Nesti sem gefur orku

Hollusta í skál

Góður helgarundirbúningur er grunnurinn að því að ég næ að borða hollt út vikuna og ég er orkumeiri út daginn. Gott er að prufa nokkur atriði til að byrja með og bæta svo einu við vikulega: 

TEXTI Dagný Berglind Gísladóttir

Kínóa: Ég borða kínóa í morgunverð ef ég er mjög svöng með kanil og berjum, eða ég nota það út í salöt út vikuna til að gera þau matarmeiri. Það tekur dágóðan tíma að sjóða kínóa svo að það er mikill tímasparnaður að útbúa slatta í einu fyrir vikuna. Þetta á við um flest grjón en ég kann að meta kínóa af því að það glúteinlaust og líka gott kalt.

Súpa: Súpur eru klassík og hægt að taka þær með sér í krukku og hita hana upp í vinnunni. Þær eru líka tilvaldar þegar þú hefur lítinn tíma til þess að elda kvöldmat. Ég á það til að finna góða súpu uppskrift og búa hana alltaf til svo að ég reyni að hafa tvær til þess að breyta til reglulega. Þær tvær sem eru í algjöru uppáhaldi eru Gulrófusúpa og Austur-afrísk sætkartöflusúpa. Ég bý þá til stóran skammt og frysti svo afganginn í hæfilegum skömmtum.

Grænmeti: Ég elska brokkolí og sætar kartöflur og set það helst út í öll salöt eða grænmetisrétti. Þess vegna reyni ég að vera búin að gufusjóða (eða baka í ofni) hvoru tveggja fram í tímann til þess að geta hent auðveldlega út í salöt. Einnig er gott að vera með soðnar eða bakaðar rauðrófur til þess að setja út í þeytinga og salöt.

Snakk: Ég blanda saman lífrænum möndlum, kasjúhnetum, goji berum og kókosflögum og tek með mér í krukku á skrifstofuna. Þetta kemur sér vel síðdegis þegar orkan dettur niður og er tilvalið með grænu tei.

Hummus: Heimagerður hummus verður einhvern veginn alltaf bragðbetri en sá tilbúni úr búð og það er lítið mál að búa hann til með töfrasprota eða matvinnsluvél. Gott er að eiga alltaf til í ísskápnum það sem þarf í hummus, þar sem innihaldið eins og kjúklingabaunir og tahini endist lengi.

Chia grautur: Mér finnst chia grautur frábært nesti. Ég geri nokkrar krukkur tilbúnar fyrir vikuna og gríp svo eina og eina með mér. Chia fræ eru næringarrík og þú getur bætt auka orku í grautinn. Settu chia fræ á móti vatni í krukku og geymdu þau í ísskáp á meðan þau sjúga í sig vatnið. Bættu við kanil og til dæmis goji berjum, hörfræjum og einhverjum hnetum og þú er tilbúin í hvað sem er.

Salatdressing: Hvort sem það er dressing úr sýrðum rjóma, sinneps dressing vinaigrette eða pestó þá er frábært að eiga uppáhalds salatdressinguna á lager og geta tekið hana með sér eða sett í flýti ofan á einfalt salat til að gera það girnilegra.

Þetta eru þau atriði sem hafa gagnast mér best og sparað mér helling af tíma og peningum.

Gangi þér vel!