Ritstjórn: Grænn heimilisleiðtogi óskast!

Desember er mánuðurinn sem stendur upp úr á árinu, m.a. hvað neyslu varðar. Janúar er mánuður nýs upphafs og tækifæra með metnaðarfullum markmiðum og í mínum huga er febrúar friðsæli mánuðurinn. Þá hafa flestir gleymt markmiðum sínum og viðburðarhald er í lágmarki, enda valdi ég febrúar fyrir hugleiðsluhátíðina, Friðsæld, í febrúar. Hátíðina hélt ég þrjú ár í röð og kom mörgum af stað með að hugleiða.

Heilsu- og umhverfisveisla í Hörpu febrúar 2022!

Nú ætla ég hins vegar að vera með læti í febrúar og halda stærsta umhverfis- og heilsupartí ársins! Mig hefur lengi dreymt um að taka tímaritið og skapa upplifun í anda þess. Gera Lifum betur viðburð þar sem hægt er að hanga alla helgina og hlusta á áhugaverða fyrirlestra, horfa á sýningu og upplifa alls konar. Ég hef haft þá tilhneigingu í gegnum þessi ellefu ár í útgáfubransanum að velja verkefni sem gefa mér gleði, fiðring í magann og drifkraft til að framkvæma. Flest hafa gengið vel og öðrum hef ég sleppt takinu á. En þegar ég fæ hugmynd, sem hefur öll þessi element eins og þessi viðburður, þá rifja ég upp það sem Jessy Blue, indíánahöfðingi frá Kanada, sagði við mig í góðu spjalli: „Guðbjörg, ef það veitir þér gleði, þá er það vísbending um að þetta séu skilaboð frá sálinni, að heiminum vanti akkúrat þetta.“ Ég ákvað að trúa indíánahöfðingjanum.

Eftir að hafa frestað Lifum betur viðburðinum tvisvar þá vonumst við til þess að sjá sem flesta dagana 11.-13. febrúar 2022 í Hörpu. Frá föstudegi til sunnudags kynna um 40 fyrirtæki heilsu- og umhverfisvænar vörur og þjónustu (sjá listann á opnunni hér fyrir neðan) og boðið upp á tuttugu fyrirlestra og örnámskeið í Lifum betur andanum.

Lifum betur viðburður þar sem hægt er að hanga alla helgina og hlusta á áhugaverða fyrirlestra, horfa á sýningu og upplifa alls konar.

Ný vefsíða í loftið!

Samhliða því að vinna að sýningunni höfum við í höfuðstöðvunum í Heiðmörk einnig verið upptekin af því að koma upp nýjum vef, sem hefur fengið nafnið Græna torgið. Þar verður hægt að finna allt grænt á einum stað. Við höfum fundið þörfina fyrir slíkum upplýsingavef eða skrá þar sem markmiðið er að einfalda fólki að lifa grænum og heilbrigðum lífsstíl. Ég hef fundið það sjálf á eigin skinni undanfarið hvað það getur verið erfitt að lifa umhverfivænum lífsstíl þar sem ég hef staðið í flutningum og setti mér það markmið að gera mitt besta til þess að hugsa um umhverfismálin þegar kæmi að innkaupum. Ég sá strax að þetta var ekki einfalt mál, þrátt fyrir að ég væri talsvert inn í þessum málum. Það er t.d. hvergi að finna lista eða stað sem segir mér hvar ég finn umhverfisvænan sófa, gardínur, málningu, rúm, ryksugu o.fl.  Undanfarið hef ég farið í búðir og spurt: „Ertu með eitthvað umhverfisvænt eða vottað?“ Oft er fátt um svör og einn afgreiðslumaður sagðist aldrei hafa fengið þessa spurningu áður. En stundum kemur einhver mér skemmtilega á óvart þar sem mikill metnaður er í þessum málum. En það er greinilegt að við neytendur þurfum að gera meira af því að spyrjast fyrir um umhverfisvænar vörur og skapa þannig vitund hjá verslunarfólki sem þarf oft að finna fyrir eftirspurninni til þess að það byrji að huga að þessum mikilvægu málum

Það er t.d. hvergi að finna lista eða stað sem segir mér hvar ég finn umhverfisvænan sófa, gardínur, málningu, rúm, ryksugu o.fl.  Undanfarið hef ég farið í búðir og spurt: „Ertu með eitthvað umhverfisvænt eða vottað?“

Umhverfisvæn kaup á netinu

En á grænatorginu.is verður hægt að finna vörur og fyrirtæki sem bjóða upp á slíkar vörur, ásamt viðgerðarverkstæðum, loppumörkuðum, fróðleik o.fl. En að sjálfsögðu er alltaf umhverfisvænast að nýta það sem maður á eða kaupa notað. Næsta skref er að fá fyrirtækin til að skrá sína vöru og þjónustu og neytendur eins og þig til að benda okkur á hvað vantar svo við getum gengið í málið og skráð á grænatorgið.is. Öll getum við gert eitthvað gagn og saman alveg helling.

Grænu skrefin 

Í blaðinu má svo finna skemmtilega leið til að grænka sig og heimilið enn frekar, fjögur græn skref fyrir heimilin eru skemmtileg leið fyrir alla fjölskylduna til að skoða hver græna staðan er á heimilinu, og til að taka nokkur auka græn skref. Við þurfum að skapa fullt af grænum leiðtogum inni á heimilunum. Ég er a.m.k. komin með tól fyrir mína fjölskyldu svo við verðum samstíga í þessum málum. En ég þekki mitt fólk og verðlaunin í lok hvers skrefs verða að vera lokkandi!

Fjölbreytt og jólalegt

Að vanda má finna margt fróðlegt og skemmtilegt í blaðinu. Breytingaskeiðið, áhrif tunglsins á heilsuna, sjálfbæra spunaverksmiðju, heimilislegan mat og þá fá lesendur kennslu við að veiða  í gegnum ís og hvernig best sé að velja hrein kerti og umhverfisvænar gjafir og o.fl. 

Gleðilegan vetur!

Þessi ritstjórnarpistill er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021