Ræktun í pottum: 10 góð ráð

Texti GUÐBJÖRG GISSURARDÓTTIR  Mynd JÓN ÁRNASON

Fyrir byrjendur er ræktun matjurta í pottum og ílátum ekki alltaf dans á rósum. Því fylgja oft og tíðum klaufaleg mistök, uppskerubrestur og svo er ekkert víst að neinn sparnaður hljótist af þessu brölti! Það er sem sagt engin trygging fyrir árangri þegar kemur að ræktun, en það er líka það sem gerir verkefnið svo spennandi og skemmtilegt. Það er í raun ekki fyrr en maður er farinn að kunna að meta óvissuna, vesenið, sem og lífsgæðin sem fylgja því að geta borðað sína eigin uppskeru, að heimaræktunin margborgar sig.

 

10 GÓÐ RÁÐ FYRIR BYRJENDUR TIL AÐ FÆKKA MISTÖKUM OG AUKA ÁRANGUR Í POTTARÆKTUN

 

1. VAL Á PLÖNTUM

Hugsaðu um það sem þú eða fjölskyldan borðið helst og finnst gott. Gerðu svo óskalista áður en haldið er í búðina. Veldu stórar og sterklegar plöntur og fáðu ráð starfmanna um þarfir varðandi vökvun, birtu og rýmið sem plantan þarf. Fyrir okkur með gullfiskaminni mæli ég með plöntum með merkimiða svo að nafn og umhirða sé á hreinu. Eða að taka mynd á símann af merkingunni í búðinni.

2. FORRÆKTAÐ EÐA FRÆ?

Ef þú ert byrjandi er mjög þægilegt að kaupa forræktaðar plöntur til að fá uppskeru fyrr og minnka líkur á mistökum. En auðvelt er að sá spínati og rucola beint út í pott og er jafnvel hægt að gera það tvisvar eða þrisvar yfir sumarið eða jafnóðum og það klárast. Hægt er að setja trefjadúk yfir pottana á meðan plönturnar eru að ná sér á strik og enn er hætta á frosti.

3. VELDU POTTA SEM VIRKA

Ílátin geta verið úr hvaða efni sem er; stór, lítil, djúp, grunn, endurnýtt box eða rándýrir keramikpottar. Þau eru þó misjafnlega praktísk. Grunn ílát gera það að verkum að moldin þornar fyrr og það er minna pláss fyrir ræturnar. Keramikpottarnir eiga það til að springa í frosti. Aðalatriðið er þó að það sé gott frárennsli og ræturnar liggi ekki í bleytu. Ef potturinn er ekki með frárennslisgöt þarf að bora nokkur göt á botninn. Gott er að setja til dæmis dagblað í botninn á pottinum til að forðast að moldin renni út um götin. Ef það er ekki hægt að setja gat á pottinn er mælt með því að setja steina, vikur eða annað tilfallandi í botninn, sem nemur 1/3 af pottinum, og drena þannig aukavatn frá moldinni. Til að moldin fylli ekki upp í götin á milli steinanna og hætti að gera það gagn sem til stóð, er gott að setja efnisbút á milli laganna. Til að rækta salat þarf dýptin á ílátinu eða moldarlagið ekki að vera meiri 20- 30 cm og 40-50 cm fyrir annað sem er með meira rótarkerfi, eins og til dæmis gulrætur. Gott er að þrífa vel gamla potta og ílát fyrir notkun til að fyrirbyggja að þeir beri með sér sýkingar og sveppi.

4. SÓL, SÓL SKÍN Á MIG

Plönturnar eru jafn sólgnar í sólina og við. Veldu því bjartan eða sólríkan og skjólgóðan stað fyrir ræktunina. Gott er að vita hversu mikla sól potturinn fær á sólarhring og velja plöntur í hann með það í huga. Það getur einnig komið sér vel að geta fært minni pottana til eftir veðri og vindum. Þá eru til sérstök bretti á hjólum til að færa stóra og þunga potta til.

5. MEIRI MOLD

Því meiri mold því betra. Minni mold þýðir að hún þornar fyrr upp og ræturnar hafa ekki eins mikið rými til að dreifa úr sér. Plantan vex nefnilega í samræmi við stærð rótanna. Veldu góða mold sem er ekki of þétt í sér svo að hún beri vatn og súrefni vel til rótanna.

6. NÆRING

Flestar moldartegundir sem hægt er að kaupa hér á landi eru með áburð í sér sem dugar oft fyrsta sumarið. Næsta sumar, ef þú ætlar að nota sömu moldina, er nauðsynlegt að bæta saman við hana hæglosandi áburði eins og þörungamjöli, húsdýraáburði, sveppamassa eða góðri moltu. Það er gott að venja sig strax á að vökva reglulega, til dæmis með lífrænum og fljótandi áburði eins og Maxicrop, í annaðhvert skipti eða einu sinni í viku.

7. UMPOTTUN

Þegar forræktuðu plönturnar eru settar út í pott skaltu passa að það myndist ekki loftholur í kringum ræturnar. Þjappaðu moldinni vel í krignum allar plönturnar í pottinum og vökvaðu strax á eftir. Annars er hætta á að ræturnar þorni og plantan deyi.

8. GRISJA

Taktu í burtu strax eða klipptu daufar plöntur alveg niður og fylgstu með því hvort þær koma hressari upp aftur. Ef plönturnar eru sýktar þarf að taka þær upp og henda. Það er um að gera að setja strax nýjar plöntur í staðinn, eða sá. Gott er að hafa vakandi auga með lús og ef hún finnst þarf að þrífa eða tína hana af plöntunum.

9. VÖKVA, VÖKVA OG VÖKVA MEIRA

Vökvunin er AÐAL málið og þarf að vökva pottaplöntur meira en vini þeirra úti í garði. Á sólríkum degi gæti þurft að vökva allt að tvisvar á dag, kvölds og morgna. Og ef þú ert að rækta á yfirbyggðum svölum þarf að vökva meira þar sem rigningin nær ekki að sjá um það með þér. Til að kanna hvort það þurfi að vökva er gott að stinga puttanum til hálfs ofan í moldina og ef hún er þurr þar sem hún snertir fingurgóminn, þarf að vökva. Til að tryggja að ræturnar séu vel vökvaðar er gott að vökva þar til það fer að leka út úr götunum á pottbotninum. Svo þarf að halda stöðugum raka í moldinni til að fá sem bestan árangur úr ræktuninni. Það er þess virði að fjárfesta í stórri og vandaðri vökvunarkönnu strax.

10. FARINN Í SUMARFRÍ!

Ef þú átt ekki nágranna til að vökva fyrir þig eru allskonar trikk til sem geta reddað vökvuninni í nokkra daga eða jafnvel vikur. Gerðu lítil göt á plastflöskur, eða zip loc-plastpoka, fylltu af vatni (og nokkrum steinum til að græjan fjúki ekki þegar vatnið er búið) og leggðu í pottana. Vatnið seytlar hægt ofan í moldina og nær að halda raka í pottunum í einhvern tíma. Einnig er hægt að kaupa vatnskristalla sem breytast í gel þegar þeir komast í tæri við vatn. Þessu er blandað saman við moldina og getur vatnið í gelinu þá haldið moldinni rakri í nokkra daga.

HENTUGT Í SLÍKA RÆKTUN: mynta, graslaukur (fjölær) grænkál, spínat, persilja, kóríander, salat, rucola, og klettasalat.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.