Jógastaða vikunnar
BOGINN:
Dhanurasana
Dhanu = Bogi , Asana = Staða
Jógarnir kenndu okkur að aldurinn mælist ekki í árunum heldur í ástandi hryggjarins. Þegar við styrkjum og örvum hryggjarsúluna þá örvum við flæði í mænunni og styrkjum taugakerfið. Við erum eins ung og ástand hryggjarins! Krefjandi jógastöður eins og Bogann er best að læra undir leiðsögn kennara, en annars fara rólega og varlega í stöðurnar. Til að fara í fettur, þarf líkaminn að hafa sterka miðju og góða magavöðva. Lífið er áskorun, jóga er spennandi meðvituð áskorun. Smám saman finnum við áhrifin af jógadýnunni út í lífið.
STAÐAN:
Liggðu á maganum með fótleggi í mjaðmabreidd og hendur niður með síðum. Beygðu svo hnén og haltu um ökklana. (Má grípa í buxur eða hafa band utan um fætur). Andaðu að og lyftu bringu frá jörðu og teygðu fætur upp og aftur. Þrýstu ristum inn í lófann og upp. Gott er að hafa augun lokuð og rúlla þeim upp í punktinn milli augnbrúna. Allt verður léttara með þriðja augað virkt. Ekki er verra að finna innra búddabrosið! Haltu stöðugleika með önduninni og jarðtengingu við naflastöðina. Þú getur haldið Boganum frá 30.sekúndum upp í 3 mínútur. Að virða líkamann og mörkin sín er mjög mikilvægt í jóga.
ÁHRIF:
Boginn styrkir bak og liðkar hrygginn. Styrkir einnig kviðvöðva og örvar æxlunarfærin. Mjög góð fyrir meltingu og að losa um fyrirtíðarspennu. Opnar bringu, háls og axlir og tónar vöðvana í fótleggjum og handleggjum. Boginn er krefjandi jógastaða fyrir flesta en gefur dásamleg áhrif þegar við opnum fyrir orkuflæði í hryggnum. Svo er ekki verra að hafa kitlandi kát nýru!