Bókin :: Í dag

Um daginn hvíslaði lítill fugl að mér titli á bók sem ég hafði ekki heyrt um áður. Ég rölti í Spark Design Gallerí á Klapparstígnum og eftir að hafa skimað nokkrum sinnum yfir bókaborðið fann ég hana loksins. Bókin lætur ekki mikið yfir sér enda frekar lítil, forsíðan hvít og óskreytt, en þykktin kom svo sannarlega á óvart.

Bókin ber titilinn Í dag og er hugmyndabók að því hvernig maður gerir lífið svolítið skemmtilegra. Hver einasta síða í bókinni er handteiknuð af höfundinum Ólöfu Haraldsdóttur og svo skönnuð inn. Hver blaðsíða er ólík þeirri á undan, skreytt með dagsetningu, með fallegri myndskreytingu og hugmynd. Bókin er uppbyggð eins og dagbók, þar sem þú færð eina hugmynd á dag allt árið af hinu ýmsu uppátækjum, þar má nefna tvö af mínum uppáhalds: Vertu tímalaus í dag og Finndu 5 nýjar leiðir til þess að sitja á stól. 

Smelltu til að stækka myndirnar!

Bókina mætti til dæmis nota sem dagbók, hugmyndabók, skissubók, eða glósubók. Hún er semsagt ætluð til þess að skrifa í hana og ástæða þess að forsíðan er alveg hvít er svo að hver og einn geti gert sína eigin forsíðu! Þessi bók er að mínu mati frábær tækifærisgjöf handa góðum vini nú eða gjöf til þín frá þér. Hún veitir innblástur á degi hverjum til að virkja sköpunarkraftinn og hugmyndaflugið þ.e.a.s ef maður fer eftir fyrirmælunum! Ekki skemmir svo fyrir að hún er prentuð í umhverfisvænni prentsmiðju!

Bókin fæst á Kaffitár í Bankastræti, í Eymundsson á Skólavörðustíg og norður á Akureyri, í Bókabúð Steinars, í Þingborg og í Spark Design á Klappastígnum og hjá höfundinum Ólöfu Haraldsdóttur með því að senda henni póst á egerbaraeg@simnet.is

Tögg úr greininni
, , , ,