Yfir fannhvíta jörð

Stærsti viðburður ársins í sleðahundaíþróttinni er Íslandsmeistaramót Sleðahundaklúbbs Íslands sem er orðin árlegur viðburður í Mývatnssveit. Hjördís Hilmarsdóttir og fjölskylda hennar eiga Síberíska Husky-hunda sem vita ekkert skemmtilegra en að hlaupa með sleða í afturdragi.

Sleðahundaíþróttin hefur verið í mikilli sókn hér á landi allt frá árinu 2010 þegar Sleðahundaklúbbur Íslands var formlega stofnaður. Hvorki er nauðsynlegt að eiga hund né útbúnað til að vera meðlimur í klúbbnum og sleðahundaíþróttin hentar fólki á öllum aldri. Þess má einnig geta að allar tegundir hunda eru velkomnar í klúbbinn.

husky4

Stærsta mótið sem klúbburinn stendur fyrir er Íslandsmeistaramótið, sem fer fram í Mývatnssveit (næsta er í mars 2016). Það hefur nú verið haldið fimm sinnum og fjölgar þátttakendum með ári hverju. Yfirleitt er keppt í þremur mismunandi greinum: Í hundasleðakeppni er keppandinn á hundasleða sem dreginn er af tveimur til sex hundum mislangar vegalengdir. Spyrna er stutt vegalengd á sleða með tveimur hundum fyrir. Í „skijöring“ draga einn eða tveir hundar keppandann á gönguskíðum ákveðna vegalengd.

Frábær samvera manna og dýra

Sleðahundaíþróttin býður upp á frábæra samveru manna og dýra úti í náttúrunni,“ segir Hjördís Hilmarsdóttir. Hún hefur stundað hana um árabil og var gjaldkeri Sleðahundaklúbbsins. Í Mývatnssveitinni hefur hún keppt bæði á skíðum og sleða. Þó að hún sé meðal elstu þátttakenda gefur hún hinum ekkert eftir. „Það er svo gaman að vera úti í náttúrunni með hundana,“ segir hún. „Ef það er braut þá hlaupa þeir eftir henni og þeim finnst það virkilega skemmtilegt. Og það er það sem mestu máli skiptir.“

husky1
Ljósmynd: Pétur Skarphéðinsson

Sjálf ræktar Hjördís Siberian Husky-hunda, ásamt Steindóri eiginmanni sínum, á Gunnlaugsstöðum austur á Héraði. „Það voru grænlenskir sleðahundar sem komu fyrst hingað til lands í kringum 1990 en hafa aðallega verið notaðir við ferðaþjónustu. Fyrstu Siberian Husky-hundarnir sem ræktaðir voru sérstaklega hér á landi fyrir hundasleðaíþróttina komu í heiminn árið 2003. Við fengum okkar fyrsta hund það ár. Við erum núna með 15 stykki á heimilinu, þar af sjö hvolpa. Þetta eru sleðahundar upprunnir í Síberíu sem voru ræktaðir vegna þess eiginleika að geta hlaupið langar leiðir án þess að þurfa að borða mikið. Þeir eru líka sérlega barngóðir; í Síberíu voru þeir látnir hlýja börnum í snjóhúsum. Á skíðasvæði Seyðfirðinga og okkar Héraðsbúa, Stafdal, leikum við okkur mikið með þeim og bjóðum heimamönnum að taka þátt. Á páskum höfum við leyft krökkum að prófa hundasleðana og skíðin. Við eigum líka vagn sem hundarnir draga og bjóðum fólki iðulega að prófa hann, þar á meðal sjúkum, öldruðum og fötluðum.“ 

Gott er að byrja að þjálfa sleðahunda mjög unga, en alls ekki láta þá draga of þungt fyrsta árið, að sögn Hjördísar. „Það er sniðugt að láta þá draga eitthvað létt í byrjun, til dæmis snjóþotu, og seinna dekk eða eitthvað slíkt. Einnig er gott að láta þá hlaupa með öðrum hundum, sem eru að draga. Það gefur líka góða raun að hjóla með þá eða vera á hlaupahjóli. Áríðandi er að nota alltaf sömu skipanir við þjálfunina. Husky-hundar eru fljótir að læra en þurfa auðvitað þjálfun fyrir lengri hlaup.“

Faglegra með ári hverju

Hundasleðasportið er sannkallað fjölskyldusport og hefur sonur Hjördísar, Sæmundur Þór Sigurðsson, keppt í „skijöring“ undanfarin ár með góðum árangri. „Ég hef reynslu af gönguskíðum og það hjálpar töluvert, sérstaklega upp á jafnvægið að gera. Það er bæði gaman og gefandi að taka þátt í þessum félagsskap og ég finn hvað allt verður faglegra með ári hverju. Sjálfur hef ég sérstaklega gaman af því að vinna með hundunum í keppni. Ólíkt því þegar maður er einn á skíðunum, veit maður aldrei hvað gerist næst. Hundarnir eru jú lifandi verur og láta ekki alltaf að stjórn,“ segir hann. „Ekki má gleyma því að hjá hundum af þessari tegund er fremur stutt í villieðlið. En þeir eru hins vegar sérstaklega barngóðir,“ leggur hann áherslu á og rifjar upp skemmtilegt atvik. „Einu sinni sem oftar voru hundarnir að draga syni mína, sem eru tveggja og fjögurra ára, á sleða. Ég fór samhliða og hélt í spotta. Skyndilega tóku hundarnir á rás og ég missti takið. Ég náði strákunum en hundarnir héldu áfram með tóman sleðann í eftirdragi. Svo verður konunni minni, sem vinnur á skrifstofu, litið út um gluggann og sér sleðann mannlausan. Hún náði sem betur fer að stökkva út og grípa hundana.“

husky2
Ljósmynd: Pétur Skarphéðinsson

Sæmundur býr sjálfur í Mývatnssveit og starfrækir þar, ásamt fjölskyldu sinni, ferðaþjónustufyrirtækið Geo Travel sem býður skipulagðar jeppaferðir, gönguskíðaferðir og aðra vetrarafþreyingu. „Ég finn fyrir verulegum áhuga erlendra ferðamanna á hundunum og við hjónin höfum mikinn hug á að nota þá við ferðaþjónustuna. Við stefnum að því að prófa það í vetur og mamma ætlar að koma með hunda og vera hér í um það bil mánuð. Við hefðum gaman af því af eiga sjálf hunda – og þá helst marga. En það er heilmikil skuldbinding; það þarf auðvitað að sinna þeim allan ársins hring,“ segir hann að lokum.

UPPFÆRT: Síðan þessi grein var skrifuð síðasta vetur hafa Sæmundur og kona hans Bergþóra fengið sér husky hunda og marga. Þau bjóða upp á sleðaferðir með hundunum í Mývatnssveit og hafa fengið frábærar viðtökur. Framundan er svo sleðahundamót í 12. og 13. mars á Mývatni og hægt er að skrá sig HÉR og allir velkomnir að koma og fylgjast með.


MYNDIR: PÉTUR SKARPHÉÐINSSON

TEXTI: ÁSTA ANDRÉSDÓTTIR

GREININ BIRTIST FYRST Í VETRARBLAÐI 2015 – KAUPA HÉR Á AÐEINS 850 KR.


 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.