Ragnar Freyr Ingvarsson er betur þekktur sem Læknirinn í eldhúsinu. Hann hefur haldið úti matarbloggi um árabil og gefið út þrjár vinsælar matreiðslubækur. Grillveislan er frábær matreiðslubók en hún fjallar um ýmis konar eldamennsku á útigrillinu. Hér fylgir uppskrift af súrdeigsbotni og gómsætri humarpizzu úr smiðju Ragnars.
Pizzubotn
Fyrir súrdeigið
5 dl vatn
100 g spelthveiti
50 g heilhveiti
50 g rúgmjöl
- Hellið vatninu og öllu mjölinu saman í krukku og hrærið vandlega saman.
- Látið standa í opinni krukkunni í einn til tvo daga við stofuhita til að fanga villta gerið sem finnst í umhverfi okkar. Hrærið reglulega í krukkunni.
- Eftir einn til tvo daga má setja lok á krukkuna en látið hana standa áfram við stofuhita í um viku eða þangað til gerið fer að ilma eins og ferskur bjór eða brauð að hefast. Gætið þess að hræra a.m.k. tvisvar daglega í krukkunni.
- Geymið síðan súrdeigið í ísskáp. Þegar tekið er af því þarf að „mata“ það með því að bæta hveiti og vatni í krukkuna til að halda því við. Gott súrdeig getur lifað í ár og öld!
Flatbökudeig gert með súrdeigi
Sjálft deigið er síðan ekkert ósvipað venjulegu deigi nema að undirbúningurinn hefst helst sólarhring áður en flatbökuveislan á að eiga sér stað. Það má sleppa því að nota þurrgerið – en það flýtir aðeins fyrir gerjun deigsins.
1 kg spelthveiti
500 ml súrdeig
25 g þurrger (má sleppa)
500 ml vatn
3 msk salt
- Setjið hveitið í skál og blandið súrdeiginu og þurrgerinu saman með sleif eða sleikju.
- Bætið saltinu í deigið og blandið svo vatninu varlega saman við, hnoðið með sleifinni eða með höndunum þar til deigið hefur myndað góðan klump.
- Hnoðið deigið með höndunum eða í hrærivél þangað til það er fallega mjúkt og teygjanlegt.
- Látið hefast í sex til átta klukkustundir að lágmarki – helst yfir nótt.
Lúxusflatbaka með humri og þistilhjörtum
Fátt er ljúffengara en íslenskur humar og þessi flatbaka dregur ekkert úr því – nema síður væri. Humar er dýrt hráefni og í þessari uppskrift teygir hver humarhali sig langt. Það þarf ekki mikið til þess að maður fái á tilfinninguna að stundum lifi maður í hreinum vellystingum.
Eins og einhver framakonan sagði þá passar ljúffengt hvítvín afar vel með þessari flatböku enda sóma humar og þistilhjörtu sér vel með slíkum förunaut. Kannski eitthvert ljúffengt Chardonnay eða Sauvignion blanc?
1 flatbökubotn
4 msk hvítlauksolía
4 humarhalar
4-6 þistilhjörtu í olíu
handfylli rifinn mozzarella
salt og pipar
steinselja til skreytingar
- Fletjið út deigið eins þunnt og unnt er.
- Penslið deigið með hvítlauksolíu og dreifið rifna mozzarella ostinum yfir.
- Raðið humarhölunum á flatbökuna ásamt þistilhjörtunum. Saltið og piprið, og bakið í brennandi heitum ofninum.
- Skreytið með örlitlu af ferskri steinselju.
Uppskriftir og ljósmyndir: Ragnar Freyr Ingvarsson