Vorhreingerning: Einfaldaðu lífið

Nú þegar byrjað er að vora er tilvalið að gera létta vorhreingerningu, bæði í umhverfi sínu og venjum. Við tókum saman 5 ráð sem geta haft jákvæð áhrif á líðan, gefið meiri fókus, tíma fyrir það sem skiptir máli og um leið losað um kvíða og stress. Áður en þú byrjar að fara yfir listann spyrðu þá sjálfan þig hvað það er sem skiptir þig raunverulega máli í lífinu, nefndu 3 stór atriði og hafðu þau til hliðsjónar á meðan þú ferð yfir listann:

  1. Skoðaðu skyldurnar. Allt frá heimilisverkum til vinnu, frá dagskrá barnanna til áhugamála þinna og afþreyingar. Hvað skiptir þig máli og hverju má sleppa? Berðu skyldurnar saman við þá hluti sem þú nefndir að skipti þig mestu máli í lífinu, á þetta samleið?
  2. Lærðu að segja nei. Ef þú segir já við öllum tilboðum áttu eftir að enda með því að taka of mikið að þér, gera hlutina illa og skapa stress og kvíða. Áður en þú svarar næsta tilboði, hvort sem það er um matarboð, vinnu eða greiða, skoðaðu hvenær þú gætir haft tíma í það eða hvort að tilboðið passi við þau atriði sem skipta þig verulegu máli.
  3. Búðu til nýjar rafrænar venjur. Hversu miklum tíma eyðir þú á internetinu, glápir á sjónvarpið eða eyðir í símanum? Er það sem þú skoðar, það sem þú talar um eða sá sem þú talar við, uppbyggjandi, hluti af áhugamáli eða er eitthvað af þessu tímasóun? Taktu til í eigin sjónvarpsáhorfi, netflakki og símatíma, ákveddu hvað það er sem skiptir þig raunverulega máli og minnkaðu óþarfann.
  4. Einfaldaðu heimilið. Farðu yfir hvert herbergi og hvern hlut fyrir sig með einföldun í huga. Þarftu þetta virkilega, eða er þetta einungis eitthvað sem safnar ryki og þér finnst varla fallegt. Gefðu það sem þú getur, hentu því sem þú þarft ekki (í rétta tunnu) og haltu því sem er nauðsynlegt til að reka heimili.
  5. Skipulagðu óskipulagið: Hvar er þína óreiðu að finna; er það pósthólfið þitt, skúffurnar, geymslan eða matarbúrið sem þér hryllir við að taka til í og skipuleggja? Skipulag á ýmsum sviðum tekur vissulega tíma en borgar sig seinna meir. Að taka til í tölvunni, búa til dæmis til möppur fyrir hvert verkefni felur í sér ótrúlegan tímasparnað þegar þú þarft svo að finna eitthvað ákveðið. Þetta má líka segja um skúffur og fataskápinn. Losaðu þig við sem þú notar ekki og skipulagðu hlutina sem eftir sitja á ákveðinn hátt. Það mun borga sig á marga vegu!

Góða helgi!

Tögg úr greininni
, ,