Þrjár einfaldar hugleiðslur

Áhrif hugleiðslu gætir víða og fer þeim stöðugt fjölgandi sem iðka hana og uppskera vel. Það sem gerir hugleiðslu svo einstaka er að það getur hver sem er stundað hana, hvar og hvenær sem er. Hún krefst engra tækja né tóla og það er afskaplega einfalt að byrja.

Það eru fjölmargar leiðir í boði og því um að gera að prófa sem flestar til að finna út hver þeirra virkar best fyrir þig. Til að einfalda leitina tókum við saman þrjár stuttar og einfaldar hugleiðslur sem passa öllum stigum, byrjendum sem og lengra komnum.

Leidd hugleiðsla
Þessi hugleiðsla er tilvalin fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref. Hér ert þú leidd/ur í gegnum hugleiðsluna og þarft einfaldlega að koma þér vel fyrir og njóta. Hugleiðslan hjálpar þér að slaka á og endurhlaða batteríin og er því tilvalin bæði kvölds og morgna eða einfaldlega sem stutt hvíld frá hinu daglega amstri.
Tengill: https://www.youtube.com/watch?v=8Xdwr4cRTVA

Hugleiðsla með möntru
Þú hefur eflaust heyrt getið um möntrur en það eru endurtekin orð eða hljóð notuð til að auka einbeitingu á meðan hugleiðslu stendur. Í þessari hugleiðslu er hin heilaga ‘om’ mantra notuð en hún kemur úr hindúisma. Mantran er einföld, hefur slakandi áhrif og getur hver sem er þulið hana upphátt eða í hljóði á meðan hlustað er.
Tengill: https://www.youtube.com/watch?v=WTylTtQREMc

Núvitundarhugleiðsla
Þessi hugleiðsla miðar að því að hjálpa þér að losa um streitu og þróa núvitund um skynjun líkamans, frá toppi til táar. Rannsóknir sýna fram á að þessi tegund hugleiðslu getur dregið úr stressi og verkjum og aukið þar með vellíðan.
Tengill: https://www.youtube.com/watch?v=ZM3eYRODNbc

Tögg úr greininni
, , ,