Morgunvenjur Sólveigar

Sólveig Þórarinsdóttir er móðir, jógakennari, höfundur og frumkvöðull. Hún er fyrrum verðbréfamiðlari sem kolféll fyrir jóga og snéri sér alfarið að því. Sólveig gaf út bókina Jóga fyrir alla nýverið og vinnur nú hörðum höndum að opna heilsu og jógasetrið Sólir, sem opnar í apríl úti á Granda. Þessi kraftmikla kona hefur einnig bæst í hóp okkar föstu penna! Við fengum að forvitnast um hvernig hún byrjar daginn:

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Ég vakna yfirleitt á milli 6 og 7 það fer svolítið eftir því hvaða árstíð er og hversu mikil dagskrá er í gangi hverju sinni. Ég stilli klukkuna til öryggis en er þó yfirleitt vöknuð á undan heimilisfólkinu en þá yfirgef ég partýið þar sem það eru oftast 3 karlmenn (á ýmsum aldri) í rúminu mínu. Mér finnst gott að ná smá stund í næði áður en allt fer á fullt á barnaheimilinu. Ég er með rútínu blæti og allt mjög hefðbundið hjá mér á morgnanna, eina merkilega við morgunvenjurnar mínar er kannski hversu stutt er síðan ég fór framúr hvött af löngun til þess að fá mér kókglas með klökum!

Hvernig eru morgunvenjurnar?

sólveig1Ég byrja alltaf á því bleyta andlitið með köldu vatni og þar með er ég vöknuð, ég fæ mér svo kreista sítrónu í volgt vatn en venjulega er ég eða maðurinn minn búin að undirbúa morgunverkin í eldhúsinu kvöldinu áður. Ég fæ mér svo 1-2msk af olíu, hamp- og hörfræolíu til skiptis svo ég fái ekki leið, því næst tek ég einhver bætiefni en það fer eftir því hvað líkaminn og árstíðin kallar á hverju sinni. Núna er það D vítamín og góðgerlar þar sem ég er enn að vinna í jafnvægi í flórunni minni eftir frávik hátíðanna. Spirulina tek ég alltaf, það er mitt kaffi. Svo er það stúss í kringum börnin, þeim finnst best að hafa fjölbreytileika í morgunmatnum svo við flökkum á milli þess að mixa þeytinga, grauta (kínóa, hafra eða chia) og stundum fá þau AB mjólk með múslí og svo er það blessað morgunkornið sem slæðist inná milli. Þá undirbý ég líka nesti í skólann fyrir dótturina, nýjustu grænmetisætuna á heimilinu. Svo eru auðvitað burstaðar tennur og þá fær grindarbotinn að vinna algjörlega án umhugsunar en sem jógi þá er mér sérlega umhugað um virkni djúpvöðva. Ég lauma mér alltaf í ca 10 mínútur í þvottahúsið þar sem ég næ bæði að vinda af þvottahafinu og ná mér í u.þ.b tíu mínútna hugleiðslu, mmmm svo gott. Þegar allir eru farnir í leikskóla og grunnskóla geri ég jóga í 1-2 tíma, heitt jóga finnst mér langbest en ég stunda Ashtanga með. Eftir morgunæfinguna drekk ég án undantekninga lífrænt kókosvatn og er sú stund einn af hápunktum dagsins hjá mér. Eftir sturtuna þar sem kókosolían og burstinn eru bestu vinirnir fer ég í græna sigtaða djúsinn en hann útbý ég í slow juicer og set á glerflöskur fyrir vikuna.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?

Jóga er mitt kraftaverkatól, það heldur mér í jafnvægi og kenndi mér að nema staðar, hlusta á líkamann og lesa sjálfa mig betur. Í gegnum jóga kynnist ég svo systurvísundum þess, Ayurveda og sem Pitta dosha skil ég núna að það hentar mér ekki að borða fyrr en um 10 en ég borða mest þegar sólin er hæst á lofti og meltingareldurinn öflugastur. Með því að hafa hlutina í tiltölulega föstum skorðum líður mér betur á allan mögulega máta, ég er mun afkastameiri og það gerir mér bara óleik að sofa meira en 7 klukkustundir. Dýrmætasti svefninn er á milli 10 og 02 á nóttunni og ég sef svefni hinna réttlátu með aðstoð magnesíum í heitu vatni á kvöldin, auðvitað fer ég stundum seint að sofa en það eru frávik zzz…