Sumargjafir- séríslenskur siður

Texti SIGURÍÐUR INGA SIGURÐARDÓTTIR
Myndskreyting ELÍSABET BRYNHILDARDÓTTIR

Það er skemmtilegur siður að gefa sumargjafir á sumardaginn fyrsta og óhætt að fullyrða að slíkar gjafir kæta alla krakka. Sumargjafir hafa tíðkast hér á landi allt frá sextándu öld og þær eiga sér lengri sögu en jólagjafir. Fyrrum var til siðs að gefa börnum jafnt sem fullorðnum sumargjafir en með tíð og tíma hefur þessi siður breyst og nú til dags eru það aðallega börn sem fá sumargjafir. Sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur allt frá tólftu öld og lengi vel var hann einn hátíðlegasti dagur ársins. Á þessum tíma var árinu skipt í tvö löng misseri, sumar og vetur, og sumardagurinn fyrsti markaði upphaf sumarsmisseris. Hann var jafnframt fyrsti dagur hörpu samkvæmt gamla mánaðartalinu.

Ekki er ljóst hvenær nákvæmlega fólk fór að gefa hvert öðru gjafir í tilefni sumardagsins fyrsta en elsta dæmið um það er að finna í minnisblöðum frá árinu 1545. Þar skrifaði Gissur Einarson, sem var biskup í Skálholti, að hann og aðrir heimilismenn hefðu gefið hver öðrum „sumargáfur“, en með því átti hann við sumargjafir. Á meðal gjafa sem hann nefnir eru skeiðar, silkisaumað tjald, silfurkeðja og ensk mynt en á þessum tíma hafa þetta eflaust verið afar veglegar gjafir.

Rósavettlingar & rúlluskautar

Snemma á síðustu öld var almennt til siðs að fólk fagnaði sumardeginum fyrsta með því að gera vel við sig í mat og drykk og gefa gjafir, allt eftir því sem efni og ástæður stóðu til. Margir foreldrar gáfu börnum sínum einhverja flík eða hluti sem þau vantaði. Hjón gáfu hvort öðru gjarna sumargjafir og stundum gáfu húsbændur vinnufólki sínu gjafir. Hins vegar var sjaldgæft að börn gæfu fullorðnum gjafir eða vinnufólk húsbændum sínum. Vafalaust hafa sumargjafirnar vakið mikla eftirvæntingu því lítið var um gjafir í gamla bændasamfélaginu. Gjafirnar voru yfirleitt heimagerðar, sér í lagi hjá þeim sem bjuggu í sveit því ekki var sérstaklega farið í kaupstað til að kaupa þær. Skemmtilegast var að útbúa sumargjafirnar leynilega svo að þær kæmu sem mest á óvart og greinilegt er að gjafirnar voru hugsaðar þannig að þær kæmu að góðum notum. Oft voru gefnar gjafir á borð við rósavettlinga, sem er fallega útprjónaðir vettlingar með rós á handarbakinu, illeppa í sauðskinnsskó, ullarsokka og efni í svuntu. Einnig voru vasahnífar, vasaklútar og heimasmíðaðir kistlar nokkuð algengar gjafir. Í frásögnum frá þessum tíma kemur glöggt fram að sumardagurinn fyrsti var fólki afar kær því hann bar með sér von um birtu og yl eftir langan og strangan vetur.

Nú er haldið upp á sumardaginn fyrsta með skrúðgöngum, hoppkastölum og skemmtunum af ýmsu tagi og mörg börn fá spennandi sumargjafir frá foreldrum og stundum ömmum og öfum. Oftast er um að ræða litlar gjafir eða útileikföng eins og bolta, krít, badmintonspaða, sippubönd og sápukúlur. Sumir krakkar fá stærri gjafir eins og hjól eða rúlluskauta og aðrir fá sumarföt. Hvort sem gjafirnar eru stórar eða smáar er víst að þær gleðja börnin og um leið er gaman að halda í þennan gamla séríslenska sið.

Heimildir: Saga dagann eftir Árna Björnsson og veraldarvefurinn.  

Tögg úr greininni
,