Elsku monstera

monstera
TEXTI Anna Sóley Viðarsdóttir

Elsku monstera

Þegar við kynntumst þá hafði ég oft reynt en aldrei tekist að halda plöntum á lífi. Kaktusa kæfði ég með ást og umfram allt vatni. Hinar vökvaði ég ekki nógu oft og hafði þær of mikið í sólinni. Ég talaði ekki nógu mikið við þær eða gerði einhver önnur byrjendamistök plöntuforeldris.

Uppeldið

Þú varst aftur á móti eitthvað annað fyrir mér. Ég var svo staðráðin í því að veita þér gott líf og betra uppeldi. Við deildum svo mörgu, þú verandi frá Mexíkó, eða að minnsta kosti einhvers staðar þar í grennd, og ég með Mexíkó í hjartanu, sem er önnur og lengri saga. Ég lærði fljótt að þú ert orðin þyrst þegar fyrstu tveir sentimetrarnir af moldinni eru þurrir. Á sex vikna fresti má ég gefa þér vítamín í vatnið. En þú vilt það einungis yfir sumartímann, ólíkt okkur mönnunum.

Elsku monstera, á veturna þarftu þó talsvert minna að drekka og verður stundum blúsuð eins og við hin. Þó það sé alls ekki nauðsynlegt þá veit ég að, þú mín kæra latína, kannt sérstaklega að meta dekur eins og ég.  Að láta úða yfir blöðin þín endrum og eins eða strjúka blíðlega yfir þau með tusku. Því flennistór laufin safna vissulega ryki. Það sem mestu máli skiptir er að vökva þig ekki of oft heldur einungis þegar þú þarft á því að halda.

monstera

Ég lærði fljótt að þú ert orðin þyrst þegar fyrstu tveir sentimetrarnir af moldinni eru þurrir. Á sex vikna fresti má ég gefa þér vítamín í vatnið, en þú vilt það einungis yfir sumartímann, ólíkt okkur mönnunum.

Áfall

Eins metnaðarfullur uppalandi og ég var í byrjun hefur margt farið forgörðum. Sérstaklega þar sem ég skildi þig eftir hjá ókunnugum, á meðan ég flakkaði um heiminn. En það var bara vegna þess að ég var viss um að flugfreyjurnar myndu líta mig hornauga ef ég sæti með þig í fanginu. Svo kynnti ég þig fyrir fjörugum hundi (Myrru) sem ákvað að gefa þér væna snyrtingu. Hún hlýtur að hafa hugsað með sér að nú værir þú að teygja aðeins of mikið úr þér og ákveðið að sjá um verkið. Myrra nagaði þig sundur og saman og þegar ég kom heim voru blöð, stönglar og mold út um allt gólf. Ég kom að voðaverkinu og þú varst ægilega móðguð í nokkra daga, en svo tókstu við þér aftur. Við ræddum málin og ákváðum að sættast.

Snyrting

Síðan þá hefur þú unnið hörðum höndum að því að bæta við töpuðum fjölda fallegra blaða. Reyndar var ekki vanþörf á þessari snyrtingu þar sem þú varst búin að teygja blöð og stikla um allt, aðallega í átt að glugganum þar sem þú gast séð sólina. Því þótt þú óskir þess almennt að horfa ekki beint á hana eða láta hana horfa beint á þig, þá viltu samt vita að hún sé þarna til staðar, því eins og ég sjálf þá sólbrennurðu auðveldlega. 

Monsa þú stækkaðir svo hratt, svo nú er svo komið að ég þarf að fara að stækka pottinn þinn.  Bæta við um það bil tveimur sentimetrum í ummál hans og til að þú vaxir ekki villt í allar áttir, og yfirtakir ekki mína agnarsmáu íbúð. Það þarf að snyrta þig reglulega og klípa þig svolítið í stilkinn ef ég vil hafa áhrif á hversu hátt þú nærð. Það er nefnilega þannig að ef þú kemst upp með það verðurðu eins og úfinn morgunmakkinn á mér, og það viljum við ekki. 

Framhaldslíf

Elsku monstera, nú er svo í pottinn búið að ég ætla einnig að skipta þér í fleiri hluta, setja þig í fleiri potta og gefa afkvæmum þínum framhaldslíf á nýjum heimilum. Allir sem hitta þig vilja fá að kynnast þér betur.  En ég held að það eigi eftir að gleðja þig, við höfum náttúrulega alltaf talað um að þú fáir að sjá meira af heiminum. Þetta er að minnsta kosti byrjunin. 

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2018