Aparigraha – Allt er breytingum háð

Aparigraha er fimmta og jafnframt síðasta Yaman í Jógasútrum Patanjali. Aparigraha þýðist sem óeigingirni, að taka ekki það sem tilheyrir okkur ekki, að vera ekki gráðugur. Jafnvel mætti segja að Aparigraha táknaði að vera fær um að sleppa takinu, hvort sem það er á aðstæðum, fólki eða hlutum.

Í dag er það sem kallast mínimaliskur lífstíll að ryðja sér til rúms og er jafnvel komin grúppa á Facebook fyrir áhugasama. Daglega fáum við skilaboð frá umhverfinu að til að okkur líði vel þá þurfum við að eignast þetta eða hitt. Venjuleg heimili eru stútfull af tækjum, tólum og skrautmunum sem við notum mögulega aldrei. Við tengjum jafnvel ímynd okkar við það hvernig úr við eigum, hvaða tegund tölvan okkar er eða frá hvaða merki fötin eru sem við klæðumst. Sama hvað við reynum þá er víman af nýjum hlut skammvinn, við getum ekki keypt okkur hugarró. Aparigraha biður okkur um að safna ekki að okkur óþarfa dóti, að taka eða kaupa ekki meira en við þurfum. Alveg eins og hægt er að halda í eða safna að sér óþarfa dóti þá er einnig hægt að ríghalda í atburði úr fortíðinni, tilfinningar eða jafnvel manneskjur.

Hvort sem það er ánægjuleg upplifun eða eitthvað sem fór úrskeiðis í lífi okkar þá virðumst við mannverurnar eiga jafn erfitt með að sleppa takinu á hvoru tveggja. Við viljum að sjálfsögðu halda í það sem veitti okkur gleði, framlengja þá tilfinningu eins og hægt er, eða reynum að endurskapa aðstæðurnar sem veittu okkur þessa ánægju. Þegar það svo tekst ekki þá upplifum við vanlíðan og vonbrigði. Þegar kemur að óþægilegum aðstæðum eða neikvæðri lífsreynslu þá virðumst við eiga jafn erfitt með að sleppa. Við spilum mistökin sem við gerðum eða aðstæður þar sem okkur fannst komið fram við okkur af ósanngirni, aftur og aftur í huga okkar, föst í vanlíðan og vanmætti. Við þekkjum það að sama skapi hversu erfitt það getur verið sleppa tökunum á þeim sem okkur eru kærir, hvort sem um er að ræða ástarsamband eða einhver sem stendur okkur nærri eins og til dæmis börnin okkar. Með því að neita að sleppa takinu völdum við sjálfum okkur og viðkomandi aðila sársauka og erum jafnvel að hefta þroska þess einstaklings sem um ræðir. Sem dæmi má nefna að halda aftur af börnum sínum eða draga úr því að þau geri tilraunir og prófi sig áfram í lífinu og tilverunni. Við viljum vissulega vernda þau og reyna að koma í veg fyrir að þau geri eitthvað sem þau sjái eftir, en það að reka sig á er mikilvægur þáttur í þroskaferli okkar sem einstaklinga, eitthvað sem við þurfum öll að ganga í gegnum. Hugmyndir og skoðanir geta að sama skapi verið eitthvað sem við eigum til í að halda í og finnst við ekki geta breytt.

Þó svo að við lítum á ákveðin hátt á lífið og tilveruna á einhverjum ákveðnum tímapunkti í lífinu, þá er ekki þar með sagt að við þurfum að halda í þær skoðanir það sem eftir er. Við þroskumst og breytumst og þurfum í raun að endurskoða okkur reglulega sem einstaklinga. Spyrja okkur að því hvað það sé sem veitir okkur hamingju í lífinu, fyrir hvað við stöndum, hvernig manneskjur viljum við vera. Eðlilega höfum við ekki sömu gildi um fertugt og við höfðum 25 ára. Það er mikið frelsi fólgið í því að geta endurmetið aftsöðu sína og skipt um skoðun. Við getum jafnvel tekið meðvitaða ákvörðun um að breyta skoðunum okkar eða hugarfari eins og til dæmis varðandi jógastöður. Í langan tíma þá átti ég í erfiðu sambandi við Awkward og Standing Head to Knee. Mér kveið fyrir þessum stöðum í hverjum tíma og þurfti oftar en ekki bráðnauðsynlega að fara á klósettið þegar komið var að standandi stöðunum. Svo tók ég meðvitað ákvörðun um að takast á við þessar tvær stöður og breyta viðhorfi mínu gangvart þeim. Í stað þess að hugsa um þær sem skelfilega erfiðar fór ég að horfa á þær sem krefjandi verkefni. Hægt og rólega fór mér að ganga betur og ég fann hvernig bæði líkamlegi og andlegi styrkur minn jókst. Í dag er Standing Head to Knee ein af mínum uppáhaldsjógastöðum.

Það er í eðli manneskjunnar að vilja geta gengið hlutunum vísum, það að vita svona nokkurnveginn hvað er framundan veitir ákveðna öryggistilfinningu. En heimurinn og við sjálf erum á stanslausri hreyfingu og það að ætla að stöðva eða koma í veg fyrir breytingar er samkvæmt jógafræðunum, helsta ástæðan fyrir andlegri þjáningu. Allt á sér upphaf og endi, hvort sem það eru tilfinningar, sambönd, samskipti eða tímabil í lífi okkar. Ef við fylgjum Aparigraha eftir bestu getu eigum við möguleika á að einfalda líf okkar. Í raun er það eina sem er öruggt í lífinu, að ekkert er öruggt og að allt er breytingum háð.

Og ef þig vantar hjálp við að sleppa…

https://www.youtube.com/watch?v=moSFlvxnbgk

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.