Heimaræktuð ofurfæða

heimaræktuð ofurfæða
TEXTI Sigríður Inga Sigurðardóttir
MYNDIR Jón Árnason

SPÍRUR ERU OFT KALLAÐAR OFURFÆÐA ENDA STÚTFULLAR AF HOLLUSTU

Spírur eru afar ríkar af A-, C- og D-vítamínum, steinefnum og lífsnauðsynlegum ensímum sem oft tapast þegar matur er eldaður. Þannig auðvelda spírur upptöku næringarefna úr matnum sem við borðum. Spírur geta til dæmis vaxið úr fræjum bókhveitis og grænmetis eða úr fræjum korns og bauna. Þær hafa mismunandi bragð og áferð og eru auðmeltanlegar, hitaeiningasnauðar og orkugefandi. Þá benda rannsóknir til þess að spírur geti haft verndandi áhrif gegn krabbameini.

Spírum má bæta inn í fæðuna á margvíslegan hátt án þess að breyta um mataræði. Gott er að blanda þeim við salat, nota þær sem álegg á samlokur eða í vefjur; þeim má dreifa yfir hrísgrjón, súpur, eggjakökur eða pottrétti, skella þeim í grænan drykk eða bara borða einar og sér.

Hægt er að rækta spírur á þægilegan og auðveldan hátt allan ársins hring. Það tekur stuttan tíma og krefst því ekki mikillar þolinmæði en nauðsynlegt er að gæta vel að hreinlæti. Svo er bara að velja fræ eða baunir sem eiga að spíra og skola vel áður en hafist er handa. Hér notum við vatn og krukku en einnig má nota mold og sáðbakka eða bómullarhnoðra og mjólkurfernu.

Spírutegundir

VATN OG KRUKKA

1. Veljið helst lífrænt ræktaðar baunir sem eru sértaklega ætlaðar til spírunar.

2. Skolið baunirnar mjög vel til að forðast allar bakteríur.

3. Setjið baunirnar í krukku án loks og hellið vel yfir af köldu vatni. Hristið aðeins saman og látið standa í 8-12 klst. eða eins og stendur á leiðbeiningum á umbúðum.

4. Hellið vatninu af baununum. Fyllið krukkuna aftur af vatni, hristið aðeins og hellið svo vatninu af. Gott er að festa grisju ofaná krukkuna svo hægt sé að láta vatnið renna í gegn án þess að baunirnar fljóti með.

5. Skolið þannig baunirnar 2-3 sinnum á dag eða þar til þær eru farnar að spíra.

6. Dreifið úr spírunum á eldhúsþurrku svo þær þorni. Setjið í krukku eða box, lokið og geymið í ísskáp. Spírurnar geymast í allt að viku í ísskáp.