Hvað er það við blómakransa?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er við blómakransa sem gerir það að verkum að í góðu sumarveðri grípur mann löngun til að búa til einn slíkan – skella honum svo á höfuðið á næsta barni eða sjálfri sér. Skynsemin segir að þetta sé hégómi, að búa til blómakrans til að hafa á höfðinu í nokkra klukkutíma, svo er kransinn fölnaður að kvöldi dags – blómin dauð og allt ónýtt. Það fer líka mikill tími í að búa til kransinn, tími sem hægt væri að nota í eitthvað gagnlegt og skynsamlegt, eins og að þvo glugga eða reyta arfa. Skynsemin bítur ekkert á löngunina.

Kannski er þetta Ilon Wikland að kenna, henni sem myndskreytti bækur Astridar Lindgren svo dásamlega. Ég verð aldrei þreytt á þessum myndum, dásamleg tré í blóma, sóleyjar, biðukollur, túnfíflar og jafnvel einfalt gras er sem töfrum gætt á teikningunum. Þarna er náttúran alltaf hluti af lífinu, ekki aðeins bakgrunnur eða hlutlaust umhverfi heldur firnasterk nærvera.

Kannski er það bara náttúran sjálf sem hefur þessi áhrif, kannski er þetta löngun til að vera hluti af henni. Hvenær tekur náttúran ákvörðun um eitthvað skynsamlegt eða gagnlegt? Er hún yfir höfuð að hugsa út í það? Nei, og við ættum kannski ekki að gera það heldur. Eyða klukkutíma í að tína villt blóm, binda þau saman í krans og þykjast vera álfar og tröll, blómálfar og dvergar. Vera í núinu, gera eitthvað fallegt þótt það endist ekki lengi og sjá fegurðina í blómunum sem fölna. Vera til og njóta


Tvær tilraunir til að gera blómakrans:

Ég byrjaði á því að tína slatta af blómum fyrir framan húsið mitt, roðafífla, sóleyjar, gleym-mér-eyjar og hvítsmára. Það er gott að vita að blóm í krans þurfa ekki að vera stór, lítil 10-12 cm há blóm, sem vaxa í garðinum, duga.

Ég notaði blómavír, garðskæri, afgang af klifurbandi, sem ég átti, málningarteip því ég átti ekki blómalímband, og silkiborða, sem ég fann í pakkaskrautsskúffunni minni.

Ég klippti klifurbandið, svo það væri 45 cm langt, þannig að það næði ekki alveg í kringum höfuðið. Svo klippti ég tvo 30 cm langa borða, sem ég þræddi í gegnum hvorn endann á bandinu. Það er til að geta bundið kransinn saman við hnakkann, svo hún passi akkúrat á höfuðið.

Svo setti ég saman átta lítil blómabúnt þar sem ég blandaði blómunum saman og límdi stönglana saman með teipi.

 

Ég tók svo blómavír og festi fyrsta blómabúntið kyrfilega við annan endann á klifurbandinu, en klippti ekki á vírinn. Þá setti ég næsta búnt aðeins ofar á bandið en undir blómin, og ég hélt áfram að festa búntin með sama vír, koll af kolli. Ég þurfti aðeins að klippa neðan af stönglunum á búntunum þegar ég var að festa þau.

Þá átti þetta að vera tilbúið. En mér fannst klifurbandið sem ég notaði ekki nógu fallegt undir svo ég vafði silkibandi utanum það allan hringinn. Silkibönd eru alltaf falleg og það er hægt að festa þau, t.d. með lími eða tvöföldu teipi. 

Niðurstaða:

Það var ekki eins erfitt og flókið að gera fallegan blómakrans og ég hélt. Ég gat reddað mér og gert krans, sem tók að sjálfsögðu aðeins lengri tíma en leiðbeiningarnar á Netinu sögðu til um, en æfingin skapar meistarann. Næst mun ég prófa að vefja blómavír með grænu blómalímbandi sem grunn í staðinn fyrir klifurband og málningarteip. Svo er bara að nota hugmyndaflugið og halda áfram að prófa!

„Þú verður að lifa í núinu, fleyta þér með sérhverri öldu, finna eilífðina í hverju andartaki. Flónin standa á eyju tækifæranna og horfa yfir í annað land. Það er ekkert annað land; það er ekkert annað líf en þetta.“ Henry David Thoreau

 

Ef þú þarft tilefni, þá eru hér nokkur:

  1. Þig langar að prófa – því ekki það?
  2. Vegna þess að það er sól og þú ert í stuði.
  3. Skírn/nafnagjöf, ferming eða brúðkaup.
  4. Við útskrift úr leik- eða grunnskóla.
  5. Sumarveisla eða afmæli.
  6. Verslunarmannahelgi – því ekki að gera blómakrans í bústaðinum eða útilegunni?
  7. Tónlistarhátíð – því það er klassískt