Veistu hvað þú ert að setja á þig?

Ég hef verið með erfiða húð frá því að ég var 11 ára gömul. Bólur, fílapensla, þurrkubletti – bara nefndu það. Ég hef alltaf hugsað vel um húðina en hef ekki náð að halda henni góðri. Ég fór til húðlæknis fyrir u.þ.b. þremur árum sem lét mig fara á bæði lyf og sterakrem. Húðin skánaði meðan ég notaði lyfið og kremið en allt blossaði upp aftur þegar ég átti að fara að trappa mig niður á lyfjunum. Mér fannst svo rangt að taka lyf til að koma húðinni í lag. Sterakremið mátti t.d. ekki komast í snertingu við föt vegna þess að þá myndu þau aflitast. Hversu mikið eitur? Og þetta átti ég að setja á húðina á mér! Þetta ferli var kostnaðarsamt og var engin langvarandi lausn. En þetta er því miður meðferðin sem flestir fá við húðvandamálum.

Sterakrem í morgunmat?

Húðin er stærsta líffæri mannsins og það sem þú setur á hana fer beint inn í blóðrásina og hefur þ.a.l. áhrif á líkamsstarfsemi þína. Það er greið leið fyrir kemísku efnin beint úr snyrtivörum, inn í líkama þinn. Það sem þú berð á húðina áttu alveg eins að geta borðað, það er meira að segja verra fyrir líkamann að setja eitrið á húðina heldur en að borða það. Við meltum matinn áður en hann fer í blóðrásina en efnin í snyrtivörum fara beinustu leið úr húðinni yfir í blóðrásina.

Lestu á innihaldslýsingarnar

Það er mjög mikilvægt að vera vakandi fyrir innihaldslýsingum á snyrtivörum og öllu því sem þú berð á húðina. Þetta gildir yfir allar snyrtivörur, hvort sem það er tannkrem, sjampó, svitalyktareyðir eða förðunarvörur. Fyrir mig persónulega, vil ég vita hvað er í vörunni og helst þekkja meirihlutann af innihaldsefnunum. Líkt og þegar ég kaupi matvörur þá finnst mér það mjög mikilvægt að lesa á innihaldslýsingar til að vita hvað er í vörunni. Af hverju ætti ég að bera skaðleg efni á húðina á mér þegar ég legg mig alla fram við að forðast þau í matvælum?

Það sem þú veist ekki, eða það sem er virkilega verið að reyna að fela fyrir þér, getur í alvörunni skaðað þig. Áður en þú berð á þig rándýra, lúxuskremið þitt skalt þú lesa á innihaldslýsinguna og ganga úr skugga um að þar séu engin skaðleg efni á ferð.

Hvað ber að varast?

Snyrtivörur eru framleiddar úr 10,500 einstökum kemískum innihaldsefnum, sum af þeim eru þekkt eða grunuð fyrir að vera krabbameinsvaldandi, eitruð æxlunarkerfinu eða þekkt fyrir að trufla innkirtlakerfið. Þó svo að sum fyrirtæki leggi upp úr því að framleiða vörur sem er óhætt að borða, eru önnur sem nota hættuleg innihaldsefni eins og koltjöru og formaldehýð, bæði krabbameinsvaldandi efni.

Þessi skaðlegu efni geta konur borið í ófædd börn sín í gegnum móðurkvið. Eitt af þessum efnum eru t.d. paraben. Þau geta ollið hormónaójafnvægi, hafa verið fundin í brjóstvef og verið tengd við krabbameinsæxli. Ég fann mjög góðan lista frá Enwiromental Working Group, sama teymi og rannsakaði hvað það er mikilvægt fyrir okkur að borða lífrænt grænmeti og ávexti. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þau skaðlegu efni sem ber að forðast í snyrtivörum hér.

Sjá yfirvöld ekki um að snyrtivörurnar séu öruggar?

Flest okkar nota snyrtivörur á hverjum degi og trúum því að eitthvað æðra vald sjái til þess að það séu engin skaðleg efni í umferð. Ég vildi að sú væri raunin.

Það er ekki krafist þess að kemísk efni iðnaðarins fari í gegnum öryggisprófun. Hvorki þau efni sem fara í snyrtivörur né þau sem fara í efnaiðnaðinn í heild sinni. Samkvæmt skrifstofu snyrtivara og litarefna innan sambands Matvæla- og Lyfjaeftirlitsins segir; ”..snyrtivöruframleiðandi má nota næstum hvaða hráefni sem innihaldsefni í snyrtivöru og markaðssetja vöru án samþykkis frá FDA.” (FDA 2012) FDA gerir ekki kerfisbundið öryggiseftirlit, í staðinn heimila þau snyrtivöruiðnaðum að gæta sjálf innihaldsöryggis í gegnum sérstakt spjald. Í yfir 36 ár hefur þetta spjald aðeins bannað 11 innihaldsefni sem eru óörugg í snyrtivörum. (CIR 2012). Til samanburðar, hefur Evrópusambandið bannað hundruð efna í snyrtivörum. (Framkvæmdastjórn Evrópu 2012)

Lífrænar snyrtivörur?

Ég hef áður talað um mikilvægi þess að borða lífrænar matvörur og er það ekkert öðruvísi með snyrtivörur. Úrval lífrænna snyrtivara er að aukast gríðarlega í heiminum um þessar mundir og mikil vakning á mikilvægi þeirra. Það hefur þó ekki verið neitt svakalegt úrval hérna heima en það hefur aukist á síðustu misserum.

Það er algjör mýta að lífrænar snyrtivörur séu eitthvað dýrari en aðrar snyrtivörur. Þú ert að borga fyrir gæði og lífrænar snyrtivörur endast miklu lengur en venjulegar snyrtivörur. Þú þarft einnig minna af þeim. Þetta er ákveðin fjárfesting sem þú gerir og hún mun svo sannarlega vera þess virði.

Lífrænar snyrtivörur eru þó ekki trygging um að varan sé örugg fyrir þig. Stundum eru vörur merktar sem lífrænar en innihalda aðeins nokkur lífræn innihaldsefni ásamt skaðlegum efnum sem við eigum að forðast.

Snyrtivörur og innihald þeirra þurfa ekki að fá samþykki yfrvalda áður en þær fara í búðahillurnar. Það sem meira er, þegar að snyrtivörurnar eru komnar í búðir þá hefur FDA ekki vald til að innkalla þær.

Merkingar snyrtivara

Þegar snyrtivörur eru titlaðar „náttúrulegar’“ og „lífrænar“ er það semsagt ekki öruggt. Snyrtivöruframleiðendum er frjálst að merkja vöruna eins og þeir vilja. Vörurnar geta því innihaldið nokkur lífræn innihaldsefni en innihaldið einnig ýmis skaðleg efni og varan merkt náttúruleg eða lífræn. Því þarft þú sem neytandi að fylgjast afar vel með.

Snyrtivöruiðnaðurinn á mjög auðvelt með að blekkja neytandann og það sem verra er, komast upp með það:

http://ewg.org/skindeep“Hér getur þú flett upp snyrtivörum og séð hvort þær séu öruggar fyrir þig.

Ég hvet þig, lesandi góður, til að kynna þér eiturefni snyrtivara og skaðsemi þeirra. Lestu svo á snyrtivörurnar þínar og hentu því sem er þér skaðlegt. Farðu svo inn á lífræna og náttúrulega línu næst þegar þú verslar inn en vertu þó alltaf á varðbergi og lestu á innihaldslýsingarnar. Ég er svolítið róttæk þegar kemur að svona aðgerðum, það er annaðhvort allt eða ekkert hjá mér. Þú getur að sjálfsögðu byrjað rólega að kaupa inn lífrænar snyrtivörur um leið og hinar klárast.

Ég vona að ég hafi vakið þig til umhugsunar, gangi þér vel!

Ef þú vilt vita meira, horfðu á þessu myndskeið:

Heimildir:
http://www.ewg.org/skindeep/2011/04/12/why-this-matters/
http://www.mercolahealthyskin.com/
http://www.mintandberry.com/pages/Why-Use-Organic%3F.htm

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.