Ahimsa á jógadýnunni

Jógadýnan getur verið æfingavöllur til að æfa okkur í svo miklu meira heldur en bara jógastöðunum. Einhvers staðar las ég að dýnan endurspeglaði heim okkar og fyrir mig eru það orð að sönnu. Þegar ég kem á dýnuna mína þá horfist ég í augu við sjálfa mig, hvernig mér raunverulega líður. Orðið Yoga þýðir að sameina, og á dýnunni viljum við sameina huga, líkama og sál.

Þú ert áhugaverðasta viðfangsefnið í þínu lífi.

Takmark jóga er ekki bara að gera okkur meðvitaðri um líkama okkar, heldur einnig hugsanir. Farðu að veita því athygli hvernig þú hugsar til þín á dýnunni þegar þú ert í krefjandi stöðu. Fyrsta skrefið í átt að breytingu er alltaf að taka eftir. Ef það eru niðurrifshugsanir sem læðast að þér, prófaðu þá að stoppa þær um leið og þú verður var við þær og setja jákvæðar í staðinn. Það sem við veitum athygli í lífi okkar eykst, hvort sem það er gott eða slæmt. Veittu því góða sem þú gerir athygli, og hvergi er betra að æfa sig en á jógadýnunni. Sama á við um að virða þig þar sem þú ert í þinni jógaástundum, eða eins og “Hot Yoga” gúrúinn minn Jimmy Barkan segir, finndu brúnina eða mörkin þín í hverri stöðu og farðu svo örlítið lengra. Vertu heiðarleg/ur við sjálfan þig og virtu þig og líkama þinn það mikið að þú veljir ekki viljandi að valda þér skaða, hvorki andlegan né líkamlegan. Róm var ekki byggð á einum degi og það sama gildir um jógaástundunina okkar. Við höfum allt lífið til að kanna stöðurnar, kynnast okkur sjálfum betur og betur og dýpka okkur sem manneskjur. Þú ert áhugaverðasta viðfangsefnið í þínu lífi. Það að kynnast sjálfum þér, veita þér athygli og njóta þess einfaldlega að vera þetta einstaka eintak sem þú ert!

Jógafræðin eru svo gömul að enginn veit með fullri vissu hvenær þau urðu til. Patanjali kom skipulagi á þessi fræði, setti þau saman í skiljanlegar leiðbeiningar eða sútrur um hvernig iðka skuli jóga. Sutra er Sanskrit og þýðir þráður. Við iðkun jóga, samkvæmt Patanjali, hreinsum við burt það sem hindrar okkur í að sjá okkar sanna sjálf og minnkum eða jafnvel eyðum alveg þjáningu þess að vera mannvera. Sútrurnar eru 200 og er texti hverrar sútru stuttur, varla heil skiljanleg setning og minnir á glósur. Jóga sútrur Patanjali má kalla hjarta eða sál jóga. Þó fræðimönnum komi ekki saman um hvenær jóginn Patanjali var uppi, þá eru þeir flestir sammála um að hann megi kalla upphafsmann jóga eins og við þekkjum það í dag. Talið er að Patanjali hafi jafnvel verið margir fræðimenn og að hann/þeir hafi verið uppi allt frá 5000 fyrir Krist þar til 300 eftir Krist. Sútrurnar skiptast í fjóra kafla og í kafla tvö má finna lýsingu á Ashtanga, átta útlimum jógískrar iðkunar, en anga er útlimur á Sanskrít:

  1. Yama – viðmót okkar gagnvart umhverfinu
  2. Niyama – viðmót okkar gagnvart okkur sjálfum
  3. Asana – jógastöðurnar
  4. Pranayama – öndunaræfingar
  5. Pratyahara – draga fókusinn inn á við
  6. Dharana – fókus hugans
  7. Dhyana – hugleiðsla
  8. Samadhi – ofurmeðvitund

Yama og Niyama skiptast svo í fimm undirflokka eða leiðbeiningar um hvernig við skulum umgangast aðra og okkur sjálf. Segja má að Yamas og Niyamas séu undirstöður jógískar hugsunar. Þær ná langt út fyrir það að iðka jógastöðurnar, Asanas, þær eru lífstíll, hvernig þú velur að lifa þínu lífi.

Fyrsta Yaman er Ahimsa. Það að hún komi fremst í röðinni gefur mikilvægi hennar til kynna. Ahimsa þýðir að valda ekki skaða eða ofbeldi. Við eigum mjög auðvelt með að sjá að það að taka líf annarrar manneskju er ekki siðferðilega rétt, og er fangelsisvist, refsing við slíku athæfi í siðmenntuðum löndum. Einnig er það að beita aðra manneskju ofbeldi fjarstæðukennt í huga okkar flestra. En það er hægt að valda skaða á fjölbreyttari hátt, til dæmis með orðum. Orð hafa mikinn mátt og geta auðveldlega valdið annarri manneskju gríðarlegri andlegri þjáningu og sorg. En hvað með okkur sjálf? Við getum oft átt í ótrúlegustu innri samræðum við okkur sjálf, þar sem við tölum allt annað en fallega við okkur. Hugsanir okkar í eigin garð eru oft það grimmar að við myndum aldrei láta okkur detta það í hug að segja þær upphátt eða beina þeim að ástvini okkar, eða öðru fólki í okkar nánasta umhverfi. Æfðu þig í því að hugsa til þín eins og þú hugsar til einhvers sem er þér kær. Þú ert fullkomin/n nú þegar, það eina sem þú þarft að gera er að átta þig á því.

Læt fylgja með tilvitnun í Iyengar, en bækur hans um jóga og lífið hafa snert mig djúpt.

Yoga allows you to rediscover a sense of wholeness in your life, where you do not feel like you are constantly trying to fit broken pieces together.

B.K.S. Iyengar, Light on Life