Bragðmikill bókaklúbbur

Bókaklúbbur
TEXTI Shruthi Basappa   MYNDIR Árni Ólafur Jónsson

Að undanförnu hafa vinsældir matreiðslubókaklúbba farið ört vaxandi um allan heim – í sýndarveruleika sem og í raunheimum. Í samanburði er matreiðslubókaklúbburinn, sem ég stofnaði hér á Íslandi, frekar látlaus. Allt frá því að ég flutti til Reykjavíkur hefur spenningurinn, sem fylgir því að búa í landi hins svokallaða Nordic Noir, hjálpað mér að komast í gegnum þá erfiðu þraut sem fylgir því að flytja milli landa. Eins og svo margir í sömu sporum sótti ég huggun í mat og vildi skapa samfélag fyrir fólk sem deilir með mér ástríðu fyrir mat og matargerð. 

Sem innflytjandi frá landi utan Evrópu hefur sannfæring mín að matur brúi menningarheima haldið áfram að styrkjast. Matur hefur alltaf verið samofinn pólitík. En hver ræktar matinn okkar? Eða býr hann til? Hvers vegna sjáum við sumar matartegundir í jákvæðara ljósi en aðrar? Hvaða persónueinkenni tengjum við ákveðnum mat? Og hvernig breytist þessi skynjun með tímanum? Mér finnst það vera heillandi að leita svara við þessum spurningum hér á Íslandi þar sem mikil gróska er í matargerð.

Rétt eins og í bókaklúbbi, þá velur klúbburinn okkar bók – matreiðslubók. Við hittumst síðan á sex vikna fresti, eldum og borðum rétti eftir völdum uppskriftum. Reyndar geta matreiðslubóka klúbbar verið af ýmsum toga. Sums staðar ægir öllu saman en annars staðar – eins og hjá okkur – höldum við ákveðinni línu, svo að það jaðrar við nördahátt. Við höfum kannað fjöldann allan af mismunandi straumum í matargerð, hráefnum og aðferðum. Við höfum eldað taílenskan, marokkóskan og mexíkóskan mat, sem og grænkerafæði. Hver leiðangur hefur verið einstök upplifun fyrir bragðlaukana. Um þessar mundir búum við okkur undir veturinn með bókinni The Noma Guide to Fermentation. Samhliða uppskriftum úr bókinni munum við halda litlu jólin og elda jólarétti víðs vegar að úr heiminum. 

Í röðum okkar má finna allt frá faglærðum matreiðslumeisturum til áhugamanna. Í hvert skipti sem við hittumst eru samræðurnar eins gefandi og blæbrigðaríkar og réttirnir sem við eldum.

Ég er svo lánsöm að tilheyra hópi fólks sem deilir þeirri sannfæringu að það að elda og njóta matar í sameiningu sé svo miklu meira en summa partanna. Klúbburinn okkar er opinn öllu áhugafólki um matargerð og eina þátttökugjaldið er áhugi, ástríða og víðsýni. Í röðum okkar má finna allt frá faglærðum matreiðslumeisturum til áhugamanna. Í hvert skipti sem við hittumst eru samræðurnar eins gefandi og blæbrigðaríkar og réttirnir sem við eldum. Við höfum handrúllað kúskús, sundurlimað önd, grillað, smyglað hráefnum og rökrætt kosti og galla uppskrifta og höfunda þeirra. Ávallt reiðum við fram ríkulegar máltíðir sem gefa fínustu veitingastöðum ekkert eftir. Ávallt göngum við södd frá borði, endurnærð og full tilhlökkunar til næsta fundar. 

Segja má að nafnlausi matarklúbburinn okkar – sem elskar mat af öllu hjarta og skammast sín ekkert fyrir það – sé smækkuð útgáfa af lífinu sjálfu. 

Nú fimm árum síðar er skemmtilegur draumur orðinn að kraftmiklu samfélagi. Segja má að nafnlausi matarklúbburinn okkar – sem elskar mat af öllu hjarta og skammast sín ekkert fyrir það – sé smækkuð útgáfa af lífinu sjálfu. 

Greinin birtist fyrst í tímaritinu FÆÐA | FOOD 2019.  Enska útgáfan er á icelandicfood.is