Ertu á sjálfstýringu?

Ég vona að dagurinn sé þér góður. Það er svo mikið undir okkur sjálfum komið hvernig dagur okkar verður, meira en við viljum stundum viðurkenna. Það er allt of auðvelt að finna blóraböggul ef allt fer í steik. En einn af þeim þáttum sem við getum haft bein áhrif á, getum hreinlega ekki skorast undan ábyrgð okkar, er það sem við borðum og hvað við hreyfum okkur mikið, nú eða lítið ef því er að skipta.

Við höfum öll okkar venjur og aðferðir í daglega lífinu, hvernig við tæklum hlutina. Höfum fundið út að þetta henti okkur bara ágætlega, nú eða hitt. En það er dálítið málið; við erum svo ótrúlega föst í ýmis konar hjólförum, stórum og smáum. Ef við skoðum líf okkar nánar þá erum við vaninn einn. Það er vissulega þægilegt og sparar tíma. Og innkaup auðvitað. Ef við værum til dæmis sífellt að breyta um mataræði eða fara í nýjar og nýjar búðir yrði það dýrt. Það er tímasparnaður að ganga að hlutum nánast sjálfkrafa eins og við gerum við innkaupin. Förum sama hringinn. Sama rútínan dag eftir dag.
En því ekki að breyta til? Hrista aðeins upp í okkur? Bara rólega, smátt og smátt. Alveg eins og við færum til húsgögn eða málum veggi í nýjum litum er gaman að borða eitthvað nýtt, prófa nýja rétti eða ávexti sem maður hefur ekki smakkað áður. Byrja að hreyfa sig á annan hátt; hjóla, ganga, synda. Eða gera eitthvað allt annað. Nota skilningarvitin, vekja upp bragðlauka sem hafa sofnað af of litlu áreiti á lífins göngu. Hreyfa vöðva sem lengi hafa ekki verið spurðir álits. Virkja gleðina sem býr í hverri frumu. Það er áskorun en skemmtileg áskorun.
Ég er ein af þeim sem hef yfirleitt haft meira en nóg á minni könnu og gengið á sjálfstýringunni. Oft á tíðum, því það er svo þægilegt og sparar tíma.
En þar sem ég er nýskriðin eða svo yfir fimmtíu ára víglínuna þá fer hugarfarið aðeins að breytast, hjá mér að minnsta kosti. Loks er ég farin að sjá að ég lifi ekki endalaust. Þó ég vilji það helst. Foreldrar margra á mínum aldri eru komnir af léttasta skeiði, sumir látnir, enn aðrir veikir en sem betur fer þó nokkrir sprækir. Vinir hafa veikst, margir af erfiðum sjúkdómum.
Við erum sem sagt rækilega minnt á að við lifum ekki endalaust. Þó við gjarnan viljum. Og við höfum tíma og tækifæri til að breyta til, snúa við þróun sem hefur meitlast inn áratug eftir áratug, sumt gott, annað síður gott. Nýtum þann tíma og þau tækifæri. Því er það annað hvort að fara upp úr hjólförum slælegra matarvenja og hreyfingarleysis og breyta tilverunni í tækifæri eða fljóta sofandi að feigðarósi.

Við getum haft áhrif.

Þó ekki sé nema bara stundarvellíðanin sem fylgir góðri gönguferð með vinum, mat sem fer vel í maga og er léttur og bragðgóður, fjallgöngu í roki og rigningu eða sundspretti í morgunskímunni. Smátt og smátt förum við að velja þetta en ekki hitt. Því okkur líður betur. Og breytingin heldur áfram, hefur áhrif á líðan, samskipti og líf okkar almennt. Meira en við viljum viðurkenna. Nú, þegar börn margra okkar eru úr grasi vaxin, getum við gefið okkur smá tíma. Tíma þeim ætti að vera vel varið, í okkur sjálf sem hugsað höfum um alla aðra á undan sjálfum okkur. Því þannig er það að vera foreldri.
Unglingarnir okkar eru sjaldan ánægðari en þegar við tökum upp á einhverju skemmtilegu, hristum upp í lífi okkar.
Lærum af þeim. Og gerum eitthvað spennandi í mat, drykk og hreyfingu. Tökum áskorunum og víkkum út sjóndeildarhringinn. Við komum sjálfum okkur á óvart, við getum miklu meira en við höldum. Þó við séum komin hmmm . . . af léttasta skeiði en algjörlega samt á létt skeið. Nýr kafli er að byrja, sumir verða ömmur og afar, aðrir upplifa eitthvað annað nýtt. Breyta til í vinnu eða einkalífi. Lífið er sannarlega ekki búið.
..
Horfið á líf ykkar og sjáið hvort einhverju megi ekki breyta, hverju sem er. Er eitthvað sem þið eruð óánægð með? Hlustið vel á líkama og sál. Verður ykkur vel af þessu eða hinu? Fer eitthvað illa í ykkur? Margir þola sumt ver eftir því sem þeir eldast, verða viðkvæmari. Líkaminn segir alltaf rétt frá.
..
Hreinn matur, tær matur og  vatn; hið einfalda er yfirleitt það allra besta.
Sumir eru svo heppnir að hafa garða eða svalir við íbúðir sínar; þar er hægt að rækta svo margt gott sem þægilegt er að teygja sig í þegar eldað er. Alltaf ferskt. Á haustin má svo gera út berjaleiðangur þar sem öll fjölskyldan tínir á sig gat af andoxunarkúlum og setur í frysti fyrir veturinn. Sveppir eru betri en engir; bragðgóðir og næringarríkir og rifsberin eru yndislega þægileg og bragðgóð.
Nýtið náttúruna, bæði til útivistar og átu. Þar liggja endalausir möguleikar. Dragið fram hjólið og gerið við, nýtið okkar dásamlegu laugar. Það þarf ekki að keyra í fína æfingasali, bara opna útidyrnar og spretta út í lífið.
..
Verið frjó og eigið góða daga!
Tögg úr greininni
, ,