Eldhúsapótekið: Magakvillar

Það er algengt að árstíðir virðast færast til. Einn daginn er vor í lofti og svo allt í einu, skyndilega kyngir niður alveg heilum helling af snjó!  Í slíkum hitabreytingum er algengt að fólk taki til sín pestir sem taka á sig ólíkar myndir. Eldhúsapótekið heldur áfram en nú tökum við saman náttúruleg húsráð við hinum ýmsu magakvillum.

Magakvillar

Ælupest

Uppköst geta átt sér margvíslegar orsakir og ganga yfirleitt yfir á 2 – 10 dögum. Mikilvægt er að passa vel uppá að ofþorna ekki, drekka vel og sleppa fastri fæðu og mjólkurvörum á meðan pestin gengur yfir.

HUNANG: Takið inn eina teskeið af góðu hunangi (helst hráu og lífrænu sem fæst í heilsubúðum) eftir uppköst eða á 2-3 tíma fresti. Einnig er hægt að blanda hunanginu út í heitt vatn. Útí vatnið má einnig bæta kanil sem talinn er góður fyrir meltinguna og magann.

DRYKKIR: Mikilvægt er að drekka en ekki of mikið í einu. Kókosvatn hefur marga góða eiginleika og efnasambönd (m.a. vítamín og steinefni) sem nýtast líkamanum vel í þessu ástandi. Einnig er hægt að prófa eftirfarandi: Sódavatn með sítrónu eða lime út í, engiferöl eða vatn með engifersneiðum út í og íþróttadrykkir eins og Gatorade virka vel fyrir fullorðna.Ávaxtadrykki skal þynna vel með vatni. Í vatnsmelónu er mikill vökvi og mikið af góðri auðmeltanlegri næringu. Eftir að uppköst hætta þá ætti að vera hættulaust að byrja rólega að borða aftur. Gott er að byrja á banana, hrísgrjónum, eplamauki (án sykurs) og tekexi eða ristuðu brauði (án smjörs) en allt þetta er auðmeltanlegt.

Magaverkur/krampi

EPLAEDIK: Setjið c.a. eina matskeið útí vatnsglas og drekkið.

MATARSÓDI: Setjið 1 mask. af matarsóda útí eitt vatnsglas og drekkið. 

KAMILLUBAKSTUR: Setjið 2 msk kamillu (kamillute) í einn líter af sjóðandi vatni. Látið standa í 3 mínútur og sigtið síðan kamilluna frá. Bleytið klútinn í vatninu. Leggið í handklæði og vindið mesta vökvann úr, leggið volgan klútinn við magann. Látið hann liggja þar í 20 mínútur. Endurtakið eftir þörfum. Einnig er hægt að nota þessa blöndu sem fótabað. 

TE: Kamillute er slakandi og fjallagrös eru einnig talin góð fyrir magann.

Niðurgangur

Hætta er á ofþornun þegar niðurgangur hefur staðið yfir í meira en einn til tvo daga og því mikilvægt að passa að innbyrða nóg af vökva. Einnig er gott að taka inn Acidophilus til að byggja upp eðlilega þarmaflóru á ný.

EPLAEDIK: Setjið 2 msk af eplaediki út í 1 bolla af heitu eða köldu vatni. Gott að bæta einni teskeið af hunangi útí. 

TURMERIK: Setjið 1 teskeið af turmerik kryddi út í 1 bolla af jurtate eða bara í vatnsglas og drekkið eftir þörfum. 

HRÍSGRJÓNAMJÓLK: Notið hana í stað mjólkur, hún er einnig stemmandi.

HRÍSGRJÓN: Soðin hrísgrjón eða grjónagrautur (sleppa mjólkinni).

BLÁBER: Bláber eru talin stemmandi.

EPLI: Pektín sem finnst í hýði epla hjálpar að þykkja hægðirnar.

SVART TE: Melrose eða annað svart te (ekki mjólk eða sykur útí)

Harðlífi

Mikilvægt er að fá nægilegar trefjar og stunda góða hreyfingu og sleppa hvítu hveiti og sykri sem hefur stemmandi áhrif. 

VATN: Drekkið vel af vatni, nokkur glös á dag. 

SVESKJUR: Sveskjur og sveskjusafi losa mjög vel um harðlífi. 

TREFJAR: Borðið trefjaríka fæðu:  Ávexti, grófmeti, hörfræ, baunir og þurrkaða ávexti

OLÍA: 1 msk kaldpressuð olía, hörfræ- eða ólífuolía á fastandi maga fyrst á morgnanna.

ÁVAXTAHRISTINGUR: Hræra saman í matvinnsluvél banönum, perum og möndlumjólk. Þetta er góð og trefjarík næring. 

PERUR: Perur og perusafi eru losandi.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2010

Tögg úr greininni
, , ,