Morgunvenjur jógakennara

Fasti liðurinn Morgunvenjurnar heldur áfram og núna er það Bryndís Ólafsdóttir, jógakennari sem segir okkur frá því hvernig hún byrjar daginn.

bryndisHvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Þrjá virka daga vakna ég klukkan fimm og mæti í leikfimi klukkutíma síðar en hina tvo vakna ég klukkan sex og fer í jóga. Ég fæ um sex klukkustunda svefn. Ég er mikil morgunmanneskja og þarf lítinn svefn. Um helgar vakna ég á milli sjö og átta eftir 7-8 klst. svefn en ef ég sef meira verð ég þreytt og löt allan daginn. Ég þarf ekki að stilla vekjaraklukkuna um helgar því þá sér yngsti prinsinn yfirleitt um að ræsa mig.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Virka daga er morgunrútínan í nokkuð föstum skorðum. Ég byrja á að drekka volgt vatn en ég geymi alltaf könnu af vatni á borðinu. Ekki er gott að drekka ískalt vatn snemma morguns, það er of mikið sjokk fyrir líkamann. Ég reyni að eiga hugleiðslu/bænastund þótt það takist ekki alltaf. Það gefur góðan tón fyrir daginn og þarf ekki að taka nema fimm til tíu mínútur. Síðan undirbý ég þeytinginn minn. Ég legg í bleyti chía-fræ og goji-ber, bý til hafragraut fyrir fjölskylduna og kíki í blaðið um leið og ég fæ mér eitt glas af lífrænum grænmetissafa með teskeið af L-Glutamine áður en ég bruna af stað í ræktina eða jóga.

Eftir að hafa spriklað, teygt og togað kem ég heim, endurnærð á sál og líkama og klára að gera til þreytinginn. Áður en ég drekk hann tek ég olíurnar mínar með glasi af eplaediki blönduðu í vatni. Ég tek 2 msk. af hörfræolíu, tæplega 1 msk. af lýsi og omega3. Ég finn hvað olíurnar gera mér gott því ég sé það á húðinni á mér, sérstaklega á veturnar. Síðan er það góði græni þeytingurinn minn, sem er frábær byrjun á deginum þar sem ég næli mér í nánast allt það sem líkaminn þarfnast fyrir daginn. Í hann fer hálft avókadó, biti af gúrku og engifer, smávegis steinselja, hálfur sellerístöngull, hálf sítróna, 1/2tsk. möluð hörfræ, 1-2 tsk. SuperGreens duft, 2tsk. hampfræ,1/2-1 tsk. macca, 1 msk. engevita frá Marigold, 1 dl kókosvatn, 1 msk. aloe-vera, 1 msk. chía-fræ og goji-berin sem ég setti í bleyti. Loks set ég handfylli af spínati og tvær lúkur af íssalati frá Lambhaga saman við og blanda öllu vel saman. Þeytingurinn er engin veisla fyrir bragðlaukana en hann er basískur og mjög næringarríkur. Til að fá meiri sætu má setja dálítið af frosnu mangói eða bláberjum út í en þá breytist þeytingurinn í bragðgóðan eðaldrykk.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Vellíðanin sem ég finn á líkama og sál heldur mér við þessa rútínu og sú fullvissa að ég fæ bestu mögulegu næringu og byggingarefni til viðhalds og endurnýjunar líkamans. Það þýðir ekki að misbjóða líkamanum með óhóflegri neyslu á hveiti, sykri og sætindum og ætlast svo til að hann endist út ævina og þjóni okkur vel. Við þurfum að taka ábyrgð á heilsu okkar bæði andlega og líkamlega, gera það sem í okkar valdi stendur til að auka lífsgæði okkar og reyna alltaf að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

Greinin birtist árið 2013 í vetrarblaði Í boði náttúrunnar. Kauptu eintak af blaðinu HÉR, aðeins 850 kr. Frí heimsending!

Tögg úr greininni
, , , ,