mér fyrir, þeir eru með ótrúlega skemmtilega hip hop/ salsa danstíma, ballett-cardio og svoleiðis. Mér finnst ótrúlega gaman að læra nýja hluti og hreyfingar. Þegar ég var krakki þá var ég ömurleg í leikfimi (vægast sagt, alltaf 6 í einkunn!) og trúði því að íþróttir og dans bara væru ekki fyrir mig. Svo þegar ég byrjaði að læra bardagalistir í leiklistarskóla breyttist það algjörlega. Allt sem var út úr kassanum ekki kaðla-klifur, handahlaup, fótbolti og handbolti (sem ég sökka óneitanlega ennþá í), en allt aðeins öðruvísi eins og, flamengó, skylmingar, súludans, jóga, hakkaði ég í mig. Held líka að ég geti meira hlegið að sjálfri mér, finnst bara gaman að koma í tíma og kunna ekki neitt og kenna líkamanum smám saman að beita sér öðruvísi en hann hefur gert áður. En hverskonar hreyfing í mínu lífi er fyrst og fremst helsti stuðningsmaður andlegrar heilsu minnar. Svo fylgir líkamsformið með.

Ómissandi í eldhúsið?
Góður hnífur, skurðbretti og sítrónukreistari.

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Kjúklingabaunir, avókadó og maísbaunir til að poppa.   

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér?
Ég er að klára spennumynd sem heitir “The Drone” og er framleidd af Timur Bekmambetov, sem leikstýrði “Wanted” með Angelinu Jolie. Svo er önnur bíómynd að fara í tökur í apríl, þar leik ég aðalhlutverk í svona mjög gritty kómedíu. Svo er ég að skrifa og þróa verkefni sem mér þykir ótrúlega vænt um.

Svo var ég að syngja í danslagi “Fine Day” með breskum DJ, Henri. Það er alltaf gaman þegar maður dettur óvart inn í svona óvænt og skemmtileg verkefni á milli bíómyndaverkefna, en sá ferill allur saman getur oft verið mjög krefjandi.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?
Ég verð að segja konurnar í mínu lífi. Mamma, Katrín systir, amma Ella, amma Dísa, amma Guðný og mínar vinkonur, Svala Björgvins, Sigyn Blöndal (sorrí ég veit að þetta eru meira en þrjár). Allt það góða í mér kemur frá þeim og þær halda mér alltaf í jafnvægi og veita mér innblástur og kraft.

Sannleikurinn á bakvið velgengni?
Úff, finnst manni maður einhverntíma komin á stað velgengni? Ég á erfitt með það. Tvisvar á síðasta mánuðinum spurði mig einhver hvernig það væri að njóta velgengni. Ég fékk smá sjokk. Finnst ég alltaf svo langt frá mínum takmörkum, sem ábyggilega eru alltaf að þróast og færast. En ég tel það mikilvægt að geta staldrað við og kunnað að meta hvað þú hefur. Í gær þegar ég fór með bænirnar með dóttur minni þökkuðum við fyrir að eiga þak yfir höfuðið, mat að borða og að allir í okkar fjölskyldu væru hraustir. Þakklæti er nauðsynlegur ferðafélagi metnaðarins. Og að vera alltaf að skilgreina hvað það er sem þig langar að ganga vel í, hvað skiptir mestu máli. Ég reyni daglega að vera besta útgáfan af sjálfri mér, sem leikkona, móðir, eiginkona, dóttir, systir. En þegar öllu er á botninn hvolft trúi ég að ef að þú finnur frið í því sem þú gerir, hafir þú náð velgengni.

Hvað gerir slæman dag betri?
Danstími. Og hang með vinum. Og knús frá litlu stelpunni minni.

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Hreyfing er mér mjög mikilvæg. Ég finn að það tekur mikinn toll þegar ég er ekki að vinna, milli verkefna og þá þarf ég mest að passa upp á það. Þegar ég er á settinu, er í hringiðunni að skapa eitthvað er eins og döllum af gleði-súrefni sé hellt ofan í mig daglega. En inn á milli þarf ég að passa mig að halda alltaf áfram að næra mig. Með því að spila tónlist, skrifa, dansa. Það hefur líka tekið á að vera mamma, hefur reynst mér jafn krefjandi andlega og það er nærandi. Sérstaklega fyrstu tvö árin. Þá bjargaði jógað mér algjörlega. Jógað hélt mér á floti í gegnum fæðingarþunglyndi. Það er eitthvað ótrúlega merkilegt sem gerist í heilanum við jógaástundun, það eykur seratónin og hreinsar í burtu það sem maður þarf ekki. Svo er mikilvægt í þessum hraða lífsstíl sem við búum flest við, að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig.

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Grænt te er töfradrykkur. Gefur rosa mikla orku, en jafna, svo þú krassar ekki eins og eftir kaffi. Og vegna andoxunarefnanna hefur það hreinsandi áhrif á líkamann og þar af leiðandi aukaverkanir eins og geislandi húð.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfri þér?
Að hlusta alltaf vandlega á sína eigin eðlisávísun. Hún segir yfirleitt satt.

Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Náttúran og hreinleikinn var alltaf það sem ég saknaði mest þegar ég fluttist í burtu. En undanfarið hef ég mikið dáðst að samheldni samfélagsins. Eitthvað sem maður upplifir síður í stórborgum. Íslenska þjóðin er falleg þjóð.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu?
Þar sem fólkið mitt er.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Ég reyni alltaf að beita mér með reisn og kærleika. Reyni að vera góður meðlimur í mínu samfélagi, bæði í vinnu og heima. Reyni að kenna dóttur minni daglega samkennd og kurteisi svo að einstaklingur sem kemur frá mínu heimili út í heiminn geti látið gott af sér leiða. Auðvitað fer mikill kraftur í mitt starf, þar sem mín helsta fullnæging er að skapa sögur sem láta fólki líða betur, hvort sem það er í augnablik, eða til lengri tíma.

Hvar líður þér best?
Á setti.

Drauma ferðalag?
Mig langar að ferðast meira um Evrópu. Fara aftur til Spánar, Ítalíu, Frakklands. Keyra um á milli bæja og hitta fólk, borða góðan mat og drekka vínin þaðan. Einnig langar mig að ferðast um Suður-Ameríku. Ég hef verið mjög lánsöm að geta ferðast í mínu starfi og dvelja í mánuði í senn á allskonar skemmtilegum stöðum. Þar eru New Orleans, Barcelóna og Montreal í algjöru uppáhaldi. En af því ég fæ að ferðast með vinnunni geri ég lítið að því að plana mínar eigin ferðir, nema þá til Íslands, sem ég geri alltaf þegar ég hef frítíma. Því langar mig að breyta og taka svolítið í ævintýrataumana.

Uppáhalds árstíð?
Í Los Angeles njótum við góðs veðurs næstum því allan ársins hring sem er jú yndislegt. Ég þarf ekki að þola kulda eða rigningu eða veðráttu sem getur verið erfið til lengdar. Þess vegna þykir mér stórkostlegt að koma heim á veturna og drekka í mig myrkrið, kuldann og þá einstöku birtu sem kemur í skammdeginu, endurspeglun tunglsins í snjónum, norðurljósin og þessa einstöku djúpu bláu birtu. Ég hef alltaf elskað hana.

Uppáhalds bók?
Sexus eftir Henry Miller

Mantra/mottó?
Vertu blíð, vertu hugrökk, vertu forvitin.

Viltu gefa okkur eina uppáhalds uppskrift í lokin?
Spínatbuffin eru ef til vill uppáhalds uppskriftin mín úr bókinni okkar Sollu. Við höfðum það í fyrirrúmi að hver máltíð byði upp á fjölbreytt næringarefni fyrir móður og barn, en svo er Solla mín Eiríks bara svo mikill snillingur að allar hennar uppskriftir hafa orðið uppáhaldsmáltíðir allra á heimilinu. En þessi er ALGJÖRT YNDI! Og manni líður svo vel á eftir. Verði ykkur að góðu ❤

 

Efsta mynd: Allan Sigurðsson
Viðtal: Karítas Hvönn Baldursdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.