Minn versti óvinur

ung kona horfir í spegil

Það sem ég lærði árið 2015 var að ég er minn eigin versti óvinur. Á árinu fékk ég blessunarlega mörg tækifæri til þess að uppgötva loksins hvers konar gagnrýni ég er viðkvæmust fyrir. Ég segi loksins því ég áttaði mig á því að ég tek sömu hlutina inn á mig ár eftir ár og hef gert hreinlega allt frá því í barnæsku.

Ég heyri fólk gjarnan grínast með allt þetta tal um tilfinningar, barnæsku og sambandið við foreldra okkar en málið er einfaldlega svo að við komumst að því hver við erum og lærum hvernig hlutirnir „eiga“ að vera á uppvaxtarárum okkar. Það er því ekkert skrýtið að margt sem við erum að burðast með, gömul mynstur og hugsanaferli, á rætur sínar að rekja til þess þegar við vorum börn og unglingar.

Ég sé það núna að ég er viðkvæm fyrir gagnrýni sem tengist hugmyndum um sjálfa mig sem ég er ekki sátt við. Einfalt dæmi er þegar ég var kölluð sófakartafla um daginn og tók því sem gagnrýni, jafnvel þó þetta væri aðeins góðlátlegt grín. Baksagan þar er sú að ég hef aldrei haft neinn áhuga á íþróttum, sem fólki fannst gaman að benda á þegar ég var yngri, en ég tók því svo að ég ætti að hafa áhuga á þeim og að ég væri þar af leiðandi ekki nógu góð einhvern veginn.

Ég geri mér grein fyrir því í dag að fólk meinti líklega aldrei neitt slæmt með þessu. Ég er einfaldlega ekki mikil keppnismanneskja en í litlum bæ voru fótbolti og körfubolti einu íþróttirnar sem voru í boði á þessum tíma. Mér finnst gott að kúra mig niður í sófanum og það er bara allt í lagi. Nú þegar ég sé þetta svona skýrt þá er engin ástæða fyrir mig lengur að fara í vörn eða verða móðguð ef einhver vekur athygli á þessu áhuga- og hreyfingarleysi mínu.

Þetta er aðeins eitt dæmi um nokkur atriði í mínu fari sem ég hef skammast mín fyrir. Það eru ákveðnir hlutir sem ég hef burðast með á þennan hátt og haldið að ég yrði ekki nógu góð fyrr en þessum atriðum yrði breytt og bætt; fyrr en ég yrði raunverulega einhver önnur en ég er.

Það er hins vegar ekki töfralausnin. Lausnin er að horfa gagnrýnum huga á það sem hefur verið sagt við mig, það sem ég hef verið að segja við mig svo lengi, og efast um réttmæti þess. Lausnin er ekki að losna við þessi atriði heldur að samþykkja þau.

Samþykkja mig.

Tögg úr greininni
, , , , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.