Mikilvægi Savasana

Þrátt fyrir að gerðar eru margar krefjandi stöður í jógatíma, hver á eftir annarri, þá virðist Savasana (slökunarstaða) vera mörgum hverjum einna erfiðust. Hún krefst þess að iðkandinn slaki á alveg hreyfingarlaus, með lokuð augun og leyfi vöðvunum að hvílast og andardrættinum að róast.

Hvernig förum við í stöðuna?

  • Þú liggur á bakinu á dýnunni þinni

  • Gott bil er á milli fóta og tærnar detta í sitthvora áttina

  • Lyftu herðablöðunum aðeins upp og leyfðu þeim að fara í sundur þegar þú leggur þau aftur niður í dýnu

  • Hendur liggja í dýnu og lófar snúa upp

  • Reyndu að fetta bakið ekki meira en náttúrulega staðan þín er. Gott er að hugsa um að fara með rófubeinið aðeins niður eftir dýnunni

  • Lokaðu augunum og láttu þér líða vel í stöðunni

Hvernig náum við að slaka sem best á?

Í slökunarstöðunni er markmiðið að slaka á og leyfa líkama og huga að hvílast. Það getur reynst mörgum erfitt að ná því markmiði og því þarf að hafa í huga að hún þarfnast æfingar og þolinmæði eins og allar aðrar stöður í jóga.

Byrjaðu á því að taka nokkra djúpa andardrætti og hugsaðu um að losa spennu, streitu og áhyggjur dagsins úr líkamanum á hverri útöndun. Á sama tíma ertu að slaka á og tæma hugann. Í framhaldinu sleppir þú tökum á andardrættinum og einbeitir þér að því að slaka á öllum vöðvum líkamans. Gott er að byrja að slaka á tánum og fikra sig síðan hægt og rólega upp líkamann. Einbeittu þér að því að hlusta á öndunina og þá finnur þú að hugurinn þinn tæmist og slakar á. Hér skiptir máli að vera í núinu og njóta þess að leyfa líkamanum að slaka á og finna kyrrðina koma yfir hann.

Þeir iðkendur sem telja slökun vera óþarfa og ganga út rétt áður en hún byrjar eða þeir sem liggja og horfa upp í loftið og bíða óþolinmóðir eftir því að kennarinn biðji hópinn um að koma tilbaka, eru að missa af einni mikilvægustu stöðu sem við gerum í tímanum. Savasana tekur að jafnaði 5-10 mín. og því alls ekki tímafrekt að láta á hana reyna og finna hvað hún gerir okkur gott.

Ávinningur Savasana er mikill fyrir þá sem gefa sér tíma í hana. Þú munt fá aukna orku fyrir daginn, losa um streitu og áhyggjur og endurnæra bæði líkama og sál. Næst þegar þú ferð í jógatíma mæli ég með því að þú gerir Savasana eins vel og þú getur og njótir þess að finna orkuna og kyrrðina streyma yfir líkamann.

Sara Snædís 

Tögg úr greininni
, , , ,