Vellíðan í eigin skinni

Allt í kringum okkur eru staðalímyndir sem gefa út hvernig hið fullkomna sjálf eigi að vera. Við eigum það til að gleyma því að vera ánægð með okkur eins og við erum þar sem við reynum stanslaust að elta staðalímyndir. Staðalímyndir sem eru yfirleitt „fótósjoppaðar“ af fjölmiðlum og eiga sér alls enga stoð í raunveruleikanum. 

Undirrituð man eftir því að hafa ung að aldri horft á mynd af frægri leikkonu og grátið yfir því að ná aldrei að verða svona falleg. Það sem þessi unga stúlka áttaði sig ekki á þá var að þessi mynd var „fótósjoppuð“ í myndvinnsluforriti og var því ekki hið raunverulega útlit leikkonunnar. Leikkonan er eflaust falleg en hún er samt ekta sem þýðir ekki gallalaus, ekki óekta eins og þær myndir sem sjást í flestum blöðum.
Hættum að eltast við óekta ímyndir og fegruð augnablik og lærum frekar að elska okkur eins og við erum. Því það sem við erum er það sem við höfum og það er alveg meira en nóg.

Þrjú ráð sem hjálpa þér að sjá hversu æðisleg/ur þú ert:

1. Það eina sem skiptir máli er hvernig þú hugsar um sjálfa/n þig, ekki hvað aðrir hugsa.

Ertu stanslaust að gagnrýna sjálfan þig og brjóta þig niður? Veittu því eftirtekt hvernig þú talar til sjálfs þíns. Ef það er neikvætt er nauðsynlegt að breyta því. Það að tala fallega til sín er undirstaða fyrir því að líða vel í eigin skinni. Talaðu við sjálfa þig eins og þú myndir tala við þinn besta vin. Þetta krefst æfingu, en hún skapar jú meistarann.

2. Hlustaðu á þinn eigin líkama –  þú setur reglurnar.

Það er ótrúlega mikilvægt að hlusta á hvað líkaminn hefur að segja. Ekki pína hann. Ekki sleppa því að borða ef hann er orðin svangur, þó að það sé ekki kominn sá tími dags sem einhver ráðlagði að væri bestur til þess að borða. Ef líkaminn er svangur, nærðu hann. Ekki halda áfram að æfa ef líkaminn æpir af verkjum. Hættu þá þennan daginn, hvíldu líkamann ef hann þarf á því að halda. Það er gott að sýna aðhald í matarræði og hreyfa sig en það er einnig nauðsynlegt að hlusta á líkamann og fara eftir því sem hann biður okkur um.

3. Það er ekkert fullkomið

Enginn líkami er fullkominn. Okkur öllum fylgja kostir og gallar. Mundu það. Þú ert fallega mannleg/ur, ekki fullkomin óekta ímynd. Hluti af því að vera mannlegur er að skap okkar breytist dag frá degi. Ef þú ert ekki í stuði einn daginn þá er það í lagi. Ekki pressa á sjálfa/n þig til þess að vera fullkomin/n alla daga, alltaf. Stundum er í lagi að gera lítið sem ekkert. Við eigum það til að gleyma því að leyfa okkur að vera. Við þurfum ekki alltaf að vera gera eitthvað. Stundum er í lagi bara að vera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.