Mundu hvaðan þú ert að koma

Mannskepnan er gædd þeim einstaka hæfileika að vilja meira. Viljum verða betri. Það er ekki nóg að bara lifa og svo deyja. Sálin okkar þráir vöxt og þroska. Þess vegna förum við út fyrir þægindarammann okkar því við þráum vöxtinn sem kemur með því hugrekki að stíga inn í óttann.

Við þurfum alveg jafn mikið á því óvænta og því örugga að halda, það má segja að það sé þetta jafnvægi sem við erum alltaf að leitast eftir. Fyrsta orkustöðin okkar er rauð á litinn og er staðsett við rófubein, hún kallast rótarstöðin af ástæðu. Hún er rótin okkar, festan hún snýr að tengingu okkar við efnislegt öryggi. Rótarstöðin er grunnurinn að lífi okkar hér á jörðinni. Þegar fyrsta orkustöðin er í ójafnvægi þá hefur það mikil áhrif á allar hinar 6. Dæmi um ójafnvægi í rótarstöðinni er þetta sem við þekkjum öll að vera alltaf að vinna eða vera atvinnulaus, þegar maður eyðir meiri peningum en maður aflar, að eiga of lítið að borða eða ísskápurinn er alltaf troðfullur og þú þarft iðulega að henda mat. Hugtakið að lifa eins og kóngur fyrstu dagana eftir mánaðamótin og svo eins og betlari seinustu dagana í mánuðinum á vel við. Í rauninni tengist þessi orkustöð því að maður finnist maður aldrei vera nóg, aldrei eiga nóg, gera nóg.

Gerir þú raunhæfar kröfur á sjálfan þig? Úr hvernig aðstæðum ert þú að koma?

Mér finnst ótrúlega mikilvægt að minna sig á úr hvernig umhverfi maður er að koma. Hvernig varstu fyrir ári síðan? Hafa verið framfarir á þínu persónulega ferðalagi? Ertu að koma úr ofbeldisaðstæðum?

Kraftmikil heilunaraðferð er að setjast niður og skrifa sjálfsævisögu sína. Rifja upp aðstæður sínar, sjá á svörtu og hvitu hvaða reynslu maður hefur öðlast og þá gerist eitthvað stórkostlegt, maður fær dýpri skilning og fer að sýna sjálfum sér meiri umburðarlyndi og sjálfskærleika. Þá skilur þú betur hvaðan þú ert að koma, og skoðar ræturnar.

Ég á það til að brjóta mig niður fyrir að vera ekki komin lengra samkvæmt einhverjum samfélagslegum viðmiðum en ef ég skoða aðstæðurnar sem ég er að koma úr og alla mína dýrmætu reynslu þá á þessi kassótti velgengnis staðall ekki lengur við og ég fer að sýna sjálfri mér meiri kærleika og þakklæti. Ég fer að sjá mig í mínu rétta ljósi, ég hætti að miðað mig við aðra heldur fer að fókusa á að vera betri útgáfa af sjálfri mér í dag en í gær því það er hvort sem er það eina rökrétta í þessu lífi.

Batnandi mönnum er best að lifa!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.