Lesendur Í boði náttúrunnar vita nú orðið margt um flestar tegundir jóga og því fannst mér tilvalið að deila með ykkur fróðleik um annað vinsælt sport á Íslandi: CrossFit. Vinsældir CrossFit hafa aukist verulega hér á landi síðastliðin ár enda eigum við tvo heimsmeistara í íþróttinni. Helsta markmið CrossFit er að fá fleiri til þess að hreyfa sig og auka þar með heilbrigði og lífsgæði fólks. Í dag eru alls tólf CrossFit stöðvar á víð og dreif um landið og bætist reglulega í flóruna. En hvað er þetta CrossFit og gæti það mögulega verið eitthvað fyrir þig?
Samspil þols, liðleika og styrks
Margir sem ekki þekkja til eru mögulega með fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað Crossfit er og geta jafnvel látið orðið CrossFit fæla sig frá því að prufa kerfið. CrossFit er æfingakerfi sem samanstendur af síbreytilegum æfingum, framkvæmdum af mikilli ákefð, oftast innan ákveðins tímaramma. Allar æfingarnar eru hagnýtar (functional) og endurspegla lykilatriði úr fimleikum, ólympískum lyftingum, kraftlyftingum, hlaupi og róðri ásamt fleiru. Íþróttin er því samspil þols, liðleika, samhæfingar og styrks. Slíkt fjölæfingakerfi undirbýr iðkendur fyrir áskoranir af hvaða tagi sem er og skapa það sem er svo einkennandi fyrir CrossFit; Hreysti. Útlitsdýrkun er stöðugt vaxandi vandamál í samfélaginu og er algengur fylgifiskur líkamsræktar. Í CrossFit er hins vegar lagt upp með heilbrigði og alhliða hreysti einstaklingsins.
Kostir og gallar
Íþróttin hefur hlotið ýmsa gagnrýni í gegnum árin og ganga skiptar skoðanir milli fagfólks um ágæti hennar. Þeir sem mæla á móti CrossFit hafa áhyggjur af meiðslahættu og álagseinkennum sem þeir telja að geti stafað af misbeitingu og ofþjálfun. Þeir sem mæla aftur á móti með íþróttinni nefna helst kostina í fjölbreytileikanum og þá staðreynd að fólki sé mun eðlislægara að notast við eigin líkamsþyngd og laus lóð í stað líkamsræktartækja.
Sjálf hef ég frábæra reynslu af íþróttinni. Ég kynntist henni fyrir um það bil þremur árum og var þá orðin leið á hinni týpísku ræktarrútínu og vantaði nýja áskorun. Helsti kostur CrossFit er að það byggir upp á æfingum sem þjálfa samhæfingu vöðvana og undirbúa okkur fyrir hreyfingar sem við notumst við í daglegu lífi. Sem dæmi um þetta er hnébeygjan sem þú notar þegar þú sest niður og stendur upp úr stólnum eða réttstöðulyftan sem þú framkvæmir þegar þú tekur barnið þitt upp af gólfinu. Íþróttin býður einnig upp á mikinn fjölbreytileika en allar æfingar eru frábrugðnar hvor annarri sem kemur í veg fyrir að þú festist í sama farinu. Margir eiga það til að endurtaka æfingar sem þeir eiga auðvelt með en í þessu kerfi er þér ýtt út fyrir þægindrammann og mætir nýrri áskorun daglega.
Fyrir hverja er CrossFit?
Það er algengur misskilningur að fólk þurfi að koma sér í form áður en það byrjar í CrossFit. CrossFit er eitthvað sem allir geta stundað, óháð aldri, formi og reynslu. Allar stöðvar bjóða upp á byrjendanámskeið þar sem farið er í gegnum allar helstu æfingar og tækni og fólki kennt að beita sér rétt. Að grunnámskeiði loknu er svo hægt að sækja WOD (workout of the day) tíma. Allar æfingar bjóða upp á svokallaða ‘skölun’ en þá getur hver einstaklingur aðlagað æfinguna að sinni getu. Þetta getur falist í að taka færri endurtekningar, léttari þyngd eða taka armbeygjur á hnjám í staðin fyrir tám.
Það hafa sjálfsagt margir upplifað það að vera hálf stefnulausir í ræktinni, finnast æfingar taka of langan tíma eða einfaldlega vantað hvatningu til þess að mæta og klára æfinguna. Það sem er svo einstaklega þægilegt við Crossfit er að geta mætt í tíma og látið segja sér fyrir. Í venjulegum WOD tímum leiðir þjálfari þig í gegnum upphitun, tækni og æfinguna sjálfa svo þú þarft einungis að mæta og púla. Æfingarnar taka oftast 45-60 mínútur svo það er auðvelt að púsla þeim inn í daglega rútínu.
Góður félagsskapur
Það sem heillar mig fyrst og fremst við CrossFit er félagsskapurinn. Að æfa með sama fólkinu daglega skapar skemmtilega stemmningu sem gerir umhverfið einstaklega hvetjandi og orkumikið. Það er frábær tilfinning að klára erfiða æfingu í góðum hópi og finna fyrir stuðning frá bæði félögunum og þjálfurum. Svo að ef þig langar að breyta til, prófa eitthvað nýtt eða skora á þig á nýjan hátt þá hvet ég þig til þess að athuga hvort að CrossFit henti þér.