Ég á það til að iða af tilhlökkun þegar ég leggst á koddann á kvöldin enda er morgunmatur mín allra uppáhalds máltíð. Ég get þó verið afskaplega vanaföst og græja alltaf sömu eggjahræruna því að mér finnst hún bæði bragðgóð og fljótleg. Að mínu mati er fjölbreytni þó lykilatriði þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl því hún eykur fjölbreytileika þeirra næringarefna sem þú færð úr fæðunni og kemur í veg fyrir að þú festist í sama farinu. Þegar ég fæ tækifæri til reyni ég því að brjóta upp á vanann og prófa eitthvað nýtt.
Það getur þó reynst erfitt að finna vörur sem eru ekki stútfullar af viðbættum sykri og öðrum óþarfa aukaefnum og fellur morgunkorn undir þann flokk. Mig langar því að deila með ykkur einfaldri uppskrift af granóla sem passar einstaklega vel með ískaldri heimagerðri möndlumjólk, ofan á grautinn eða með jógúrtinu. Þetta ferli er vissulega örlítið flóknara en að skreppa út í búð og velja granóla úr hillunni en það er bara svo gaman að gefa sér smá auka tíma til að dunda við matinn, hann mun smakkast betur fyrir vikið og þið vitið nákvæmlega hvað þið eruð að setja ofan í ykkur. Njótið vel!
Innihald:
1 bolli möndlur
1 bolli pekanhnetur
1 bolli graskersfræ
1 bolli sólblómafræ
1 bolli kókosflögur
½ – 1 bolli kókosolía
3 matskeiðar hunang
1 bolli rúsínur eða aðrir þurrkaðir ávextir
Aðferð:
Setjið hnetur og fræ í matvinnsuvél eða blandara í aðeins örfáar sekúndur svo að þær haldist grófar. Bræðið kókosolíu og blandið henni síðan saman við hunang í skál. Hellið vökvanum yfir hnetu,- og fræblönduna og blandið vel saman. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og dreifið blöndunni vel yfir. Bakið í 20-30 mínútur á 180 gráðum. Takið úr ofninum og leyfið að kólna. Bætið rúsínum við í lokin og geymið í loftþéttu íláti á svölum stað.