Uppeldið
Þú varst aftur á móti eitthvað annað fyrir mér. Ég var svo staðráðin í því að veita þér gott líf og betra uppeldi. Við deildum svo mörgu, þú verandi frá Mexíkó, eða að minnsta kosti einhvers staðar þar í grennd, og ég með Mexíkó í hjartanu, sem er önnur og lengri saga. Ég lærði fljótt að þú ert orðin þyrst þegar fyrstu tveir sentimetrarnir af moldinni eru þurrir. Á sex vikna fresti má ég gefa þér vítamín í vatnið. En þú vilt það einungis yfir sumartímann, ólíkt okkur mönnunum.
Elsku monstera, á veturna þarftu þó talsvert minna að drekka og verður stundum blúsuð eins og við hin. Þó það sé alls ekki nauðsynlegt þá veit ég að, þú mín kæra latína, kannt sérstaklega að meta dekur eins og ég. Að láta úða yfir blöðin þín endrum og eins eða strjúka blíðlega yfir þau með tusku. Því flennistór laufin safna vissulega ryki. Það sem mestu máli skiptir er að vökva þig ekki of oft heldur einungis þegar þú þarft á því að halda.