12 leiðir til að einfalda lífið

Eins og flestir hafa fundið áþreifanlega fyrir, þá lifum við í samfélagi sem er fullt af alls konar áreitum, freistingum, krefjandi samskiptum og spennandi tækifærum á hverju horni. Við þurfum að taka ótal ákvarðanir á hverjum einasta degi og hver ákvörðun hefur áhrif á okkar daglega líf til langtíma litið.

RÉTTAR SPURNINGAR

Hvaða nám við ákveðum að fara í, að velja á milli tveggja spennandi atvinnumöguleika, hvernig mat við verslum fyrir fjölskylduna okkar, hvaða sjónvarpsefni við veljum að horfa á, hvernig við eyðum frítíma okkar. Allar þessarlitlu ákvarðanir dags daglega móta lífstílinn okkar. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum og engin annar. Það er því undir okkur sjálfum komið að velja rétt. Þá kemur stóra spurningin, hvað viljum við eiginlega? Hvernig lífi viljum við lifa? Þetta eru mjög mikilvægar spurningar sem gott er að spyrja sig til að geta tekið réttar ákvarðanir sem móta lífið sem við viljum lifa.

EINFÖLDUN

Munum við finna lykilinn að betra lífi í miðjunni á ruslahaug? Líklegast ekki. Því kemur einföldunin inn. Við þurfum að taka til í kringum okkur. Einfalda, forgangsraða. Finna út hvað skiptir virkilega máli og hvað getur beðið? Þarna kemur hugleiðslan sterk inn, en hún hjálpar okkur við að róa hugann til að við finnum sannleikann okkar, svörin sem höfum leitað að, hvað sé best fyrir okkur sjálf. Grundvallaratriðið hér er að eyða tíma í þögn með sjálfum sér, hvort sem það sé gert í formlegri hugleiðslu eða einfaldlega með því að skrifa niður og finna hvað þú virkilega vilt. Aðalatriðið er að geta verið með sjálfum sér án utankomandi truflunar.

Ávinningurinn af einföldun á lífstílnum eru óteljandi og geta verið persónubundnir. Það sem flestir finna þó fyrir er að streitan verður töluvert minni og núvitundin meiri og dýpri. Þú gætir einnig fundið fyrir því að verða samkvæmari sjálfum þér og taka betri ákvarðanir sem skilar þér lífinu sem þú virkilega vilt lifa. Þú  finnur svo mögulega betur fyrir því að það eru í raun litlu hlutirnir sem skipta mestu máli og gera lífið innihaldsríkara og þar af leiðandi þig hamingjusamari.

12 TILLÖGUR:

 • Minnkaðu tölvu – og farsímanotkun.
 • Skiptu sjónvarpstíma út fyrir hugleiðslu og/eða upplífgandi fyrirlestra (ted, youtube).
 • Vaknaðu fyrr á morgnana og gefðu þér dýrmæta gjöf að fara rólega inn í daginn, þú uppskerð í takt við það.
 • Tímanum sem eytt er í bifreið er hægt að eyða í þögn. Slökktu á útvarpinu.
 • Ekki fresta því sem þú getur gert núna.
 • Notaðu dagbók til yfirsjónar yfir það sem skiptir máli.
 • Ekki skipuleggja hverja einustu mínútu dagsins, svo þú hafir tíma fyrir hið óvænta og það ævintýri sem lífið er.
 • Notaðu möntruna: ég hef nógan tíma og/eða þetta verður allt í lagi.
 • Hafðu í huga að þú ert að gera þitt besta og þú ein/nn berð ábyrgð á þínu lífi.
 • Gefðu þér tíma, helst á hverjum degi, til að vera úti í náttúrunni. Horfðu á trén sveiflast áreynslulaust með vindinum, fuglana í einfaldleika sínum fljúga um og hafðu hugfast að allt er eins og það á að vera.
 • Vertu gagnrýnin/nn og meðvituð/aður um öll áreitin og freistingar sem kalla á þig á hverjum einasta degi. Spyrðu sjálfa/n þig, afhverju langar mig að gera þetta? Eða afhverju verð ég að eignast þetta eða hitt?
 • Spyrðu þig einnig reglulega hvað skiptir þig virkilega máli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.