Góð ráð fyrir Hot Yoga

mynd af jógadýnu á viðargólfi

Hot Yoga er jógaiðkun sem hefur hlotið mikilla vinsælda hér á landi. Í Hot Yoga er stundað kröftugt yogaflæði í 38-40° hita og vegna hitans er ýmislegt sem þarf að huga að fyrir tímann, í honum og eftir. Hitinn getur verið yfirgnæfandi fyrir marga, dagsformið okkar er misjafnt og líkaminn okkar verður mýkri, því verðum við að vita okkar takmörk til þess að koma í veg fyrir meiðsli. Ef þú ert byrjandi er gott að hafa í huga að það tekur tíma að venjast hitanum, það er eðlilegt að finna fyrir óþægindum í fyrstu tímunum og munt þú ekki hafa eins mikið þol og þegar þú ert í köldum sal. Hér skiptir því miklu máli að sýna þolinmæði, gefa þessu tíma og ekki vera feimin við að hvíla á milli æfinga.

Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir þá sem iðka Hot Yoga – bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Farðu varlega. Þar sem hitinn er mikill þá verður líkaminn fljótt heitur og vöðvarnir enn mýkri en í köldum sal. Iðkendur komast dýpra í stöðurnar og þar af leiðandi þarf að fara varlega og nauðsynlegt er að vita sín mörk, hlusta á líkamann og sýna skynsemi. Gott er að hafa í huga að fara rólega inn í teygjurnar og fikra sig áfram og alls ekki þvinga sig í neitt.

Vatnsdrykkja. Mikil vatnslosun á sér stað í tímanum þar sem salurinn er heitur og rakur, æfingarnar eru krefjandi og taka á líkamlega sem veldur því að iðkendur svitna mikið. Því skiptir mjög miklu máli að huga vel að vatnsdrykkju þann daginn sem farið er í Hot Yoga. Ef búið er að ákveða að fara í tímann með góðum fyrirvara er gott að undirbúa sig með því að drekka vel að vatni yfir daginn eða aðeins meira en eðlilegt er. Gott er að huga að því að drekka vel klukkutíma fyrir tímann. Eftir á er einnig nauðsynlegt að drekka vel og mæli ég með því að drekka 2-3 glös af vatni. Ekki er gott að venja sig á að drekka of mikið í tímanum sjálfum vegna þess að þá fyllist maginn af vatni sem gerir æfingarnar erfiðari og óþæginlegri, ójafnvægi kemst á hitann í líkamanum og erfiðara verður að halda önduninni jafnri. Að taka einn og einn lítinn sopa þegar kennarinn gefur leyfi er í lagi ef iðkendur kjósa það.

Hvíldu þig. Nauðsynlegt er að muna eftir því að dagsformið er misjafnt. Áhrifavaldar eru til dæmis, hvað var borðað yfir daginn, hvernig sofið var um nóttina, hvort það sé álag í vinnu eða heima við, ásamt ótal fleiri hlutum hafa áhrif á líkama og þol. Slæmt dagsform getur valdið því að hitinn verður yfirgnæfandi og iðkendur finni fyrir svima, ógleði eða vanlíðan og getur valdið því að hitinn getur orðið afnt. Þá er nauðsynlegt að hlusta á líkamann og gefa honum smá hvíld og setjast aftur á hælana, leggja ennið í gólf og slaka á höndunum fram (setjast í “barnið”). Getan til þess að gera æfingarnar í tímanum getur einnig minnkað ef dagsformið er slæmt. Erfiðara getur verið að gera jafnvægisæfingar, líkaminn verður stirður og kemst styttra í teygjur en hann er vanur og styrkurinn getur einnig verið minni. Hér skiptir því málið að hlusta á líkamann, sýna þolinmæði og minna sjálfan sig á að dagsformið er misjafnt.

Mataræði. Hvað er borðað daginn sem farið er í Hot Yoga, getur einnig skipt máli. Mælt er með því að borða ca. tveimur klukkustundum fyrir tímann og ca. einni klukkustund eftir að æfingu er lokið. Gott er að venja sig á að borða létt þann daginn sem farið er í Hot Yoga til þess að halda sér léttum í tímanum og koma í veg fyrir óþægindi í maga við æfingar. Kókosvatn eftir tíma er frábært því það gefur þér aftur hluta af þeim söltum og steinefnum sem töpuðust í hitanum og byggir upp rakabúskapinn.

Hreinlæti og klæðnaður. Þar sem Hot Yoga er gífurlega vinsælt þá er mjög oft þröngt um setið í tímunum og dýnurnar liggja þétt upp við hvor aðra. Þar af leiðandi þarf að sýna nágrannanum tillit, m.a. með því að spreyja ekki miklu ilmvatni á sig rétt fyrir tímann og halda hreinlætinu í fyrirrúmi. Góð ráð til þess að líða sem best í tímanum er að vera í þröngum fötum, þar sem víð föt festast við líkamann þegar svitinn fer að leka af okkur sem getur verið óþægilegt. Einnig er ekki mælt með því að bera á sig body lotion rétt fyrir tímann þar sem líkamann verður mjög sleipur þegar það blandast við svitann. Það getur líka valdið því að erfiðara verður að gera sumar æfingar.

Talaðu við kennarann. Ef þú ert að koma í fyrsta skipti í Hot Yoga eða ert byrjandi láttu þá kennarann vita af því. Þá getur hann fylgst með þér og gefið þér útgáfur af stöðum sem henta byrjendum. Ef þú ert að glíma við meiðsli getur einnig verið gott að láta kennarann vita þar sem hann getur þá fylgst með og hjálpað þér ef það eru einhverjar stöður sem þú getur ekki gert sökum meiðsla.

Sara