Dansað inn í nýtt ár

Í samanburði við suðrænni þjóðir sem dilla sér við minnsta tækifæri erum við Íslendingar upp til hópa frekar frosnir þegar kemur að frjálsri, óheftri hreyfingu. Kannski hefur landfræðileg staðsetning eitthvað með það að gera, óþægilega þykkar yfirhafnir eða einfaldlega hræðslan við að vera asnaleg. Ég ólst t.d. ekki upp við það að mamma væri tjúttandi inni í stofu með tónlistina á fullu og dansinn var eiginlega ekki sýnilegur á æskuheimili mínu. Hlutirnir voru bara frekar eðlilegir. Það er eitthvað annað sem mín börn þurfa að þola. Unglingurinn á heimilinu gæfi t.d. allt fyrir það að eiga venjulega mömmu sem hegðaði sér vandræðilega! Kannski leynist lítið suðrænt gen í mér því að ég á erfitt með að vera kyrr ef um hressilega tónlist er að ræða og svo vil ég líka ala börnin mín upp við það að það sé „eðlilegt“ að dansa þegar mann langar til og helst að dansa eins og enginn sé að horfa.

Þegar ég var lítil var ég send í dansskóla Heiðars Ástvaldssonar, á unglingsárunum fór ég og lærði diskódansa og þess á milli dansaði ég ballett heima í stofu undir klassískum tónum frá vínilplötunum hans pabba. En það var ekki fyrr en ég var orðin rúmlega tvítugt og fór í minn fyrsta tíma í afródansi að ég upplifði eitthvað sérstakt. Þar fann ég svo sterkt fyrir frelsinu, gleðinni og útrásinni sem dansinn getur veitt manni, en það er einmitt það sem mér finnst eftirsóknarverðast við dansinn.

Síðan þá hef ég verið iðin við að prófa ólíka danstíma; magadans, salsa, dansjóga, zumba og núna síðast súludans. En þegar tækifæri gefst, sem eru alltof fá núorðið, er alltaf skemmtilegast að fara á gott ball og fá útrás í góðra vina hópi.

Fyrir nokkrum árum prófaði ég í fyrsta sinn 5Rytma dans hjá Sigurborgu Kr. Hannesdóttur, en hún hefur lært og kennt þessa tegund dans í mörg ár. Salurinn var fullur af fólki sem var komið til að dansa og tilbúið að gefa ekkert eftir! Eftir tveggja tíma dans við magnaða tónlist kom ég út sveitt og sæl og full af orku. Maður þarf ekki að vera með neina reynslu í dansi til að geta farið í 5Rytma dans og þarf ekki að vera klæddur á ákveðinn hátt; bara mæta og hætta að hugsa um hvað aðrir halda um mann og sjá hvað gerist. Þegar ég svo frétti af 5Rytma-námskeiðinu Veldu þína leið – inn í 2015, sem samanstendur af dansi og klippimyndagerð, þá ákvað ég að slá til. Eftir góðan dag með skemmtilegum hópi fólks hafði ég kvatt gamla árið og boðið það nýja velkomið með óskaspjaldi fyrir árið 2015. Öll höfum við gott af því að staldra við og líta yfir farinn veg og velta því fyrir okkur hvernig við viljum að framhaldið verði. Að gera það með dansi og klippivinnu er einstaklega áhugaverð leið til þess. Mitt útklippuspjald hangir enn uppi og ég lít reglulega á það enda gott að minna sig á þá framtíðarmynd og þá vegferð sem maður vill lifa og stefna á.

Screen Shot 2015-12-15 at 4.54.37 PM

Eftir námskeiðið ákvað ég að leita frekari skýringa hjá Sigurborgu um hvað það væri sem gerðist innra með okkur þegar við dönsuðum 5Rytma dans?

„Í 5Rytmunum erum við ekki að læra spor heldur finna þann dans sem býr í okkur, dansinn sem við kunnum áður en við lærum dansspor og fáum þá hugmynd að það sé hægt að gera eitthvað rétt eða rangt í dansi. Rytmarnir eru fimm, eins og nafnið gefur til kynna, og þann fyrsta köllum við flæði, þar sem við finnum mýktina, sveigjanleikann og jarðtengingu. Þá tekur við stakkató, með skörpum og ákveðnum hreyfingum, og síðan kaos, þar sem við sleppum og losum.  Þá er eins og okkur sé lyft upp í lýrík, sem er leikandi léttur dans ,og loks komum við heim í kyrrð, hæga og hugleiðslukennda hreyfingu. Þegar við dönsum þessa rytma í þessari röð verður til alda, bylgjuhreyfing, og þannig flæðir öll orka.  Við þekkjum ýmsar leiðir til að kyrra hugann, t.d. hugleiðslu og jóga. 5Rytma dansinn er ein slík leið, en hún er öðruvísi og gefur meiri tjáningu og útrás.“

En hvernig getur dansinn og klippimyndin gagnast okkur inn í nýtt ár?

„Þegar við förum að setja ásetning okkar og drauma niður á klippimyndina, erum við búin að dansa fyrir árið sem er að líða. Þannig erum við meira í líkamanum en huganum og það fer í gang mikil sköpun og flæði sem sprettur úr djúpvitundinni. Myndin birtir það sem sálin kallar á. Ég hef oft uppgötvað löngu seinna af hverju einhver tiltekin mynd rataði inn á plakatið hjá mér!

Best er að hafa klippimyndina uppi á vegg þar sem hún blasir við. Þannig verður hún vegvísir sem styður okkur allt árið. Margir kjósa að útfæra markmiðin nánar, t.d. í markþjálfun, sem virkar vel.

Gott er að velja eina yfirskrift, orð eða setningu, fyrir klippimyndina, eða óskaspjaldið. Þessi yfirskrift getur haft sterk áhrif á afstöðu okkar til lífsins á nýju ári. Yfirskriftin mín í ár er t.d. orðið „prófa“.  Það hefur verið mér dýrmætt veganesti til að losa um fullkomnunaráráttuna og öðlast nýja lífsreynslu.

Hvenær eru næstu námskeið? 
Námskeiðið „Veldu þína leið – inn í 2016“  verður haldið mánudaginn 28. desember kl. 16.30 – 22.30 og líka laugardaginn 2. janúar kl. 11-17.  Einnig mun ég bjóða upp á námskeiðið í Stykkishólmi 29. desember og Grundarfirði 30. desember.

Sjá nánar á www.dansfyrirlifid.is


Myndir og texti: Guðbjörg Gissurardóttir – GREININ BIRTIST Í JÓLABLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR 2015

 

Tögg úr greininni
, , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.