Að elta draumana – Systrasamlagið 1 árs!

Já, það er komið að því. Næsta sunnudag, 15. júní, er ár liðið síðan við systur opnuðum dyr Systrasamlagsins. Breyttum gamalli hamborgarasjoppu í heilsuhof. Fáránleg hugmynd? Kannski. En sennilega nógu galin til að vera bara býsna góð. Við erum alltént ansi ánægðar með myndina sem við erum búnar að draga upp af “nýju sjoppunni”og margir hafa heillast með okkur. Það býr enda sterk og skýr sýn að baki og talsverð reynsla. Vegna þessarra ánægjulegu tímamóta hefst afmælisvika Systrasamlagsins fimmtudaginn 12. júní og stendur til þess 18. Á afmælisdaginn bjóðum við upp á fyrsta sunnudags-Samflot Systrasamlagsins sem hefst kl. 9.00 f.h. Gæti orðið heilög stund?

Af hverju?
Önnur systirin, þ.e. Jóhanna hafði lengi gengið með búð í maganum enda mikil búðarkona og heilsumálin hennar sérsvið. Hin systrin, Guðrún, lét heillast með og varð fljótlega ástríðufullur heilsuskríbent í hjáverkum. Smám saman láu leiðir okkar saman og þegar rétti tíminn kom lá beinast við að sameina krafta okkar til góðra verka. Ákvörðunin um stofnun Systrasamlagsins var tekin í “núvitundarástandi” í tíbetsku munkaklaustri í Skotlandi í janúar 2013. Og síðan var hafist handa.

Andinn og efnið
Við lögðum upp með áhugamál okkar, hugmynd um að stofna heilsubúð þar sem andinn fylgdi líka efninu. Það er líka einhver sögn í því að sjoppan sem þarna var fyrir hefði lagst af. Líkt og fólk væri farið að kalla eftir víðtækari breytingum í heilsumálum en áður. Fyrir mörgum hafði runnið upp sú mótsögn að hafa sjoppu sem bauð heldur næringarsnauðan skyndibita staðsetta fyrir framan sundlaug og íþróttamiðstöð. Okkur finnst nú sem sú samfélagsvitund sé að kvikna víðar en á Seltjarnarnesinu.

Seltjarnarnesið er fallegt
Í okkar huga er Seltjarnarnesið einn fegursti bæjarskiki landsins. Stutt í gullfallega náttúru, saltvatns sundlaugin dásamleg og allt til fyrirmyndar er snýr að heilsurækt og íþróttaiðkun. Hér er á Nesinu hefur líka myndast fallegt jógasamfélag, firnasterkt kraftlyftingafélag, ekki síður kvenna en karla, að ógleymdu Samflotinu sem við systur höfum haldið úti í bráðum eitt ár.

Stífur heilsurammi
Það mátti því ekki vera minna vera, fyrst á annað borð væri verið að opna “sjoppuna” á ný á þessu svæði, en að það yrði um að ræða heilsugæði af bestu sort. Í Systrasamlaginu bjóðum við m.a. upp á lífrænt ræktaðar vörur, þar á meðal kaffi og mjólk. Við fáum mjólkina í fötum vikulega frá Bióbú frá Neðri-Hálsi í Kjós. Það er oft fyrirhöfn að nálgast þessar vörur en við viljum leggja dálítið á okkur til að bjóða upp á gæði. Að öðru leyti má m.a. finna hjá okkur allskyns ofurþeytinga, grauta, ákvexti, slikkerí og te, ásamt croissanti og brauði frá besta bakaranum í bænum, Ásgeiri Sandholt. Og svo eru það Viridian vítamínin, lífrænn 360° gullfallegur jógafatnaður og allskyns jógavörur, fylgihlutir, ilmir án eiturefna, hreinar snyrtivörur, leðurtöskur sem eru sútaðar á gamla mátann, og aðrar árstíðabundnar vörur. Heilsuramminn er stífur. Og sterkur.

Afmælisafsláttur Systrasamlagsins
Í tilefni afmælisins bjóðum við m.a. upp 25% afslátt mörgum af okkar gæðavörum.
25 % afsláttur verður af eftirfarandi vörum frá 12. til 18. júni:

Higher Living te – uppáhald flestra
Dásamlega lífræn og bragðgóð, bæði heit og köld.

Viridian – bætiefnalína systra
Framúrskarandi hrein og ómenguð virkni. Engin “nastís”.

Sóley Organics – er systir okkar
Hágæða lífrænar húðsnyrtivörur sem byggja á aldagamalli hefð. Sóley er systir okkar í anda.

Dr. Bronner – stórkostlegu sápurnar!
Handa þér og þínum, þvottavélinni og heimilinu. Þú mátt í raun borða þær (ekki gera það samt).

Pacifica –vinsælustu náttúruilmir veraldar
Fást hjá okkur í formi roll-on og nú líka í vaxi. Fullkomlega vegan og frábærir.

og svo er það síðdegishressing úthverfakonunnar!
Í tilefni afmælisins höfum líka sett saman nýjan þeyting sem við höfum kosið að kalla Matcha ofurþeyting – síðdegishressingu úthverfakonunnar (en líka karlmannsins, auðvitað). Hann er blanda af lífrænu matcha tei, graskersfræjum, vanillu, klórellu, kardimommum, himalaya salti og vatni. Og ótrúlega hressandi og bragðgóður. Þess má geta að Matcha teið hefur margfalt öflugri virkni en venjulegt grænt te. Í 1/2 tsk af matcha fæst um það bil sama virkni og í 8-10 bollum af venjulegu grænu te-i, graskerfræ eru sneisafull af sinki en fátt er talið betra fyrir lífs- og kynhvötina og gróandann í húðinni, kardimommur eru drottning meltingajurtanna, klórella er mjög næringarík og losar líkamann við eiturefni, þ.m.t. þungamálma. Þessi verður á góðu kynningartilboði til 18. júní ásamt súrdeigs ciabatta með lífrænum lífrænum tómötum, basil og mozarella.
Umami, eins og einhvers sagði.

Vonumst til að sjá ykkur sem flest!

Með kærri kveðju
Guðrún og Jóhanna

PS: Við höfum jafnan ekki opið á sunnudögum en þar sem afmælisdag okkar ber upp á sunnudegi höfum við ákveðið að hafa opið frá 11 til 15 þann dag. Lokað verður hins vegar á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

 

GraentfridindakortSYSTRASAMLAGIÐ ER EINNIG Á GRÆNA FRÍÐINDAKORTINU OG BÝÐUR UPP Á 10% AFSLÁTT AF VEITINGUM ALLT ÁRIÐ UM KRING FYRIR HANDHAFA! 

—- SMELLTU HÉR TIL AÐ FÁ KORT —–

Tögg úr greininni
,